Eftirskjálftar frjálshyggjunnar og Kommúnistaávarpið

Eftirskjálftar nýfrjálshyggjunnar skaka nú eina af helstu undirstöðum íslenskra bókmennta. Sú krafa samkeppniseftirlitsins að JPV-útgáfa selji útgáfuréttinn á bókum Halldórs Laxness er til þess eins fallin að veikja stöðu okkar sem bókmenntaþjóðar. Eins og sýnt er fram á í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag ræður enginn bókaútgefandi við þetta verkefni en JPV. Ef hann fær ekki að sinna því stöðvast endurútgáfa á bókum HKL. Svo einfalt er það.

Það liggur við að ég hafi enga ánægju af að segja það nú að í lok 9. áratugarins þegar holskefla Thatcherismans var að byrja að skella á okkur, að þá var ég einn af þeim sem bentu á að við Íslendingar værum (þá) innan við 300 þúsund og engin leið væri að hér gæti þrifist þess konar "frelsi markaðarins" sem stefnt var að, leynt og ljóst. Við vorum og erum að sjálfsögðu örþjóð og á mörkum þess að geta verið sérstök og sjálfstæð eining. Í öllu falli þýðir þessi lága hausatala að hér er alls ekki unnt að treysta á þetta svokallaða "markaðslögmál". Ég er reyndar á þeirri skoðun að þetta sé alls ekkert lögmál heldur fyrst og fremst leið ríkra manna til þess að verða enn ríkari, á kostnað alþýðu manna, sem hefur litla von um að verða meira en í besta falli sjálfbjarga.

Þetta hefur nú sannast rækilega. Auðmennirnir féll á sínu eigin græðgisbragði, kunnu sér ekki hóf og við, almenningur verðum að koma til bjargar. Mér gáfaðri og snjallari menn hafa sagt margt um þetta að undanförnu og eiga enn eftir að segja margt. Ég var hins vegar viðstaddur á föstudagseftirmiðdaginn kynningu Hins íslenska bókmenntafélags á Kommúnistaávarpinu í þýðingu Sverris Kristjánssona, sem sem hefur nú verið endurútgefið, og fram fór á Háskólatorgi. Það var um margt mikil upplifun að rifja upp kynnin af þessu merka riti, sem allir ættu að lesa; það var ekki síst fróðlegt að heyra Sigurð Líndal, prófessor emeritus, forseta HÍB, lýsa yfir því að boðskapur Kommúnistaávarpsins væri að mörgu leyti góður þótt varasamt væri að taka allt sem þar stæði sem endanlegan og heilagan sannleika, en þar væri hins vegar margt sem nútímamenn mættu hafa að leiðarljósi. Því er ég hjartanlega sammála. Margt hefur verið mistúlkað, misskilið og rangfært í þessum fræðum. Meðal annars hafa sjálfstæðismenn löngum haldið því fram að ófrelsi sé falið í kommúnismanum og eignað sér frelsi einstaklingsins. En þetta stendur í Kommúnistaávaqrpinu, bls. 206:

"Þegar þróunin er komin svo langt á veg, að stéttamismunurinn er horfinn og öll framleiðsla er í höndum samvirkra einstaklinga, tekur ríkisvaldið að týna pólitísku eðli sínu. Pólitískt vald er í raun réttri skipulagt vald einnar st´settar til að sitja yfir hlut annarrar. Þegar öreigalýðurinn verður í baráttu sinni við borgarastéttina að sameinast á stéttarvísu, gerist drottnandi stétt í byltingu og afnemur með stéttarvaldi sínu hina gömlu framleiðsluhætti, þá afnemur öreigalýðurinn í sama mund tilveruskilyrði stéttaandstæðnanna. Hann afnemur stéttirnar yfirleitt og afnemur því einnig sína stéttardrottnun.

Í stað hins gamla borgaralega þjóðfélags með stéttum sínum og stéttaandstæðum rís þá upp samfélag manna, þar sem frjáls þróun hvers einstaklings er skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar."

 Kapítalisminn hefur í för með sér frelsi þeirra einstaklinga sem ráða yfir auðmagninu en kommúnisminn stefnir á frelsi allra einstaklinga jafnt. En því miður hefur slíkur kommúnismi aldrei fengið að þróast, alls staðar hafa valdafíknir einstaklingar náð yfirhendinni en almenningur, öreigalýðurinn, orðið undir.

Hvert stefnir á Íslandi nú? Verða völd auðmannanna endurnýjuð og lagt af stað í nýja uppsveiflu og útrás eða verða hagsmunir almennings hafðir í huga og stefnt að auknu jafnrétti þegnanna?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

"þar sem frjáls þróun hvers einstaklings er skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar" - það mætti setja þessa kröfu á oddinn á næsta stóra mótmælafundi.

María Kristjánsdóttir, 25.11.2008 kl. 09:00

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Góð hugmynd - og vísa til ávarpsins góða!

Þorgrímur Gestsson, 25.11.2008 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband