Vandi Ríkisútvarpsins var ekki leystur með hf-inu!

Ég er svolítið hugsi (eins og oftast um þessar mundir) yfir fréttum af niðurskurði á Ríkisútvarpinu og ekki síður yfir því hvernig þetta mál er afgreitt í fjöðlmiðlum, m.a. sjálfu Ríkisútvarpinu. Fram hefur komið að stór hluti af hallarekstri útvarpsins er vegna fjármagnskostnaðar en enginn hefur spurt hvers vegna þessi fjármagnskostnaður sem hvílir á  RÚV er svona mikill. Menntamálaráðherra var ekki heldur spurð um það hvers vegna staðan sé svona þrátt fyrir að RÚV hafi verið hlutafélag í næstum því heilt ár, en það rekstrarform átti að vera svo miklu betra en ríkisstofnunarformið. Við vitum að þessi breyting skilaði engu en það hefði verið fróðlegt að heyra hvernig mrh. hefði snúið sig út úr þessari spurningu hefði hún verið spurð.

En við vitum að mesti bagginn á RÚV er lífeyrisskuldbindingin sem sett var á stofnunina (sem þá var). Ég leyfi mér að birta grein sem ég ritaði um þetta mál í Morgunblaðið fyrir rétt rúmlega einu ári, svona til þess að hressa upp á minni manna. Greininni hefur ekki verið svarað svo ég viti og því lít ég svo á að efni hennar standi:

Vandi RÚV falinn með ohf

 Nú þegar Ríkisútvarpið er orðið að opinberu hlutafélagi virðist útvarpsstjóri vera með fullar hendur fjár; hann kaupir eftirsótta starfsmenn og innlend dagskrárgerð sjónvarps er farin að blómstra. Og fullyrt er að hann aki í glæsibíl á kostnað hlustenda.

Er þá allur fjárhagsvandi RÚV úr sögunni, skuldirnar greiddar, eða kannski þurrkaðar út?

Ég er hræddur um að hvorugt hafi gerst. Skuldir RÚV hvíla nú á herðum opinbers hlutafélags í stað ríkisstofnunar.

Í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur alþingismanns um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins 23. janúar á þessu ári segir að hallarekstur RÚV hafi numið 434 milljónum króna frá janúar til nóvember á því ári samkvæmt óendurskoðuðum reikningum. Samkvæmt árshlutareikiningi RÚV frá 1. janúar til 30. júní 2006 voru uppsafnaðar skuldir stofnunarinnar á því ári tæplega 5,2 milljarðar króna, langtímaskuldir rúmlega 3,3 milljarðar, þar af þrír milljarðar vegna lífeyrisskuldbindinga sem voru lagðar á Ríkisútvarpið árið 1995, án nokkurs rökstuðnings, en skammtímaskuldir tæplega 1,9 milljarðar króna; 700 milljónir króna voru vegna Sinfóníuhljómsveitarinnar en rúmlega 450 milljónir launaskuld.

Þetta eru ekki nýjar tölur og þær hafa sjálfsagt verið endurskoðaðar en varla lækkað að marki, kannski hækkað. Þess ber þó að geta að skuldin vegna Sinfóníunnar er hætt að aukast vegna þess að rekstri hennar hefur verið létt af RÚV - en kostnaðinn greiðir hið opinbera þó eftir sem áður.

 

Úr háum söðli

Í svari sínu þagði menntamálaráðherra um hverjar orsakir skuldanna voru. En sannleikurinn er þessi: Árið 1995 var eigið fé Ríkisútvarpsins 2,7 milljarðar króna, sem voru 88% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Þá hvíldu engar langtímaskuldir á stofnuninni, skammtíma viðskiptaskuldir voru 400 milljónir og viðskiptakröfur jafnhá upphæð. En á því ári var 2,6 milljarða króna lífeyrisskuldbinding lögð á RÚV með fullum þunga, án haldbærra raka og án þess að stofnuninni væri bættar þessar auknu álögur, nema síður væri; næsta áratuginn hækkuðu afnotagjöldin mun minna en verð- og launaþróun. Árið 1999 var Sjónvarpið flutt af Laugavegi í Efstaleiti og endurnýjað fyrir einn milljarð króna; það fé var útvegað með því að taka langtímalán. Dagskrárkostnaður, sem er að langmestu leyti laun og launatengd gjöld, jókst um 72% á árunum 1994-2002 en launakostnaðurinn sjálfur jókst á sama tímabili um 116%. Síðla árs 2006 var staðan þannig að allt eigið fé RÚV var upp urið og 220 milljónum króna betur, sem er þá viðbót við aðrar skuldir, og einn milljarð vantaði upp á að endar næðu saman í rekstrinum.

Látið var í veðri vaka í fyrravetur að vegna þessarar bágu stöðu væri bráðnauðsynlegt að gera RÚV að hlutafélagi en aldrei útskýrt hvernig það mætti verða, nema hvað hlutafélagaformið var sagt nútímalegra og skilvirkara en ríkisstofnunin. Svo voru lögin samþykkt en RÚV raunar ekki gert að hf-i eins og ætlunin var heldur ohf-i, þar sem o-ið stendur fyrir orðið „opinbert" eins og flestir vita. Í þeim lögum er bráðfyndið (eða sárgrætilegt) ákvæði um að hlutafé RÚV ohf skuli vera fimm milljónir króna, sem er náttúrlega eins og dropi í hafið.

28. september í fyrra spilaði menntamálaráðherra út trompi, samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem átti að taka gildi „samhliða breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins." Í þessum samningi er meðal annars gert ráð fyrir að RÚV kaupi eða gerist meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildamyndum eða öðru sjónvarpsefni fyrir að minnsta kosti 150 milljónir króna á ári frá og með árinu 2008. Sú upphæð á að hækka í 200 milljónir árið 2009 og verða 250 milljónir við lok árs 2012, þegar samningurinn rennur út.

 

Niðurskurður?

Þessi samningur er náttúrlega gleðiefni og ef til vill sjáum við áhrif hans í ýmissi nýlundu í innlendri dagskrárgerð þessar vikurnar. En ég get bara ekki varist þeirri hugsun að þar sem fjárhagur RÚV er svo bágur, að gerðu lánadrottnar kröfu um gjaldþrot (sem gerist líklega ekki meðan o-ið er á undan hf-inu) þyrfti ríkissjóður að leggja út að minnsta kosti einn milljarð króna til þess að hreinsa upp skuldir fyrirtækisins, líklega mun meira. Nærtækari möguleiki er að gripið verði til þeirra ráðstafana sem þykja sjálfsögð og eðlileg í hlutafélögum sem eiga við rekstrarvanda að etja, að skera niður og spara í rekstri. Ég hef séð útreikninga þar sem segir að sá niðurskurður myndi þýða 15-20% niðurskurð á veltu RÚV.

Það samræmist illa yfirlýsingum æðstu yfirmanna RÚV, þar á meðal útvarpsstjóra og menntamálaráðherra, um að eindreginn vilji þeirra sé að styrkja og efla þjónustu RÚV við almenning. Það verður hins vegar ekki gert til frambúðar á meðan RÚV er að sligast undan milljarða króna skuldabagga - og þær skuldir hlóðust ekki upp vegna þess að RÚV var ríkisstofnun heldur þrátt fyrir það. Þar af leiðandi var það ekki lausn á aðalvanda stofnunarinnar að gera hana að opinberu hlutafélagi - eða hlutafélagi yfirleitt.

Vandinn er enn óleystur

 Vandinn var óleystur fyrir ári þegar RÚV var gert að "opinberu hlutafélagi" og hann er sannarlega enn óleystur.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Hvernig hljómar "Alþingi ohf"? Kannski það myndi leysa vanda þess!

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 29.11.2008 kl. 01:02

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta eru skelfilegar fréttir af Ríkisútvarpinu og smátt og smátt er að koma í ljós hverjum var sagt upp. Ril dæmis Báru Magnúsdóttur tæknimanni sem er einstæð móðir og er búin að vinna hjá RÚV á annan tug ára a.m. k. Maður fer að komast í byltingarham.

María Kristjánsdóttir, 29.11.2008 kl. 13:52

3 identicon

Voru þetta myntkörfulán til jeppakaupa sem fóru svona með stofnunina eða eru þetta einungis lífeyrisskuldbindingar sem skapa þennan halla?

Stjórnendurnir eru allt að einu ekki starfi sínu vaxnir til að gæta stofnunarinnar en aftur á móti eru þeir fjandanum flinkari við eyðilegginguna. 

Stöndum vörð um RÚV!  Burt með Pál og Þorgerði K. 

101 (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 15:39

4 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Þetta eru eingöngu lífeyrisskuldbindingar. Nú bætist rekstrarhalli nátúrlega hratt við, hlutafélagsvæðingin virðist ekki ætla að duga! Takk fyrir stuðninginn 101!

Þorgrímur Gestsson, 30.11.2008 kl. 16:12

5 Smámynd: Rúna Vala

Ég held að Bára hafi meira að segja verið búin að vinna þar á þriðja tug ára, ef eitthvað er að marka fréttirnar á mbl.is.

Rúna Vala, 2.12.2008 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband