Ályktun stjórnar Hollvina RÚV 17. apríl 2009

Þessa ályktun Hollvina RÚV sendi ég til fjölmiðla síðdegis og stenst ekki mátið að gefa blogg- og fésbókarvinum mínum smá forskot - ég veit raunar ekkert um það hvort fjölmiðlar birta þetta eða segja frá því. En ég er náttúrlega óhemjuánægður með að nú viðurkennir meira að segja leiðarahöfundur Moggans  að allt það sem við í stjórn Hollvina höfum haldið fram núna í nokkur ár um hlutafélagavæðingu RÚV var aldeilis rétt. Nú er bara að reyna að bjarga fjárhag Ríkisútvarpsins, gera það aftur að ríkisstofnun og efla það góða fólk sem þar starfar til mikilla afreka á næstu árum.

 

Stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins fagnar því að loksins hafa augu fólks lokist upp fyrir því að breyting RÚV í opinbert hlutafélag var til einskis.

Fullyrt var þegar sett voru ný lög um Ríkisútvarpið 2007 og það gert að „opinberu hlutafélagi", að það hefði í för með sér að hallarekstur yrði liðin tíð. Nú hefur verið upplýst að skammtímaskuldir Ríkisútvarpsins námu 562 milljónum króna um síðustu áramót en í apríl 2007 hafi félagið átt 879 milljónir.

Stjórn Hollvina varaði ítrekað við því á meðan fyrrnefnd lagasetning var undirbúin, bæði í athugasemdum við lagafrumvörpin og í blaðagreinum, að breyting RÚV í hlutafélag myndi engu breyta um þá alvarlegu fjárhagsstöðu sem stofnunin var þá í.

Nú hefur menntamálaráðherra ákveðið að koma Ríkisútvarpinu til hjálpar með því að breyta skuld þess í hlutafé að því tilskyldu að það verði samþykkt á hluthafafundi.

Stjórn Hollvina RÚV treystir sér ekki til að meta þá gjörð en tekur undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins sl. fimmtudag að fróðlegt gæti verið að fylgjast með umræðum á þeim fundi „og heyra hvort eini hluthafinn mótmæli þessari skerðingu og útvötnun á hlut sínum".

Stjórn Hollvina RÚV tekur einnig undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins þegar hann skrifar: „Sú staðreynd að enn skuli þurfa að koma Ríkisútvarpinu ohf. til bjargar ber því vitni að sá gjörningur, sem framinn var með stofnun þess 1. apríl 2007, hefur ekki skilað tilætluðum árangri."

Stjórn Hollvina RÚV tekur ennfremur undir þá skoðun leiðarahöfundar að Ríkisútvarpið hafi mikilvægum skyldum að gegna og geri það að mörgu leyti svo sómi sé að. En ekkert virðist hafa breyst í rekstri stofnunarinnar þrátt fyrir breytt rekstrarform, rétt eins og stjórn Hollvina RÚV benti á hvað eftir annað að yrði raunin.

 

Fyrir hönd stjórnar

Hollvina Ríkisútvarpsins,

Þorgrímur Gestsson formaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband