Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tölvupóstur til Kolbrúnar

Óskemmtileg lesning blasti við mér á bls. 28 í Morgunblaðinu í morgun. Enn einn ganginn eys Kolbrún Bergþórsdóttir úr skálum reiði sinnar og lætur í ljós heilaga vandlætingu á framferði fólks undanfarið. Í dag skilur hún allra síst hvað fólk hefur á móti Davíð Oddssyni. Raunar er ástæðulítið að fyrtast við þessum skrifum því mér er tjáð af kunnugum að KB viti mest lítið um það hvað er að gerast í kringum hana, og sjálfum finnst mér, eins og ég skrifaði í grein um daginn, að hún sé að reyna að skapa sér ímynd sem einhvurslags eitursnjöll og gallhörð blaðakona - kannski einhvers konar devils advocate. En ég veit svo sannarlega ekki hvað skal halda. Það er varla gott veganesti fyrir blaðamann að hafa hengt sig svona rækilega utan í gömlu, spilltu öflin sem berjast nú fyrir lífi sínu og eru í rauninni dæmd til að tapa og munu fyrr en varir hverfa út fyrir hliðarlínuna og liggja þar og sleikja sárin.

Ég verð að játa að í morgun skrifaði ég téðri Kolbrúnu tölvupóst af því ég nennti ekki að eyða tíma mínum í að skrifa grein - maður er fljótari að skrifa stutta orðsendingu - og þegar ég hafði sent hana datt mér í hug að nota þetta tækifæri til þess að endurvekja blogg mitt, sem hefur legið niðri undanfarna daga sökum mikilla anna (vegna þess að ég vanrækti starfið allt of mikið á meðan ég sinnti mótmælastörfum!). En hér kemur tölvupósturinn:

Komdu sæl Ég nenni í rauninni alls ekki að elta ólar við þig en sé í Morgunblaðinu í dag að enn ertu við sama fúla heygarðshornið. Ég vil aðeins koma einu á framfæri við þig sem gamalreyndur blaðamaður: Hlutverk blaðamanns á meðal annars að vera að skilja og skynja stefnu og strauma í þjóðfélaginu. En þú virðist ekkert skilja í því sem hefur verið að gerast hér undanfarna mánuði, í besta falli dregið kolrangar ályktanir af því sem þú sérð í sjónvarpsfréttum (ég reikna varla með að þú hafir til að mynda hætt þér niður á Austurvöll til þess að gá sjálf að því hvað er að gerast). En þú gætir t.d. flett upp á bls. 36 í Sunnudagsmogga og lesið grein eftir Robert Wade. Þar er margt sagt af skynsemi, ekki síst um þennan "með horn og hala". Að hans mati og margra annarra erlendra hagfræðinga sem hafa fylgst með atburðum hér og tjáð sig er hann einmitt helsti sökudólgurinn, hann er "umfram aðra höfundur þess kerfis sem nú hrynur og gerðist sekur um dómgreindarbrest í kjölfar hrunsins í október sem væri hlægilegur ef hann væri ekki jafn alvarlegur og raun ber vitni". Ég ætti náttúrlega að vorkenna þér að hafa ekki fengið að upplifa þá samkennd og það bræðra- og systralag sem maður hefur fundið fyrir undanfarnar vikur á mótmælafundum, tilfinninguna fyrir því að heil þjóð hafi vaknað til vitundar og ætli sér ekki að sofna aftur. En ég kæri mig kollóttan. Við hin horfum hins vegar vongóð til framtíðarinnar, til þess að fúlum samtryggingar- og spillingaraflastjórnmálamönnum verði vikið til hliðar og við af þeim taki fólk sem hugsar um þjóðina en ekki fyrst og fremst sinn eigin feita rass. Þú hefur þegar ákveðið hvorum megin þú ætlar að vera. Verði þér að góðu. Ég á ekki von á að vistin þar verði féleg.
Kveðja, Þorgrímur Gestsson

Fagna vinstristjórn - en Austurvallarmótmælendur fylgjast vel með

Ég fagna myndun þessarar ríkisstjórnar, held að þetta hafi verið skásti kosturinn í stöðunni, eins konar biðleikur meðan verið er að bjarga því sem bjargað verður. Hins vegar líst mér ekki á aðfarir Framsóknar, sem hegðar sér nú eins og heilagur flokkur, sem hefur hvergi komið nærri því sem gerðist, setur skilyrði til hægri og vinstri (ég meina þetta ekki pólitískt!) og heldur að allir séu búnir að gleyma.

Eða er fólk byrjað að gleyma? Til þess benda niðurstöður síðustu skoðanakönnunar sem gefa vísbendingar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að auka fylgi sitt á  ný - vegna þess að Geir sagði loksins af sér, sem hann hefði átt að gera fyrir þremur mánuðum? Einnig Samfylkingin, sem hefði átt að gera slíkt hið sama strax eftir hrunið, og Framsókn - fyrir að hafa farið í hundahreinsun? Vinstri græn er eini flokkurinn sem virðist vera að ganga til baka, í áttina til síns fyrra fylgis, núna þegar hann fær loksins tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr (nú, eða þá ekki).

En hvað sem öllu líður vona ég - og býst raunar við - að við fáum að fylgjast betur en áður með því sem stjórnin gerir. En vita skal þessi nýja ríkisstjórn, að Austurvallarmótmælendur eru ekkert byrjaðir að fagna sigri, við fylgjumst vel með  því hvernig ríkisstjórnin stendur sig og það verður fljótlegt að seilast til pottanna og sleifanna ef okkur mislíkar eitthvað og kengur kemur aftur í lýðræðið.


mbl.is Skjaldborg slegið um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með hækkandi sól eykst bjartsýni um sæmilega framtíð

Ég lýsi yfir ánægju minni með að loksins sé verið að mynda vinstristjórn hér á þessu landi. Hættið öllu tali um "báknið burt" og "varist vinstri slysin". Hér varð óskaplegt "hægra slys", sem ætti að kenna þjóðinni mikilvæga lexíu.

Eftir langar stöður á Austurvelli og á stéttinni fyrir framan Alþingishúsið bíð ég nú vonglaður eftir tiltektinni - og ekki er það verra að Framsókn og jafnvel Frjálslyndir skuli hyggjast veita stjórninni stuðning; þá verður einn flokkur úti í horni en vonandi sjá þingmenn úr honum sóma sinn í að leggjast á árarnar með nýrri ríkisstjórn.

Sérlega athyglisvert er að fela á efnahags- og fjármál sérfræðingum í þeim efnum. Ekki veitir af. Og næst er tiltekt í Seðlabankanum - já, og hæfa menn þurfum við í Fjármálaeftirlitið.

Dagar tiltektar eru hafnir - og héðan í frá hækkar sólin á lofti með hverjum deginum sem líður. Það er þó víst. En við vonum að sól þjóðarinnar fari einnig hækkandi.

 Gangi ykkur vel næstu hundrað dagana (eða svo), nýju valdhafar - að þeim loknum kemur þjóðin aftur til skjalanna og hefur vonandi um marga góða kosti að velja.


mbl.is Falið að mynda stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hefur Geir ekkert skilið!

Það er eins og Geir hafi ekki skilið að Björgvin sagði af sér til þess að axla (loksins) ábyrgð. Hvers vegna var Geir ekki spurður út í það ? Hvernig skyldi hann hafa brugðist við t.d. þessari spurningu: Björgvin segist hafa verið að axla sinn hluta af ábyrgðinni vegna þess að stjórnvöld brugðust ekki fyrr við yfirvofandi bankahruni. Hver eru viðbrögð þín við því Geir??

Annars er ég kjaftstopp núna eftir að hafa legið fyrir framan Silfur Egils og hlýtt á það fólk sem þar talaði. Auðmennirnir komu stórkostlega miklum fjármunum undan og eru enn að úti í heimi. Á ekki að stöðva mennina? Á ekki að endurheimta þetta illa fengna fé? 

Eina ljósið í myrkrinu eru hugmyndir Njarðar P. Njarðvík, sem margir hafa tekið undir, síðast Benedikt Sigurðarson í Silfrinu: Stjórnlagaþing í sumar, ný stjórnarskrá, nýtt lýðveldi, víkjum frá öllum stjórnendum gamla lýðveldisins og hefjum siðbót á Íslandi


mbl.is Geir: Má ekki missa dampinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælendur sönnuðu í dag að þeir eru engir óeirðaseggir

Sú þróun sem mótmælin hafa nú tekið sýna svo ekki verður um villst að lítil hætta er á að þau leysist upp í óeirðir. Langflestir þeirra sem standa á Austurvelli, og hvar sem mótmælt hefur verið, er ábyrgt fólk upp til hópa. Það sést meðal annars á því að í dag flutti hópurinn sig frá Alþingishúsinu af tillitssemi við aðstandendur útfarar sem stóð yfir í Dómkirkjunni og hélt að Stjórnarráðshúsinu. Vegna flugufréttar sem barst um hópinn laust eftir kl. þrjú um að blaðamannafundur væri að hefjast í Alþingishúsinu hélt hópurinn þangað aftur. Það reyndist þó rangt, eða hvort fundinum var aflýst. En fljótlega kom í ljós að útförinni var ekki lokið og mótmælendur þögnuðu og gengu þögulir umhverfis húsið - sem var furðu vel gætt af lögreglumönnum, gráum fyrir járnum. Þegar líkfylgdin var á brott hófust aftur hróp og barsmíðar og allmargar púðurkellingar eða ámóta sprengjur flugu á Alþingishúsið, inn fyrir raðir lögreglumannanna, og sprungu þar með háum hvelli. Nokkru síðar hóf Lárus sjúkraliði, sá frábæri ræðumaður, upp raust sína og benti á að þetta gæti verið stórhættulegt og bað fólk að láta af þessari iðju. Það var gert þegar í stað og klapp og fagnaðaróp kváðu við þegar hann sagði til sín.

Þetta þýðir að þarna var ábyrgt fólk á ferð þótt einstaka persóna hafi kannski átt bágt með sig á stundum. En hitt er svo annað mál að ég sá mér til léttis að sá trausti og rólegi lögreglumaður Geirjón Þórisson stjórnaði aðgerðum í þetta sinn - enda gerðist ekkert sögulegt nema sú því miður falska frétt barst á fimmta tímanum að ríkisstjórnin hefði sagt af sér. Mikil fagnaðarlæti brutust út, sem dóu þó fljótlega út þegar hið sanna vitnaðist.

Hins vegar lýsi ég yfir sorg minni vegna þess að í öllu þessu hefur ekki einn einasti ráðamaður þjóðarinnar svo mikið sem opnað munninn til þess að tala við fólkið. Enginn kom út á svalir Alþingishússins og þegar Geir Haarde var rudd braut með hjálp kylfa að ráðherrabílnum steinþagði hann og virtist lafhræddur við fólkið. Enda viðurkennir hann víst ekki að þjóðin hafi verið þarna - þetta er víst bara skríll og uppivöðsluseggir eins og Sturla Böðvarsson þingforseti kallaði okkur í gær. Það er örm þjóð sem á ekki leiðtoga sem reynir að tala til hennar í þrengingum, telja kjark í hana. Reyndar held ég að Geir fengi aðallega hæðnishlátur ef hann reyndi. Sem hann gerir ekki.


mbl.is Mótmælendur ganga niður í bæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fyrirtækið er farið á hausinn....

Hvað er andhverfan við mótmæli? Líklega meðmæli! Hér var það lögreglan sem fór yfir strikið, það sá ég sjálfur. Og þingmenn í herkví? Lýðurinn var að senda þeim skilaboð, og þau voru skýr. Þeir sem hafa ekki skilið þau og halda að ríkisstjórninni sé treyst til þess að vinna úr þessu vandamáli eru ekki hæfir til stjórnunarstarfa. Oft hafa sjálfstæðismenn talað um að reka eigi ríkið eins og hvert annað fyrirtæki. En hvað gerist ef fyrirtækið fer á hausinn? Þá segja stjórnendurnir af sér - öllu heldur þá eru þeir reknir. En sjálfstæðimennirnir sem trúa helst á framtak einstaklingsins en ekki ríkið halda að þeir geti setið í skjóli ríkisins, sem þeir trúa ekki á,  þegar allt er hrunið í kringum þá. Þegar þeir hafa brugðist.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregla sýndi ögrandi framkomu, lögreglustjóri fer með rangt mál

Það hlaut að koma að þessu, hvort sem einhver "vildi" það eða ekki. Og þá fannst mér kasta tólfunum þegar forseti Alþingis sagði í öllum látunum á þá leið að þeir þyrftu ekki að hlusta á einhver mótmæli, þing og ríkisstjórn væri að "sinna sínum störfum". Betur að svo væri.

Ég var við Alþingishúsið frá því fyrir klukkan eitt og fram yfir fimm og get borið um að mótmælendur hegðuðu sér eins vel og hægt er að ætlast til við slíkar aðstæður. Ég sá raunar ekki upphaf þess að piparúða var beitt í fyrra sinnið, þegar flestir voru handteknir, en í seinna skiptið hafði ég góða yfirsýn yfir garðinn og sá ekki að neitt alvarlegt væri að gerast, mótmælendur höfðu krækt saman örmum og sneru bökum í lögguna. Má vera að einhver hafi stjakað við lögreglumanni, en skyndilega hófust margir úðabrúsar á loft og fólkið hrökk undan, inn í garðinn, og einhverjar stympingar urðu. Ég sat góða stund á bekk í garðinum og sá vel hvað gerðist og get borið um það að margir lögreglumannanna sýndu ögrandi og hrokafulla framkomu, hve lítið sem á þá var yrt. Aðrir reyndu að brosa og halda aftur af sér, þökk sé þeim.

Fátt af því sem Stefán lögreglustjóri sagði í Kastljósi í kvöld passar við mína upplifun, þar var öll framkoma lögreglu fegruð en frásagnir vitna, sem ég get staðfest sumar, voru dregnar í efa og gerðar tortryggilegar. Um þetta get ég vitnað hvenær sem er.


mbl.is „Fólk var að bíða eftir þessum degi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaskurðstofa í Keflavík?

Enn hefur ekkert verið upplýst um það hvernig skurðstofan í Keflavík er til komin. Var hún ekki sett upp fyrir fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir fáum árum? Þar skilst mér að allt hafi gengið á afturfótunum síðan en á St. Jósefs hefur gengið vel, skurðstofuteymin ná góðum árangri. Við bætist að frést hefur af læknum á fundum í Keflavík og víðar um væntanlega einkaskurðstofu og sögusagnir eru um að flokksfélagarnir og vinirnir Árni Sigfússon og Guðlaugur Þór séu komnir vel á veg með að hleypa einkavinavæðingunni þar inn. Er ekki komið nóg af slíku? Einhvern tímann hefði ég haldið þessu fyrir mig en reynt að fá botn í málið og sagt svo frá því á viðeigandi stað.
mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn sofa vært og rótt - þöggunin heldur áfram

Það er fáránlegt að lesa þetta nú í morgunsárið eftir að hafa verið á borgarafundinum í Háskólabíói. Þar stóðu tveir breskir hagfræðingar á sviðinu, annar vel kunnugur íslensku efnahagslífi, og sögðu sína skoðun. Robert Wade gaf stjórnvöldum falleinkunn, ekki í fyrsta sinn. Hann sagði að Davíð Oddsson ætti að leita sér að annarri vinnu, að ráða ætti erlenda sérfræðinga til þess að taka hér til annars færi allt á annan endann í þessu kunningja- og fjölskyldutengslasamfélagi innan örfárra mánaða.

En nei, einu viðbrögðin eru að Geir Haarde  sagði í þætti Bubba Morthens á Rás tvö í gærkvöldi að hann væri ósammála manninum, alveg eins og sl. sumar þegar hann sagði að grein hans í The Economist að hún væri ekkert annað en "einhver aðsend DV-grein". Maðurinn er prófessor í hagfræði. Og ekkert í níufréttum. Hvar er Fréttastofa útvarps?

Enn ætla íslensk stjórnvöld að skella skollaeyrum við öllum viðvörunum.

Og hvar er umfjöllun fjölmiðla um fullyrðingar stjórnsýslufræðingsins, Sigurbjargar Siggeirsdóttur, sem stýrði endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins og sótti svo um starf forstöðumanns nýju stofnunarinnar  sem ég man ekki í svipinn hvað heitir. Hver voru viðbrögð Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra þegar hún skýrði honum frá því? Hann öskraði á hana og sagði að hann réði hvernig þetta yrði og hann hefði þegar fundið manninn í stöðuna - sá er fyrrverandi formaður einkavæðinganefndar. Hann öskraði á manneskjuna. Hvers konar framkoma er þetta af ráðherra?

Og hvað er sagt í fjölmiðlum um þetta í morgun? Ekkert! Enda viðkvæmt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir ríkisstjórnina og væntanlega fyrir Morgunblaðið. Hvar voru blaðamenn þessa lands í gærkvöldi? Sofandi heima hjá sér?

Ég tek til baka allt sem ég hef sagt og hugsað um vaknandi blaðamenn. Þeir eru jafnsofandi og áður.


mbl.is Ríkissjóður í jafnvægi 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið ísraelska apartheid

Samfylkingarfólk hamast nú hvert um annað þvert við að benda þeim sem vilja að Íslendingar slíti stjórnmálasambandi við Ísrael á að það myndi "dæma okkur úr leik hvað varðar aðkomu að tillögum til lausnar á alþjóðavettvangi og skaða möguleika okkar á að beita ísraelsk stjórnvöld áframhaldandi þrýstingi".

Hvaða orðagjálfur er þetta? Svona tala þeir sem þora ekki að taka afstöðu með þeim sem Ísraelsmenn hafa í 60 ár reynt að bola af landi sínu og haldið um áratugi í fangabúðum í eigin landi. Ísraelsmenn ætla sér ekki að hlusta á þetta marklausa þvaður, eitthvert diplómatískt kjaftæði, og hafa stuðning Bandaríkjamanna í því efni. Þeir ætla sér þetta land og auðvitað vita þeir að á meðan nokkur maður er enn á lífi þarna á Gaza reynir fólkið að verjast. Ísraelsmenn hafa sáð fræjum haturs í sex áratugi og gert þetta mál gjörsamlega óleysanlegt. Samt halda þeir áfram að kveina um að verið sé að ráðast á Ísrael, að þeir séu þolendur í þessu máli.

Og þeir halda áfram að myrða konur og börn, ganga nú hús úr húsi og skjóta heilu fjölskyldurnar. Tilgangurinn er að drepa allt kvikt og það mun takast þótt Ingibjörg Sólrún sendi utanríkisráðherra "sérstakta bréf" og um það sé getið í Jerusalem Post.

Eina ráðið er að umheimurinn meðhöndli Ísrael eins og Suður-Afríku. Þar var apartheid stefnan brotin á bak aftur með viðskipta-  og samskiptabanni, auk frelsisbaráttu blökkumannanna sjálfra - þá lagðist umheimurinn á sveif með þeim. Hér þarf ekkert minna því vitanlega er Ísrael apartheid-ríki því þar fær enginn borgararéttindi sem er ekki gyðingur. Enginn nýtur fullra mannréttinda nema gyðingar. Hvað er það annað en apartheid?

Nú fæ ég líklega Vilhjálm Örn Vilhjálmsson yfir mig! En það  verður þá svo að vera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband