Færsluflokkur: Bloggar

Stjórna þú tíma einhverra annarra en okkar!

Í fyrsta lagi: Hvað veit þessi maður um umræðuna hér á landi? Varla skilur hann íslensku. Ekki hlustar hann á Víðsjá á föstudögum, ekki talar hann við fólk almennt. Hann veit yfirleitt ekkert um hvað umræðan snýst. Þessir tímastjórnunarráðgjafar eru allir eins, þeir bjóða patentlausnir sem menn halda að virki en eru tóm tímaeyðsla. Ég var einu sinni settur á svona námskeið en var fljótur að forða mér. Það er eins og ríkisstjórnin hafi keypt hann til þess að segja þetta: Ekki berja á ríkisstjórninni, hugsið jákvætt! Og hvaða andskotans kjötkatlar eru þetta? Sú ríkisstjórn sem tekur vonandi við þrotabúinu bráðum sest ekki við neina kjötkatla. Það verður blóð, sviti og tár!
mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurðurinn á RÚV jafnast á við skemmdarverk á þeirri góðu stofnun

Það eru 17 ár síðan ég hætti störfum á fréttastofu Útvarpsins. Enn á ég nokkra kunningja á þeirri stassjón, en þeim fer nú fækkandi. Þeir og allt annað starfsfólk Útvarpsins, og raunar alls RÚV, á alla mína samúð. Ég veit að þeim sem ekki hefur verið sagt upp líður illa að horfa upp á félaga sína sem verða brátt að taka pokann sinn. Gamall kunningi þarna innandyra fullyrti raunar við mig að ekki yrði skorið niður í almennri fréttaþjónustu en íþróttadeildin yrði hins vegar að draga mikið saman seglin. Ég syrgi það ekki! Hins vegar þýðir samdrátturinn óhjákvæmilega aukið álag á þá föstu starfsmenn sem halda starfinu og fyrir mitt leyti tel ég það vera skemmdarverk á Útvarpinu ef rétt reynist að nú eigi að leggja niður svæðisútvarpsstöðvarnar. Þar hefur mikið uppbyggingarstarf verið unnið undanfarna tvo áratugi, sem virðist nú eiga að fleygja í ruslatunnuna. Og nú bíð ég kvíðinn eftir að heyra hvaða þættir á Rás 1 verða lagðir niður.

Auðvitað er alltaf nauðsynlegt að fara vel með almannafé (já og fé yfirleitt). En við vitum að RÚV hefur verið fjársvelt undanfarinn áratug eða svo, auk þess sem fjárhagsbyrðar hafa verið lagðar á stofnunina og hún að auki gerð að hlutafélagi, sem greiddi fyrir þessum niðurskurði.

Ríkisútvarpið hefur alla tíð verið undirmannað og starfsfólk þess hefur um áratugi unnið sannkallað kraftaverk á hverjum degi. Því hef ég kynnst af eigin raun innanfrá, þegar ég var hluti  af þessari góðu stofnun. Starfsfólk hefur unnið fyrir útvarpið af samviskusemi - og mikilli elsku á stofnuninni - og haldið uppi ótrúlega góðri dagskrá, sem oft gefur ekkert eftir því besta sem gert er í heiminum, með brot af því starfsafli og fé sem annars staðar tíðkast. Það hlýtur að vera dýrt að halda úti metnaðarfullri útvarps/sjónvarpsstarfsemi í landi þar sem búa rétt rúmlega 300 þúsund sálir. Það er þess vegna sárara en tárum tekur að horfa upp á þessa stofnun skorna niður við trog, ofan á fjársvelti undanfarinna ára, sérstaklega á tímum sem þessum þegar Ríkisútvarpið okkar hefði átt að vera í fararbroddi íslenskra fjölmiðla í þágu fólksins.

 Sem formaður Hollvinasamtaka RÚV tilkunni ég að þaðan er álits að vænta innan skamms, þegar tekist hefur að hóa stjórninni saman, sem verður víst því miður ekki fyrr en í næstu viku.

Af þeim sökum verður fólk að gæta þess að það sem ég hef skrifað hér  er eingöngu mínar prívat og persónulegu skoðanir.


Lifi lýðveldið Ísafold!

Það er svo margt sem flýgur í gegnum hugann þessa dagana að maður hefur varla vinnufrið til að sinna brauðstritinu. Eitt flaug mér í hug í framhaldi af því að manni gafst kostur á að segja ríkisstjórninni upp störfum á laugardaginn: Hvers vegna segir þjóðin sig ekki úr lögum við núverandi ríkisstjórn, sem hefur með klúðri sínu og aðgerðarleysi orðið til þess að nafn Íslands hefur troðist í svaðið og orðstír þess orðið fyrir alvarlegum hnekki, og stofna nýtt lýðveldi: Lýðveldið Ísafold?

Ég varpa þessu sisvona fram á fullveldisdaginn.

 


Vandi Ríkisútvarpsins var ekki leystur með hf-inu!

Ég er svolítið hugsi (eins og oftast um þessar mundir) yfir fréttum af niðurskurði á Ríkisútvarpinu og ekki síður yfir því hvernig þetta mál er afgreitt í fjöðlmiðlum, m.a. sjálfu Ríkisútvarpinu. Fram hefur komið að stór hluti af hallarekstri útvarpsins er vegna fjármagnskostnaðar en enginn hefur spurt hvers vegna þessi fjármagnskostnaður sem hvílir á  RÚV er svona mikill. Menntamálaráðherra var ekki heldur spurð um það hvers vegna staðan sé svona þrátt fyrir að RÚV hafi verið hlutafélag í næstum því heilt ár, en það rekstrarform átti að vera svo miklu betra en ríkisstofnunarformið. Við vitum að þessi breyting skilaði engu en það hefði verið fróðlegt að heyra hvernig mrh. hefði snúið sig út úr þessari spurningu hefði hún verið spurð.

En við vitum að mesti bagginn á RÚV er lífeyrisskuldbindingin sem sett var á stofnunina (sem þá var). Ég leyfi mér að birta grein sem ég ritaði um þetta mál í Morgunblaðið fyrir rétt rúmlega einu ári, svona til þess að hressa upp á minni manna. Greininni hefur ekki verið svarað svo ég viti og því lít ég svo á að efni hennar standi:

Vandi RÚV falinn með ohf

 Nú þegar Ríkisútvarpið er orðið að opinberu hlutafélagi virðist útvarpsstjóri vera með fullar hendur fjár; hann kaupir eftirsótta starfsmenn og innlend dagskrárgerð sjónvarps er farin að blómstra. Og fullyrt er að hann aki í glæsibíl á kostnað hlustenda.

Er þá allur fjárhagsvandi RÚV úr sögunni, skuldirnar greiddar, eða kannski þurrkaðar út?

Ég er hræddur um að hvorugt hafi gerst. Skuldir RÚV hvíla nú á herðum opinbers hlutafélags í stað ríkisstofnunar.

Í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur alþingismanns um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins 23. janúar á þessu ári segir að hallarekstur RÚV hafi numið 434 milljónum króna frá janúar til nóvember á því ári samkvæmt óendurskoðuðum reikningum. Samkvæmt árshlutareikiningi RÚV frá 1. janúar til 30. júní 2006 voru uppsafnaðar skuldir stofnunarinnar á því ári tæplega 5,2 milljarðar króna, langtímaskuldir rúmlega 3,3 milljarðar, þar af þrír milljarðar vegna lífeyrisskuldbindinga sem voru lagðar á Ríkisútvarpið árið 1995, án nokkurs rökstuðnings, en skammtímaskuldir tæplega 1,9 milljarðar króna; 700 milljónir króna voru vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar en rúmlega 450 milljónir launaskuld.

Þetta eru ekki nýjar tölur og þær hafa sjálfsagt verið endurskoðaðar en varla lækkað að marki, kannski hækkað. Þess ber þó að geta að skuldin vegna Sinfóníunnar er hætt að aukast vegna þess að rekstri hennar hefur verið létt af RÚV - en kostnaðinn greiðir hið opinbera þó eftir sem áður.

 

Úr háum söðli

Í svari sínu þagði menntamálaráðherra um hverjar orsakir skuldanna voru. En sannleikurinn er þessi: Árið 1995 var eigið fé Ríkisútvarpsins 2,7 milljarðar króna, sem voru 88% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Þá hvíldu engar langtímaskuldir á stofnuninni, skammtíma viðskiptaskuldir voru 400 milljónir og viðskiptakröfur jafnhá upphæð. En á því ári var 2,6 milljarða króna lífeyrisskuldbinding lögð á RÚV með fullum þunga, án haldbærra raka og án þess að stofnuninni væri bættar þessar auknu álögur, nema síður væri; næsta áratuginn hækkuðu afnotagjöldin mun minna en verð- og launaþróun. Árið 1999 var Sjónvarpið flutt af Laugavegi í Efstaleiti og endurnýjað fyrir einn milljarð króna; það fé var útvegað með því að taka langtímalán. Dagskrárkostnaður, sem er að langmestu leyti laun og launatengd gjöld, jókst um 72% á árunum 1994-2002 en launakostnaðurinn sjálfur jókst á sama tímabili um 116%. Síðla árs 2006 var staðan þannig að allt eigið fé RÚV var upp urið og 220 milljónum króna betur, sem er þá viðbót við aðrar skuldir, og einn milljarð vantaði upp á að endar næðu saman í rekstrinum.

Látið var í veðri vaka í fyrravetur að vegna þessarar bágu stöðu væri bráðnauðsynlegt að gera RÚV að hlutafélagi en aldrei útskýrt hvernig það mætti verða, nema hvað hlutafélagaformið var sagt nútímalegra og skilvirkara en ríkisstofnunin. Svo voru lögin samþykkt en RÚV raunar ekki gert að hf-i eins og ætlunin var heldur ohf-i, þar sem o-ið stendur fyrir orðið „opinbert" eins og flestir vita. Í þeim lögum er bráðfyndið (eða sárgrætilegt) ákvæði um að hlutafé RÚV ohf skuli vera fimm milljónir króna, sem er náttúrlega eins og dropi í hafið.

28. september í fyrra spilaði menntamálaráðherra út trompi, samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem átti að taka gildi „samhliða breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins." Í þessum samningi er meðal annars gert ráð fyrir að RÚV kaupi eða gerist meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildamyndum eða öðru sjónvarpsefni fyrir að minnsta kosti 150 milljónir króna á ári frá og með árinu 2008. Sú upphæð á að hækka í 200 milljónir árið 2009 og verða 250 milljónir við lok árs 2012, þegar samningurinn rennur út.

 

Niðurskurður?

Þessi samningur er náttúrlega gleðiefni og ef til vill sjáum við áhrif hans í ýmissi nýlundu í innlendri dagskrárgerð þessar vikurnar. En ég get bara ekki varist þeirri hugsun að þar sem fjárhagur RÚV er svo bágur, að gerðu lánadrottnar kröfu um gjaldþrot (sem gerist líklega ekki meðan o-ið er á undan hf-inu) þyrfti ríkissjóður að leggja út að minnsta kosti einn milljarð króna til þess að hreinsa upp skuldir fyrirtækisins, líklega mun meira. Nærtækari möguleiki er að gripið verði til þeirra ráðstafana sem þykja sjálfsögð og eðlileg í hlutafélögum sem eiga við rekstrarvanda að etja, að skera niður og spara í rekstri. Ég hef séð útreikninga þar sem segir að sá niðurskurður myndi þýða 15-20% niðurskurð á veltu RÚV.

Það samræmist illa yfirlýsingum æðstu yfirmanna RÚV, þar á meðal útvarpsstjóra og menntamálaráðherra, um að eindreginn vilji þeirra sé að styrkja og efla þjónustu RÚV við almenning. Það verður hins vegar ekki gert til frambúðar á meðan RÚV er að sligast undan milljarða króna skuldabagga - og þær skuldir hlóðust ekki upp vegna þess að RÚV var ríkisstofnun heldur þrátt fyrir það. Þar af leiðandi var það ekki lausn á aðalvanda stofnunarinnar að gera hana að opinberu hlutafélagi - eða hlutafélagi yfirleitt.

Vandinn er enn óleystur

 Vandinn var óleystur fyrir ári þegar RÚV var gert að "opinberu hlutafélagi" og hann er sannarlega enn óleystur.

 

 

 

 


Stemningin í þjóðfélaginu fer ekki á milli mála

Það sem stendur upp úr eftir borgarafundinn í Háskólabíói í gærkvöldi er hið sama og eftir fundinn í Nasa, nema  enn öflugra: Tilfinningin fyrir því að almenningur á Íslandi hafi tekið höndum saman um að stöðva aðför misviturra stjórnvalda um áratugi að lífi og högum almennings og krafan um að farið verði að tala við okkur eins og vitiborið fólk, ekki börn eða hálfvita. Þar sem ég stóð í mannþrönginni í anddyri bíósins og þekkti aðeins örfáar hræður (þar af voru systir mín, mágur og sonur þeirra) fann ég til einhverra fjölskyldubanda, ég fann fyrir einhverju sem tengdi okkur öll saman. Það örlaði á skilningi hjá mér fyrir því hvað það er að vera af þessari litlu þjóð, vera Íslendingur.

Við höfum fengið nóg!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk of langt þegar hún lýsti því yfir að við (fólkið í salnum) værum ekki fulltrúar þjóðarinnar, það væri hún ekki heldur. Þetta lýsir miklum hroka. Ég hef engan heyrt segja að hann tali fyrir munn allrar þjóðarinnar. Hins vegar hafa margir ræðumenn í ræðum sínum undanfarnar vikur vísað til almenns andrúmslofts í þjóðafélaginu. Það er nauðsynlegt hverjum þeim sem tekur á einhvern hátt í stjórnmálum, að skynja hvað almenningur hugsar. Undanfarið hefur ÞAÐ varla farið framhjá mörgum - nema ef vera kynni sumum alþingismönnum og vísast öllum ráðherrunum. Það fólk virðist ekkert skilja ennþá. Það virðist ekki skilja að almenningur treystir því ekki lengur fyrir landstjórninni. ÞAÐ eru skilaboðin sem hafa verið send af Austurvelli, úr Iðnó og Nasa, síðast frá Háskólabíói en ríkisstjórnin virðist ekkert hafa skilið enn. Skilaboð þúsunda Íslendinga. Það að ráðherrarnir skynja ekki hvað er á seyði í þjóðfélaginu gerir þá óhæfa til starfa sinna. Enn tala þeir um björgunaraðgerðir en almenningur treystir ekki að þær aðgerðir séu EKKI til bjargar peningamönnunum, þeim sem settu okkur á hausinn, embættismönnunum og stjórnmálamönnunum sem skildu ekki allar þær viðvaranir sem þeim voru sendar undanfarin misseri.

 Annars var þetta ráðherralið í Háskólabíói ekki beysið; þar sagði enginn neitt af viti. Einu ráðherrarnir sem hægt er að segja að hafi reynt að klóra í bakkann voru Össur og Þorgerður Katrín. Aðrir voru vandræðalegir í yfirklóri sínu. Þarna voru gömlu plöturnar leiknar enn einu sinni.

En  allir sem tóku til máls um þá tillögu Gunnars Sigurðssonar að almenningur fengi tvo fulltrúa í allar nefndir sem skipaðar verði í tengslum við væntanlegar björgunaraðgerðir og jafnvel til að vera áheyrnarfulltrúar á ríkisstjórnarfundum höfnuðu því ákveðið. Ég spyr hins vegar: Hvernig ætli ráðherrar og alþingismenn hafi brugðist við fyrir einni öld eða svo þegar farið var að hafa orð á því að allur almenningur - og konur - ættu að hafa fullan atkvæðisrétt? Ætli mörgum hafi ekki þótt það fáránleg hugmynd ?

Tilfinningin sem sá sem hér bloggar hefur eftir að hafa staðið upp á endann í tvo tíma og hlýtt á mál manna er  að gjáin milli okkar og stjórnvalda breikkar sífellt; ráðherrarnir þykjast hlusta en heyra ekkert. Þeir hanga á völdunum eins og hundur á roði. Mestum vonbrigðum veldur Ingibjörg Sólrún, sem boðaði fyrir kosningar "viðræðupólitík" en er ekki til viðræðu nú, sem kvartaði fyrir kosningar um yfirgang ríkisstjórnarinnar og algjöran skort á samráði við stjórnarandstöðuna. Nú hefur Samfylkingin skipt um hlutverk við Framsóknarflokkinn og tekur fullan þátt í því með hinum stjórnarflokknum að hundsa hvort heldur sem er stjórnarandstöðuna eða almenning.

En í gærkvöldi þóttist Þorgerður Katrín ætla að tala skýrar hér eftir, hún viðurkenndi að skort hefði á upplýsingagjöf til almennings. Batnandi konu er best að lifa og við bíðum og vonum að nú verði farið að segja okkur hvað standi til og hvað sé að gerast. En það er ekki mikil von. Ég hef sjálfur staðið í því að toga upplýsingar út úr stjórnmálamönnum og veit af biturri reynslu að það getur verið torsótt.

Það þarf varla að taka það fram að ræðumönnum mæltist hver öðrum betur, sérstaklega varð ég hrifinn af verkakonunni sem hreif með sér nærri 2000 fundargesti, sem stóðu upp henni til heiðurs og klöppuðu, þegar hún hafði lokið máli sínu. Frá einum fundarmanna kom tillaga um þjóðstjórn; það held ég að væri eina vitið, og í þeirri þjóðstjórn ætti Þorvaldur Gylfason að sitja. Hann hefur lengi grunað í hvað stefndi, reynt að vara við og hefur þá þekkingu sem dugir til að stjórna björgunarleiðangrinum.

Ég vil bæta hér við leiðréttingu; mér var bent á að Þorvaldur Gylfason gæti aldrei tekið þátt í þjóðstjórn, sem er náttúrlega rétt en mér varð á að blanda þarna saman þjóðstjórn og embættismannastjórn en báðir möguleikar koma til greina. Þorvaldur yrði náttúrlega forsætisráðherra í embættismannastjórn. Líklega væri það líka betri kostur en hitt.


Eftirskjálftar frjálshyggjunnar og Kommúnistaávarpið

Eftirskjálftar nýfrjálshyggjunnar skaka nú eina af helstu undirstöðum íslenskra bókmennta. Sú krafa samkeppniseftirlitsins að JPV-útgáfa selji útgáfuréttinn á bókum Halldórs Laxness er til þess eins fallin að veikja stöðu okkar sem bókmenntaþjóðar. Eins og sýnt er fram á í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag ræður enginn bókaútgefandi við þetta verkefni en JPV. Ef hann fær ekki að sinna því stöðvast endurútgáfa á bókum HKL. Svo einfalt er það.

Það liggur við að ég hafi enga ánægju af að segja það nú að í lok 9. áratugarins þegar holskefla Thatcherismans var að byrja að skella á okkur, að þá var ég einn af þeim sem bentu á að við Íslendingar værum (þá) innan við 300 þúsund og engin leið væri að hér gæti þrifist þess konar "frelsi markaðarins" sem stefnt var að, leynt og ljóst. Við vorum og erum að sjálfsögðu örþjóð og á mörkum þess að geta verið sérstök og sjálfstæð eining. Í öllu falli þýðir þessi lága hausatala að hér er alls ekki unnt að treysta á þetta svokallaða "markaðslögmál". Ég er reyndar á þeirri skoðun að þetta sé alls ekkert lögmál heldur fyrst og fremst leið ríkra manna til þess að verða enn ríkari, á kostnað alþýðu manna, sem hefur litla von um að verða meira en í besta falli sjálfbjarga.

Þetta hefur nú sannast rækilega. Auðmennirnir féll á sínu eigin græðgisbragði, kunnu sér ekki hóf og við, almenningur verðum að koma til bjargar. Mér gáfaðri og snjallari menn hafa sagt margt um þetta að undanförnu og eiga enn eftir að segja margt. Ég var hins vegar viðstaddur á föstudagseftirmiðdaginn kynningu Hins íslenska bókmenntafélags á Kommúnistaávarpinu í þýðingu Sverris Kristjánssona, sem sem hefur nú verið endurútgefið, og fram fór á Háskólatorgi. Það var um margt mikil upplifun að rifja upp kynnin af þessu merka riti, sem allir ættu að lesa; það var ekki síst fróðlegt að heyra Sigurð Líndal, prófessor emeritus, forseta HÍB, lýsa yfir því að boðskapur Kommúnistaávarpsins væri að mörgu leyti góður þótt varasamt væri að taka allt sem þar stæði sem endanlegan og heilagan sannleika, en þar væri hins vegar margt sem nútímamenn mættu hafa að leiðarljósi. Því er ég hjartanlega sammála. Margt hefur verið mistúlkað, misskilið og rangfært í þessum fræðum. Meðal annars hafa sjálfstæðismenn löngum haldið því fram að ófrelsi sé falið í kommúnismanum og eignað sér frelsi einstaklingsins. En þetta stendur í Kommúnistaávaqrpinu, bls. 206:

"Þegar þróunin er komin svo langt á veg, að stéttamismunurinn er horfinn og öll framleiðsla er í höndum samvirkra einstaklinga, tekur ríkisvaldið að týna pólitísku eðli sínu. Pólitískt vald er í raun réttri skipulagt vald einnar st´settar til að sitja yfir hlut annarrar. Þegar öreigalýðurinn verður í baráttu sinni við borgarastéttina að sameinast á stéttarvísu, gerist drottnandi stétt í byltingu og afnemur með stéttarvaldi sínu hina gömlu framleiðsluhætti, þá afnemur öreigalýðurinn í sama mund tilveruskilyrði stéttaandstæðnanna. Hann afnemur stéttirnar yfirleitt og afnemur því einnig sína stéttardrottnun.

Í stað hins gamla borgaralega þjóðfélags með stéttum sínum og stéttaandstæðum rís þá upp samfélag manna, þar sem frjáls þróun hvers einstaklings er skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar."

 Kapítalisminn hefur í för með sér frelsi þeirra einstaklinga sem ráða yfir auðmagninu en kommúnisminn stefnir á frelsi allra einstaklinga jafnt. En því miður hefur slíkur kommúnismi aldrei fengið að þróast, alls staðar hafa valdafíknir einstaklingar náð yfirhendinni en almenningur, öreigalýðurinn, orðið undir.

Hvert stefnir á Íslandi nú? Verða völd auðmannanna endurnýjuð og lagt af stað í nýja uppsveiflu og útrás eða verða hagsmunir almennings hafðir í huga og stefnt að auknu jafnrétti þegnanna?

 


Munið þér enn eða hvað?

   Við erum fljót að gleyma. Fyrir algjöra tilviljun datt ég inn í eina af bloggfærslum mínum frá því í maí þar sem ég birti slóð norska blaðsins E24, sem norskur vinur minn hafði sent mér og með því fylgdu áhyggjur hans af því að eitthvað væri að íslenskum efnahag. Þetta var í maí í ár. Man einhver eftir skrifum erlendra fjölmiðla um dökkar horfur í efnahagsmálum á Íslandi, um yfirskuldsetta banka? Man einhver eftir því hverju bankamenn á Íslandi og íslenskir ráðamenn, þar á meðal Geir H. Haarde forsætisráðherra og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar svöruðu? Ég endurbirti slóðina á þessa síðu hér með(smellið á undirstrikuðu orðin). Það er hverjum Íslendingi hollt að lesa þessa grein, í ljósi ýmislegs sem hefur verið upplýst að undanförnu um það hver vissi hvað hvenær. Hefði Geir Haarde verið einhver alvara með að bjarga íslensku þjóðinni frá gjaldþroti hefði hann átt að láta kanna þegar í stað forsendurnar sem blaðamaðurinn gekk út frá - hafi honum ekki verið kunnugt um þær þá þegar. Og það er harla ólíklegt að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi ekki vitað það sem erlendir blaðamenn vissu - og höfðu eftir sérfræðingum í sínu heimalandi, sérfræðingum sem voru fyrir mitt þetta ár stromphissa á því að lýðveldið Ísland skyldi enn vera uppistandandi og þess fullvissir að skammt væri í hrunið. 

Þessi grein sem ég vísa hér á er fyrst og fremst afurð góðrar blaðamennsku og ég legg hér með til að íslenskir fjölmiðlar geri samning við norska blaðamannaskólann í Ósló og sendi íslenska blaðamenn þangað í endurhæfingu. Ég skal annast milligöngu og nýta mér það að enn hef ég tengsl við þennan skóla síðan ég var sjálfur þar við nám 30 árum.

Um leið sendi ég mér minni gömlu kollegu, Agnesi Bragadóttur, þakkir fyrir grein dagsins í Mogga. Haltu áfram að fletta ofan af bröskurunum, leggðu fram allar þær sannanir sem þú hefur. En var annars ekki heppilegt að Jón þessi Ásgeir skyldi eiga dagblað til þess að láta birta andsvar við morgunblaðsgreininni? Sunnudags Fréttablaðið tafið í prentsmiðju eftir að Sunnudags Mogginn var kominn út, meðan leigupenni Jóns Ásgeirs skrifaði svargrein. Annað eins hefur líklega ekki gerst áður á Íslandi.

Ég uppgötvaði að slóðin sem ég birti ofar í þessu bloggi er ekki sú slóð sem ég ætlaði að setja þar heldur leiðir hún á eldri frétt í E24, frá því í mars, en fjallar hins vegar einnig um slæmar horfur í íslenskum efnahagsmálum. Það er því viðbótarfróðleikur, sem við höfum gott af að lesa en hér kemur greinin sem ég ætlaði að vísa á:

http://e24.no/utenriks/article2422240.ece

Ég get ekki stillt mig um að birta hér viðbrögð Geirs Haarde við spurningum blaðamannsins - og tel ekki þörf á að þýða þetta:

Fra statsministerboligen finner Geir Haarde trøst i at Island har en statskasse som er nesten gjeldfri, og et selvfinansierende pensjonssystem. Arbeidsløshet eksisterer knapt.

- Men Finansdepartementet spår at Islands BNP vil falle neste år?

- Ja, men vi må også se dette i perspektiv. Vi har hatt to år med en vekst på 7 prosent, så 4 prosent. På den måten er det kanskje greit at vi slapper litt av et år - at vi tar en hvilepause. Samtidig er det selvsagt regjeringens utfordring å forsøke å hindre at BNP faller neste år, sier Haarde.

- Hvordan kan det skje?

- Vi må etter hvert få ned renten og stimulere til vekst. Sentralbanken er selvsagt uavhengig, og jeg skal ikke legge meg opp i dens arbeid. Men vi må gjøre vårt fra regjeringens side for å dempe inflasjonen og dermed legge alt til rette for at rentene kan kuttes.

Man fólk ekki eftir þessari klisju? Já, en við verðum að sjá þetta í réttu samhengi!? Samhengið er nefnilega komið í ljós!


Vantraust þjóðarinnar er fullkomið!

Það er náttúrlega vonlaust að vantrauststillaga verði samþykkt, til þess er meirihlutinn allt of mikill. En þjóðin hefur fullkomið vantraust á núverandi stjórnvöldum. Eftir digurbarkalegar yfirlýsingar forsætisráðherra um að skylda ríkisstjórnarinnar sé að leiða þjóðina í gegnum þessa erfiðleika hljóma hjákátlega. Eftir þann kattarþvott sem allir aðilar þessa máls hafa stundað undanfarið í tilraunum sínum til að koma sök af sér stendur það eitt upp úr að stórkostleg mistök hafa verið gerð á öllum stigum: Ríkisstjórnin lokaði  eyrunum fyrir viðvörunum, Fjármálaeftirlitið var máttlaust og greinilega á bandi útrásarliðsins, fannst semsagt ekkert athugavert við framferði þess, og Seðlabankinn brást skyldu sinni gjörsamlega - fyrir nú utan bankamennina sjálfa sem stjórna enn sínum gjaldþrota bönkum! Eigum við, þjóðin, að treysta núverandi stjórnvöldum til þess að draga okkur upp úr feninu? Nei! Og við, sem höfum verið að reyna að andæfa eigum nú að eflast um allan helming og fylkja liði fyrir framan Alþingishúsið og fylla pallana þegar vantraustið verður rætt. Og strax í dag eiga menn að fylla Háskólabíó klukkan fjögur, þar sem elsta bókaforlag landsins, Hið íslenska bókmenntafélag, kynnir nýja útgáfu á 160 ára gamalli bók, Kommúnistaávarpi Karls heitins Marx!

Kann Davíð annars að spila á fiðlu?

Mér er spurn: Hvenær fóru sjálfstæðismenn að óhlýðnast Davíð? Á ég að trúa því að t.d. Geir hafi hlýtt á Davíð útmála hvað bankarnir væru orðnir veikir og allt gæti farið til helvítis, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut? Eða gleymdi hann jafnharðan því sem Davíð sagði? Og svo þetta: Ef Seðlabankinn er orðinn svo valdalítill að hann gat ekkert gert (vegna þess að Davíð & Co tóku af honum völdin), til hvers er hann þá? Sat Davíð á þaki Dimmuborga og lék á sína fiðlu meðan bankarnir brunnu? Og Jón Sigurðsson, sá annars mæti og grandvari maður? Skyldi hann ekki eiga bágt núna? Hvar var hann?

 Og Kastljósið áðan: Dauðhræddur Óli Björn sem þorir ekki að segja nokkurn skapaðan hlut vegna þess að hugmyndafræði hans er hrunin undan fótum hans! Þetta var stórgóð ræða hjá Davíð - en auðvitað er það rétt að Seðlabankinn gerði stórkostleg mistök. En fjölmiðlar fóru offari í gagnrýni sinni en auðvitað voru gerð stórkostleg mistök. Oft hef ég séð Óla Björn Kárason kveða fastar að orði. Núna þorði hann í hvorugan fótinn að stíga. Hver er annars vinnuveitandi hans?

Gott leikrit hjá Helga Seljan í anddyri Fjármálaeftirlitsins. Svona eiga aktívir blaðamenn að gera! Þetta var í samræmi við það sem Björg Eva sagði í gærkvöldi á Nasa: Segjum aftur og aftur og aftur að forsætisráðherra, seðlabankastjóri, fjármálaráðherra, forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins og allt þetta lið hafi ekki viljað koma í viðtal!

Haldið áfram á þessari braut, Kastljósmenn!


Ef Davíð er saklaus, hvar liggur þá sökin?

Nú hefur Davíð talað og er að eigin sögn saklaus, meira en það: Hann varaði alla þá sem málið varðar við fyrir mörgum mánuðum, þar á meðal ráðherrana sem segjast nú ekkert hafa vitað. Fjölmiðlamenn! Fáið þessar tilvitnanir, birtið þær, berið þær undir þá sem þeim var beint til. Spyrjið hagfræðinga og aðra sem þekkja kerfið vel (ekki einn heldur marga) hvað Davíð hefur fyrir sér í því að Seðlabankinn hafi ekki lengur vald til að gera eitt eða neitt. Og sé það rétt, sem maður hlýtur að trúa, hver svipti hann þessu valdi? Davíð? Þetta og margt annað viljum við fá að vita núna - vaknið fjölmiðlamenn, vaknið, og hættið að láta mata ykkur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband