Færsluflokkur: Bloggar

Íslendingar eru loksins að vakna og hafa fengið rödd

Ég er ekki stoltur af því að ég fór ekki á borgarafund fyrr en í kvöld, að ég skellti mér á fundinn á Nasa þar sem var fullt hús, um 700 manns. Í fáum orðum sagt þótti mér það mikil lífsreynsla. Þar ríkti eitthvert mjög sterkt andrúmsloft. Eitthvað lá í loftinu sem gaf það til kynna, þegar allt er lagt saman: Sístækkandi fundir á Austurvelli, Iðnófundirnir og þessi. Ég fékk það sterkt á tilfinninguna að ég væri viðstaddur fæðingu merkilegrar hreyfingar - jafnvel fyrirboða einhvers konar uppreisnar almennings. Lýðsins, fólksins. Er loksins að myndast hreyfing venjulegs fólks, sannkölluð "grasrótarhreyfing", sem er reiðubúin að standa í hárinu á ráðamönnum þjóðarinnar? Ég held það næstum. Ég trúi ekki að það fólk sem talaði þarna og á fyrri fundum, í Iðnó og á Austurvelli, og það fólk sem klappaði og hrópaði og púaði - og hló hæðnislega að ráðamönnunum, auðmönnunum og öllu því.....ég trúi ekki að þetta fólk þagni í bráð og sitji undir froðusnakki, lygum og feluleik ráðamanna héðan í frá. Þetta fólk hættir ekki að hrópa og kalla og skamma. Ég held ekki að þetta fólk þagni héðan í frá.

Eða er þessi hreyfing þegar fædd? Óánægðir Íslendingar hafa í það minnsta sameinast  þvert á flokkslínur og eru þessar vikurnar að brýna sína snjöllu raust.

Auk þeirra snjöllu ræðumanna sem töluðu á Nasa í kvöld sátu fulltrúar allra helstu fjölmiðla í panel enda var umfjöllunarefni fundarins "ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda kreppunnar" og reyndu að svara spurningum. Ég held ég geti fullyrt að þeir hafi allir verið meira og minna í vörn, ekki síst Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins, sem sat fremur hljóður undir uppgjöri ræðumanna og fundarmanna á trúarbrögðum hans, frjálshyggjunni og heimdellunni. Björg Eva Erlendsdóttir er fyrir nokkru sloppin af útvarpinu og var mjög gagnrýnin á stofnunina, bæði í ræðu sinni og þegar hún svaraði spurningum; hún stóð sig vel og var mjög trúverðug í gagnrýni sinni eins og oft er þegar fólk er í þessari aðstöðu og á engra hagsmuna að gæta. Broddi Broddason skautaði létt yfir gagnrýnina sem útvarpið fékk og gat í rauninni fátt sagt. Hann stýrir raunar skárri hluta RÚV og reyndi lítt að verja bága frammistöðu Sjónvarps. Fjölmiðlafólkið átti satt að segja mjög í vök að verjast og hvassasta gagnrýnin var að mínu mati sú að þeir létu pólitíkusana - og aðra - komast upp með að svara fáu, litlu, engu og láta undir höfuð leggjast að þýða á mannamál það litla sem þeir þó segja, tengja það áliti og mati annarra og kafa ofan í það. Það er þó frumskylda blaðamanna.

Ég ætlaði eiginlega ekki að fara út í þessa sálma hér heldur halda áfram með hreyfingu fólksins. Við eigum eftir að sjá stórmerkileg tíðindi. Ég er sannfærður um það. Við eigum eftir að sjá núverandi ráðamenn skjálfa á beinunum frammifyrir  lýðnum, fyrrum kjósendum sínum. En þá komum við að því sem kann að reynast hættulegt. Upp úr þessum jarðvegi getur sprottið fjöldahreyfing lýðskrumara, snjallra ræðumanna sem hrífa með sér einfaldar og illa upplýstar sálir. Slíkt hefur gerst og farið illa. Vonandi tekst hinum menntaðri og upplýstari, sem meðal annars hafa staðið að fundum undanfarinna vikna, að beina þróuninni á réttar brautir - og vonandi taka fjölmiðlarnir sig á og upplýsa okkur betur um það sem er að gerast en þeir hafa gert til þessa.

Raunar viðurkenndu þeir það að nokkru að þeir hefðu brugðist og lofuðu að standa sig betur í framtíðinni. Vonandi gera þeir það. Þeir tóku sig þó á í umfjölluninni um Austurvallarfundina - en höfðu kolfallið á því prófi fyrstu fimm vikurnar.

Í fundarlok var tilkynnt að á laugardaginn kemur yrði haldinn borgarafundur í Háskólabíói og boðaðir til hans allir alþingismenn þjóðarinnar.  Gunnar Sigurðsson fundarstjóri og skipuleggjandi fundarins tilkynnti að tekin yrðu frá sæti fyrir alla ráðherrana og þau merkt með nöfnum þeirra. Fundargestir fögnuðu þessu ákaflega!


Of líkt Glistrup

Þetta minnir of mikið á Mogens gamla Glistrup í Danmörku og Karl I. Hagen í  Noregi. Báðir voru þeir lýðskrumarar af verstu gerð en sópuðu að sér fylgi almennings. Þetta voru og eru rasískir flokkar, andvígir innflytjendum og velferðarkerfinu - sem er náttúrlega þversögn við vinsældir almennings. Og mér líst satt að segja ekkert á Sturlu Jónsson vörubílstsjóra, með allri virðingu fyrir vörubílstjórum almennt. Þetta held ég að verði ógæfusamlegur flokkur ef af verður. Við þurfum eitthvað annað en þetta! Nafnið lokkar fáfrótt fólk og lýðræðistalið líka. En framfarir og lýðræði eru vandmeðfarin fyrirbæri eins og dæmin sanna.
mbl.is Framfaraflokkurinn stofnaður á næstu dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamaður undir fölsku flaggi?

Merkilegur greinaflokkur birtist nú í Morgunblaðinu dag eftir dag, undir yfirskriftinni Skoðanir fólksins. Höfundur greinanna er Gunnar Smári Egilsson, sem titlar sig blaðamann. Raunar hélt ég að hann væri fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar sem fór í útrás á vegum útrásarvíkinganna alræmdu og stofnaði fréttablaðið Nyhedsavisen, sem varð ekki langlíft blað (og rændi þessu fallega nafni og tróð það í svaðið). Reyndar velti ég því fyrir mér núna hvort Gunnar Smári er kannski raunverulegur blaðamaður, sem hefur undanfarin ár unnið að rannsókn á því hvað fór úrskeiðis og hvers vegna íslenskt efnahagslíf hrundi - svona "under cover", þið skiljið! Á íslensku mætti þá segja að hann hafi kannski siglt undir fölsku flaggi. En hvernig sem því er varið veit hann allt um það núna hvers vegna fór sem fór og lifði sig svo inn í rannsóknahlutverkið að sjálfur trúði hann á útrásarvíkingana í blindni - eins og allir Íslendingar segir hann í grein gærdagsins. Það viðurkennir hann núna, líklega til að fría sig svolítilli ábyrgð - allir eru samsekir. Þetta er afskaplega vinsæl kenning. En hún stenst náttúrlega engan veginn. Það dönsuðu ekki allir í kringum gullkálfinn. Ekki venjulegt verkafólk, ekki venjulegir opinberir starfsmenn, ekki sjúkraliðar, ekki... svona mætti lengi telja. Björgólfur Guðmundsson sagði í Morgunblaðsviðtalinu stóra um daginn að öll þjóðin hefði farið á neyslufyllerí (ég finn ekki blaðið svo ég get ekki gengið úr skugga um hvernig orðin féllu nákvæmlega). Þetta sagði sá fúli maður einvörðungu til þess að fría sig þeirri ábyrgð sem ætti að vera að sliga hann. Allur almenningur lifði áfram við venjuleg kjör - kannski eitthvað betri en við höfum átt að venjast, meðan var verið að grafa undan aþjóðfélaginu.

Má ég frábiðja mér svona málflutning. Við erum ekki öll samsek. Við tókum ekki öll þátt í Hrunadansinum. Við tókum ekki öll stór lán, við lifðum ekki öll á yfirdrætti, við fórum ekki öll í lúxusferðir til útlanda. Sum okkar lifðu bara venjulegu lífi eins og við höfum alltaf gert og undruðumst það hvaðan allir þessir peningar komu og vorum vantrúuð á að þetta gengi lengi svona.

Það setur svartan blett á heiður blaðamanna að maður eins og Gunnar Smári skuli nota þann titil um sjálfan sig. Hefði hann verið blaðamaður en ekki ágjarn gróðapungur í þjónustu auðmanna og vitað hvað var að gerast, sem hann er núna að segja okkur, brást hann skyldu sinni sem blaðamaður, já sem manneskja, með því að þegja þá en romsa upp þessum fróðleik núna og segja eiginlega: Við tókum öll þátt í þessu, ég vissi nú samt hvað var að gerast en þagði. Líklega af sömu ástæðu og Geir Haarde þagði (hordaði) vegna þess, eins og hann sagði: Það var nú ekki til vinsælda fallið að fara að gera eitthvað þessu!

Ég bíð spenntur eftir næstu grein Smárans en hún á að fjalla um það hvernig þetta fólk brást.

 


Undarleg viðbrögð norska sendiherrans

 Það er ýmislegt skrítið í þessari grein í Klassekampen- öllu heldur þeirri heimild sem sem hún er byggð á. Það er í fyrsta lagi dálítið undarlegt að norski sendiherrann, Margit Tveiten, sem hefur verið hér síðan í haust, skyldi sjá sig tilknúna til þess að senda þessa skýrslu um ræðu Ólafs Ragnars í sendiherraboðinu. Til dæmis þetta orðalag: "Presidentens utfall «skapte nærmest vantro og oppgitthet blant de tilstedeværende ambassadører», heter det i referatet." Menn hlýddu semsé "vantrúa og uppgefnir" á orð forseta vors. En við hverju búast menn? Svíar leggjast á sveif með Bretum og neita að samþykkja lán til Íslendinga nema fyrst sé samið við skuldunauta (Icesafe og allt það væntanlega) en gjaldeyrissjóðurinn neitar að lána nema fyrst sé samið við Norðurlöndin! Maður fylgist nú með "vantrúa og uppgefinn"

Nú er varla hægt að hrósa forsetanum fyrir að hafa reynt að hughreysta þjóð sína í þessum þrengingum. Hann sleppir því væntanlega vegna þess að hann sleikti sig svo ákaflega upp við hina íslensku ólígarka að maður fékk klígju en hefur þó þá dómgreind til að bera að halda sig nú til hlés - nema þá í dálítilli skálaræðu meðal sendiherra. Og jafnharðan og hann lætur út úr sér hörð ummæli, sem hann var sosum ekki óvanur að gera fyrr á árum, hrekkur hann inn í skel sína, harðlokar og neitar að segja nokkurt orð! Þrátt fyrir fyrri sleikjugang við auðmennina mætti hann fara að líta á sig sem "public servant", eins og nýkjörinn forseti Bandaríkjanna gerir!

En Norðmenn og okkar kæru næstu nágrannar, Færeyingar, vilja hjálpa okkur og það ber að þakka. En afstaða Svía og Dana, að því er menn segja, er óskiljanleg. Skyldu þeir leggjast á sveif með Bretum þegar þeir fella okkur endanlega í svaðið og heimta af okkur fiskinn og hugsanlegar olíulindir sem munu vera nær landinu en við héldum áður, kannski inni á landi fyrir austan?

Vitið þér enn eða hvað?

Og enn skrifar Kolla Bergþórs pistil um Austurvallarmótmæli i Mogga og telur að "hópur fólks hafi gert það að venju sinni undanfarið að fara í laugardagsspássitúra á Austurvöll með missmekkleg kröfuspjöld.....langflestir halda sig þó heima í von um að stjórnvöld séu að leysa vandann á vitrænan hátt" Heyr á endemi! Hún segir að vísu að enn hafi fátt vitrænt hafi komið frá stjórnvöldum og ráðamenn verði "að má af sér þreytu- pirringssvipinn". Ég held Kolla verði að má af sér þreytu- og pirringssvipinn sem hún setur upp gagnvart venjulegu fólki sem safnast vikulega saman á Austurvelli til að mótmæla, meðal annars aðgerðarleysi og sauðshætti ráðamanna og krefjast þess að þeir og allt það lið sem átti að vara við hættunni og gera viðeigandi ráðstafnir hypji sig og hleypi að mönnum sem vita betur hvað skal gera.


Vitið þér enn eða hvað?

Ég get ekki stillt mig um að birta hér tvær klausur úr handriti að sögu Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans, sem ég er að leggja lokahönd á þessar vikurnar. Hverfum til ársins 1995. Hálfur áratugur er liðinn frá svonefndri "þjóðarsátt". Engu að síður, og kannski einmitt þess vegna, þurfti verkalýðshreyfingin að sækja fast launahækkanir til handa þeim lægstlaunuðu. Hér kemur fyrri klausan:

 

"Samkomulag náðist loks aðfaranótt þriðjudagsins 21. febrúar, eftir að ríkisstjórnin kom til móts við verkalýðshreyfinguna með því að 4% framlag launþega í lífeyrissjóð skyldi verða að fullu frádráttarbært til skatts á næstu tveimur árum. Ríkisstjórnin lofaði einnig að leggja fram nokkur hundruð milljónir króna til skuldbreytinga vegna vanskila í húsnæðiskerfinu og að verðtryggðar fjárskuldbindingar skyldu miðast við vísitölu framfærslukostnaðar í stað lánskjaravísitölu. Loks var samið um að lögum um atvinnuleysistryggingar skyldi breytt þannig að unnt yrði að fastráða fiskvinnslufólk. Samið var til ársloka 1996 eða til tæpra tveggja ára og áhersla lögð á krónutöluhækkun launa og tvær almennar hækkanir á samningstímanum; lægstu laun, sem voru undir 60 þúsund krónum, áttu að hækka um 3.700 krónur á mánuði við undirritun en síðan færi hækkunin stiglækkandi upp að 84 þúsund króna launum en öll laun þar fyrir ofan áttu að hækka um 2.700 krónur. Í byrjun árs 1996 áttu laun að hækka aftur, ýmist um krónutölu eða prósentutölu, eftir því hvaða landssamband Alþýðusambandsins átti í hlut."[1]

Seinni klausan er svona:

"Verkfall grunn- og framhaldsskólakennara um allt land skall á föstudaginn 17. febrúar og leysist ekki fyrr en nærri hálfum öðrum mánuði síðar þegar samkomulag náðist um 15% kauphækkun á samningstímanum, nokkru meira en um samdist í hinum almennu kjarasamningum. Eftir það var samið við fleiri hópa opinberra starfsmanna og nokkur félög á almennum vinnumarkaði um meiri hækkanir en verkalýðshreyfingunni hafði tekist að knýja fram fyrir hönd almenns verkafólks og mörgum innan verkalýðshreyfingarinnar fannst það setja allt sem áunnist hafði í kjaramálum undanfarin ár í uppnám.

En í byrjun september féll úrskurður Kjaradóms um launakjör æðstu embættismanna ríkisins í umræðuna eins og sprengja. Samkvæmt honum átti þingfararkaup alþingismanna að hækka um 17 þúsund krónur, úr tæpum 178 þúsund krónum í 195 þúsund, og laun ráðherra um tæp 20%, úr 334 þúsund krónur á mánuði í 350 þúsund krónur. Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambandsins, benti á að ef sú leið hefði verið farin sem flestir þeirra sem þarna fengu hækkanir hefðu mælt með fyrir verkafólk hefðu þeir ekki átt að fá nema 2700 króna hækkun en þeir hefðu hins vegar fengið allt upp í 60 þúsund króna hækkun. „Ég spyr þá sem taka á móti þessu hvernig þeim líður siðferðislega" hafði Morgunblaðið eftir Birni Grétari. Friðrik Sophusson fjármálaráðherra skýrði þessa miklu hækkun með því að dómurinn hefði miðað við árið 1989 en eftir það hefðu þessir hópar ekki fengið allar launahækkanir og launaskrið sem aðrir hefðu notið.[1]

Miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman og ályktaði að þessi úrskurður væri „kjaftshögg fyrir þá jafnlaunastefnu sem reynt hefði verið að fylgja í kjarasamningum ASÍ í febrúar"[2] og Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambandsins, hvatti fólk til þess að leggja niður vinnu daginn eftir og mótmæla þessu. Um tíu þúsund manns brugðust við þessu kalli í Reykjavík og komu til útifundar á Ingólfstorgi og allmargir héldu fundi á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Harðorðar ályktanir voru samþykktar þar sem því var hótað að yrðu ákvarðanir um launahækkanir embættismannanna ekki felldar niður myndi launafólk krefjast sömu kjarabóta við fyrsta tækifæri."[3]

Ég birti þetta áhugasömum til upprifjunar og umhugsunar á þessum síðustu - og verstu - tímum. Það eru 13 ár síðan þetta gerðist en ég er hræddur um að margir hafi gleymt þessari atburðarás. Mótmælin árið 1995 báru engan árangur, launamunur í þjóðfélaginu bara jókst og jókst þar til allt hrundi nú í haust. Vitið þér enn eða hvað?
Bók sú sem þessi texti er úr er væntanleg á næsta ári - og menn athugi að hann er alls ekki fullunninn og að í honum geta leynst alls konar villur og klúður.

[1] Morgunblaðið 9. september 1995, 48 (baksíða).

[2] Morgunblaðið 14. september 1995, baksíða.

[3] Morgunblaðið 15. september 1995, baksíða.

[1] Morgunblaðið 21. febrúar 1995, baksíða.

 


Brenglað fréttamat íslenskra fjölmiðla og dauður orðstír

Fréttamat íslenskra fjölmiðla er stundum skrýtið. Þegar mótmæli um 4000 manna á Austurvelli í gær leystust upp í skrílslæti varð fundurinn sjálfur og það sem það var sagt ekki fréttaefni heldur skrílslætin. Ég hef raunar fulla samúð með þeim fjallagarpi sem kleif upp á þak þinghússins og dró bónusfánann að húni en krakkarnir sem köstuðu jógúrt og eggjum í húsið fóru yfir strikið - en sem betur fer sýndi lögreglan mikla þolinmæði og kom líklega með því í veg fyrir að kæmi til verulegs uppþots. Hörður Torfason lagði áherslu á það í sinni tölu að fundarmenn færu kurteislega fram en auðvitað kemur að því að eitthvað alvarlegt gerist ef ráðherrar og aðrir valdamenn fara ekki að hlusta á þau góðu ráð sem menn eru farnir að gefa á báða bóga en halda ekki áfram í sama gamla spillingarfari kunningja- og fjölskylduþjóðfélagsins.

Loksins var þó sagt nokkuð rétt frá fjölda mótmælenda í íslenskum fjölmiðlum en í fyrstunni létu þeir lögregluna telja þá niður í 500 á fyrsta Austurvallarfundinum BBC sagði hins vegar að þar hefðu verið um 2000 manns! Við sem höfum tekið þátt í þessum mótmælum allt frá því byrjað var að krefjast afsagnar Davíðs á mótmælafundi á Arnarhóli í byrjun október og síðan daglegum mótmælum á Austurvelli í heila viku sáum að erlent fjölmiðlafólk fylgdist með af áhuga. Sjónvarpsmenn og blaðamenn frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og víðar að ræddu við okkur og spurðu hverju við værum að mótmæla. Við lögðum áherslu á að allur almenningur ætti enga sök á því sem gerst hefði og sögðum okkar skoðun á því hverjir sökudólgarnir væru - án þess þó að nefna nokkur nöfn. Ég sagði við einn blaðamanninn að hann gæti bara flett því upp hverjir hefðu átt bankana, hverjir væru í fjármálaeftirlitinu og hver væri bankastjóri Seðlabankans og það væri ekkert leyndarmál hver væri forsætisráðherra, hver fjármálaráðherra, hver viðskiptaráðherra og svo framvegis. En þá hafði orðspor Íslendinga raunar ekki enn horfið endanlega.

Viðbrögð ýmissa við mótmælafundunum sem haldnir hafa verið á Austurvelli undanfarna laugardaga bera þess vitni að langur tími er liðinn frá því mótmæli voru daglegt brauð hér á landi. Reynt hefur verið að gera lítið úr þessu, gera okkur hlægileg. Til að mynda sagðist Einar Kárason rithöfundur í þættinum Í vikulokin á Rás 1  ekki skilja hverju fólki væri að mótmæla, nema ef vera kynni því að þurfa að vera reitt! Hann hefur ekki sést á Austurvelli og ekki hafa fjölmiðlar heldur sagt honum neitt um þessi mótmæli. Og í Fréttablaði dagsins skrifar Davíð Þór Jónsson guðfræðistúdent í Bakþönkum: "Aðrir mótmæltu opinberlega en gátu hvorki komið sér saman um hvar hvenær né hverju." Þarna á hann líklega við okkur Austurvellinga. Ég hef ekki heldur séð hann á Austurvelli og hefði ekki haldið að óreyndu að hann ætti til slíka sleggjudóma.

En örfá orð um þetta ósamkomulag: Þar var einfaldlega á ferðinni kona að nafni Kolfinna Baldvinsdóttir, sem reyndi að notfæra sér þessi mótmæli til þess að láta á sér bera - ætlar kannski í pólitík - en Herði Torfasyni tókst að lempa hana og draga úr því tjóni sem hún olli á orðspori mótmælenda, en engu að síður varð tjónið nokkurt.

Ég vona að mótmælaaldan breiðist út og 20 þúsund manns fari á Austurvöll á laugardaginn kemur. Og í tilefni af öllu þessu vek ég athygli á því að í Mogga dagsins eru fáránlegar auglýsingar þar sem lúxusfatasalar reyna að notfæra sér ástandið til að koma merkjavöru sinni út með fimmtungsafslætti - sem þýðir að aðeins er dregið úr okrinu. Er ekki kominn tími til að Íslendingar snúi baki við herra Hugo Boss og hugsi um eitthvað uppbyggilegra? Einni opnu aftar rekur bílasali nokkur upp heróp og reynir að notfæra sér kreppuna til að selja bíla, sem er náttúrlega heilmikil þversögn, en vissulega er nokkur nauðsyn fyrir bílasala sem eiga óselda bíla í hrönnum á hafnarbakkanum að reyna að koma þeim út: Ótrúlegt opnunartilboð!!! Nú setjum við allt í gang....já hvar? Í þessari ótrúlegu lönguvitleysu sem er risin upp undir Úlfarsfelli en stendur náttúrlega mestmegnis auð og ætti að brjóta niður hið snarasta. Já, og svo er notað þarna hið engilsaxneska orð "outlet", sem kaupmenn eru farnir að nota, líklega vegna einhverrar þjónkunar við hina engilsaxnesku tungu sem á engan rétt á sér hér á landi "latínu norðursins", sem okkur ber skylda til að varðveita eins ómengaða og okkur er unnt.

Að lokum þetta: Hafa þessar línur í Hávamálum nú verið afsannaðar?

En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Hver sagði hverjum hvað - eða ekki?

Þetta er eins og svo oft hefur gerst áður: Viðbrögð kerfisins eru vanþóknun á því að upplýsingar láku í fjölmiðla og kerfiskarlarnir vilja koma böndum á því sem olli lekanum, ekki taka á því sem leitt var í ljós. Þessi "leki" var að mínu mati eitt það skásta sem gerst hefur í þessu óttalega máli og hefur orðið til þess að breskir fjölmiðlar tóku að ganga á Brown og spyrja hann gagnrýnna spurninga. Árangurinn er sá að karlinn hefur orðið tvísaga ef ekki margsaga og ber að pólitískum loddaraskap. Þessi leki sýndi að eitthvað er að stjórnsýslunni hér, mikið rétt, en var ekki þarft að draga það fram í dagsljósið? Hjá mér vaknaði spurningin um hvort öll símtöl ráðherra væru tekin upp. Og til hvers eru þessi símtöl þá tekin upp? Væntanlega til þess að hægt sé að sýna fram á hvað var sagt í raun og veru í stað þess að eiga það undir kerfiskörlunum hvað þeim þóknast að upplýsa. Og nú kemur framhaldið: Öll minnisblöð Elskunnar á borðið. Það þarf að upplýsa hvað var sagt og hvað var ekki sagt og hver sagði hvað eða sagði ekki, og við hvern. Þarna örlaði á góðri blaðamennsku, sem gerist ekki of oft á Íslandi, og allra síst að undanförnu.

Áfram fréttahaukar!


mbl.is Öll minnisblöð vegna fundar viðskiptaráðherra og Darlings verði lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Björgólfarnir að færa Bretum Ísland á silfurfati?

Ég verð að játa að forsíðufrétt Morgunblaðsins í morgun veldur mér talsverðum kvíða. Hvað rekur embættismenn Evrópusambandsins til að beita okkur þvingunum til að ríkissjóður Íslands, íslenskur almenningur, hreinsi upp ósómann eftir Björgólfana? Þetta er að bíta höfuðið af þeirri skömm sem Björgólfur eldri gerði sig sekan um í Morgunblaðsviðtalinu þegar hann hrósaði sér og syni sínum fyrir að hafa búið til gósentíð á Íslandi með umsvifum sínum en þjóðin klúðrað málunum með því að fara á eitthvert fjárfestingarfyllerí!

Ég heyrði nýverið þá samsæriskenningu að breska ríkisstjórnin viti vel hvað hún var að gera þegar hún greiddi Íslandi höggið. Brown muni hafa ákveðið að fórna hagsmunum okkar til að endurheimta Íslandsmið og koma okkur á vonarvöl. Þetta er sagt eiga að gerast þannig að þegar öll sund verði lokuð muni þeir bjóðast til að fella niður skuldirnar - með því skilyrði að við gefum eftir auðlindir okkar og opnum meðal annars Íslandsmið fyrir breskum sjómönnum. ÞÁ verður klukkunni snúið aftur um hálfa öld eða svo. Síðan kemur að vatninu okkar, en skortur er á hreinu vatni í veröldinni eins og menn vita, og okkar náttúrulegu fallorku.... Ég get ekki hugsað þetta lengra.

Áframhaldið yrði þá að sjálfsögðu að Bretar yrðu að taka okkur undir sinn verndarvæng, með öðrum orðum taka við stjórninni hér. Þá kemur að því sem ég velti fyrir mér í sumar þegar ég dvaldi um hríð í Orkneyjum og á Hjaltlandi, sem er nú kallað Shetland. Þessar eyjar hafa að vísu verið byggðar fólki í þúsundir ára en saga þeirra, sem skráð var á Íslandi snemma á 13. öld, hefst með landnámi Norðmanna þar á níundu og tíundu öld og er að því leyti furðulík okkar fornaldarsögu - og uppruni eyjabúa líkur okkar uppruna.

Norskir jarlar réðu eyjunum í þrjár til fjórar aldir en þá tóku skoskir jarlar við og á sextándu öld tók Skotlandskonungur völdin. Af þessu eru fróðlegar sögur sem ekki verða sagðar hér. En á jarlatímabilinu var töluð Norræna á eyjunum og smám saman þróaðist þar sérstök norræn mállýska sem nefnd er Norn og varð að lúta í lægra haldi fyrir skoskunni en lifði þó í fámennum eyjum allt fram á 19. öld. Nú eru í Eyjum talaðar margar mállýskur skosku, þar sem talsvert hefur varðveist af norrænum orðum, fyrir utan það að flest öll staðarnöfn eiga uppruna sinn í Norrænu en stafsetningin hefur fordjarfast af skoskunni. Athyglisvert er að hugsandi Orkneyingar og Hjaltlendingar líta ekki almennt á sig sem Skota en horfa frekar til austurs og hafa enn þann dag í dag sérstakt samband við Norðmenn. Til merkis um það er að orkneyski fáninn er næstum því eins og sá norski, nema hvíti krossinn er gulur í hinum orkneyska; og hjaltneski fáninn er eins og hvítbláinn  sem eitt sinn var notaður hér á landi: Hvítur kross á bláum feldi. Og það fólk sem ég hitti og átti samskipti við tók mér sem norrænum frænda - og ég naut þess að Snorri skrifaði sögu eyjanna.

Orkneyjar og Hjaltland eru nú bresk grund, sem lýtur þeim arma Brown. Ég velti því fyrir mér þegar ég þvældist þarna um hvort staðan hér á landi væri svipuð nú og á þessum gömlu, norsku eyjum, ef Bretar hefðu látið verða af því fyrr á öldum að hernema okkur og gera landið að bresku yfirráðasvæði. Myndum við þá tala íslenska mállýsku af skosku - og kannski lítill minnihluti hina gömlu íslensku?

Og nú hugsa ég: Er það framundan að hrokafullir Bretar, sem halda enn að Bretland sé heimsveldi, kasti eign sinni á þessa eyju og þvingi okkur undir sitt vald? Það gerist náttúrlega varla með vopnavaldi, frekar efnahagslegum þrýstingi. En ef eitthvað slíkt gerist vitum við vel hvar skal leita landráðamanna!


Gefur Obama forseti von?

Það er líklega ágætlega við hæfi að hefja bloggskrif á ný á þeim tímamótum þegar ljóst er að Barack Obama verður næsti forseti Bandaríkjanna. Hlýtur það ekki að vekja von um betri tíma? Í öllu falli fyrir Bandaríkjamenn sem losna nú væntanlega við hið "kristna" hægra-afturhald. Ég segi væntanlega því ekki er sopið kálið þótt.... Góður vinur minn hefur sagt það lengi að verði Obama kosinn verði hann fljótlega skotinn. Við skulum vona ekki. Vonandi boðar þetta hrun hinnar alræmdu ofurfrjálshyggju - það eykur þá von að Alan Greenspan skyldi viðurkenna að hann hafi haft rangt fyrir sér að hluta (hann gekk ekki lengra) þegar hann fullyrti í 40 ár að ekki ætti að trufla hina ósýnilegu hönd markaðarins frjálsa; hann sæi nú að það væri líklega nauðsynlegt að hafa eitthvert eftirlit með henni.

Já, við sjáum það hér heima líka, eins og svo margir hafa bent á að undanförnu. Aðeins Hannes Hólmsteinn og örfáir aðrir halda áfram gamla tuðinu og segja að allt sé þetta að kenna ríkisafskiptum í Bandaríkjunum! Þvílík della.

Eins gott og var að vakna í morgun við fréttirnar að westan brá mér illilega við að lesa forsíðufrétt Morgunblaðsins um 250 manna færanlegt lið héraðslögga, sem kemur yfir þjóðina eins og köld vatnsgusa. Hefur ekki lögregla landsins verið að kvarta undan fámenni og niðurskurði í mannafla? Síðan hvenær lumar dómsmálaráðherra á þessu? Þetta lið á að sinna einhverjum sér verkefnum; þýðir það að fari "of mikill mannfjöldi" niður á Austurvöll á laugardaginn til að halda áfram mótmælum gegn því liði sem leiddi okkur í ógöngur og segist nú ætla að bjarga okkur verði send eins og ein rúta af héraðslöggum til að halda aftur af okkur? Þá er eins líklegt að atburðarásin endi eins og fyrir 59 árum á sama stað!

Ég vona að í stað 2000 manns á laugardaginn var komi minnst 20 þúsund á laugardaginn kemur - kl. 15. Nægu er að mótmæla eins og fyrri daginn. Núna á t.d. að bjarga bankamönnunum sem keyptu hlutabréf, með því að sleppa þeim við að greiða fyrir þau af því að þau eru verðlaus!!!  Ég skora á sem flesta að mæta og láta heyra í sér - steyta hnefana, ekki aðeins að klappa! Og hrópa hátt. Þeir verða að heyra í okkur og þeir verða að vita að þjóðin hefur fengið nóg. Ég hef það fyrir satt að stórir hópar kjósenda Sjálfstæðisflokksins streymi nú til annarra flokka, jafnvel Vinstri grænna. Já, ég veit nú varla hvert annað þeir ættu að fara. Auðvitað munu margir kjósa Samfylkinguna. En hún verður að auka trúverðugleika sinn og hætta að vera bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Það gengur ekki að þykjast afsegja Davíð sem seðlabankastjóra en gera það ekki að stjórnarslitaástæðu! Hugur verður að fylgja máli.

Já, loks tók ég aftur upp bloggþráðinn og vona að einhverjir slampist á að lesa þetta (kemst þó víst seint inn á mbl.is!). Ég lofa mínum fáu bloggvinum að reyna að stækka hópinn og skora jafnframt á góða menn sem vilja hleypa mér í sinn bloggvinahóp að setja sig í samband við mig! Nú er mér full alvara að taka þátt í umræðunni - nenni ekki lengur að bíða vikum saman eftir birtingu á greinum í blöðunum.


Kynþáttamismunun hjá Útlendingastofnun?

Það fauk verulega í mig þegar ég heyrði af brottvísun Kenyamannsins í gær. Þarna er ekkert á ferðinni annað en hreinasta kynþáttahyggja - eða er það almenn útlendingahræðsla? Eða bara mannvonska? Í öllu falli virðist þetta fólk sem þarna vélar um vera hreinustu þverhausar, reglugerðaþverhausar, gjörsneyddir tilfinningu fyrir öðru fólki - öllu heldur fólki af öðrum uppruna en við hér á þessu litla skeri....!

Ég þarf ekki að skýra þetta nánar, allir sem hugsanlega lesa þetta vita fullvel um hvað það snýst (þeir verða líklega ekki svo margir vegna þess hve latur ég hef verið - eða upptekinn - að undanförnu og menn hafa skiljanlega gefist upp á að fara inn á þessa síðu!). Það ljóta í þessum flóttamannamálum hér er að nánast aldrei er lotið svo lágt að hlusta á rök fólks fyrir umsókn um hæli, öllum umsóknum hafnað og fólkinu vísað til síðasta viðkomustaðar, sem er vitanlega löglegt - en siðlaust að mínu mati. Það minnsta sem menn geta gert er að tala við lögmann viðkomandi, það er ekki nóg að segja að hann (hún) geti sagt sár sjálf(ur) hvernig málið er í pottinn búið. Og eiginkonan og kornabarnið eru skilin eftir, þeirra mál verður afgreitt síðar - þegar þessum háu herrum þóknast, væntanlega. Hefur barnið annars engan rétt, fætt hér á landi? Það ber það væntanlega alla ævi: Born in Iceland!

Var ekki maðurinn skiptinemi hér? Vann hann ekki við barnahjálp í Kenýa, sem íslenska ríkið styrkti? Jú, en maðurinn er svartur. Fyrirgefið: þetta er fasismi - eða heitir það rasismi? Sama er, hvort tveggja jafnslæmt.

Fyrir mér er þetta enn alvarlegra vegna þess að sjálfur kom ég allnærri máli fyrir nokkrum árum sem snerist um atvinnuleyfi manns frá annarri heimsálfu, sem hefði átt að fá sér vinnu fyrst og sækja um atvinnuleyfi áður en hann kom hingað. Þá hét þetta útlendingaeftirlit og vegna þess að ég þekki fólk í stjórnkerfinu tókst mér að fá atvinnuleyfið í gegn - þvert gegn öllum lögum og reglum, mætti skilningi og greiðasemi. En munurinn er sá að sá maður sem þar um ræddi er hvítur. Þessi er svartur. Þetta tel ég vera rasisma þar til annað verður sannað! - Ég tek fram að sá maður sem þarna var á ferðinni reyndist hinn nýtasti þjóðfélagsþegn, fjölgaði þjóðinni og talar ágæta íslensku.

Þetta er sterk endurkoma mín í bloggheima og vonandi rekur einhver augun í þetta (ég lofa vinum mínum að fara að koma mér upp dálitlum bloggvinahópi!)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband