Blaðamenn sofa vært og rótt - þöggunin heldur áfram

Það er fáránlegt að lesa þetta nú í morgunsárið eftir að hafa verið á borgarafundinum í Háskólabíói. Þar stóðu tveir breskir hagfræðingar á sviðinu, annar vel kunnugur íslensku efnahagslífi, og sögðu sína skoðun. Robert Wade gaf stjórnvöldum falleinkunn, ekki í fyrsta sinn. Hann sagði að Davíð Oddsson ætti að leita sér að annarri vinnu, að ráða ætti erlenda sérfræðinga til þess að taka hér til annars færi allt á annan endann í þessu kunningja- og fjölskyldutengslasamfélagi innan örfárra mánaða.

En nei, einu viðbrögðin eru að Geir Haarde  sagði í þætti Bubba Morthens á Rás tvö í gærkvöldi að hann væri ósammála manninum, alveg eins og sl. sumar þegar hann sagði að grein hans í The Economist að hún væri ekkert annað en "einhver aðsend DV-grein". Maðurinn er prófessor í hagfræði. Og ekkert í níufréttum. Hvar er Fréttastofa útvarps?

Enn ætla íslensk stjórnvöld að skella skollaeyrum við öllum viðvörunum.

Og hvar er umfjöllun fjölmiðla um fullyrðingar stjórnsýslufræðingsins, Sigurbjargar Siggeirsdóttur, sem stýrði endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins og sótti svo um starf forstöðumanns nýju stofnunarinnar  sem ég man ekki í svipinn hvað heitir. Hver voru viðbrögð Guðlaugs Þórs heilbrigðisráðherra þegar hún skýrði honum frá því? Hann öskraði á hana og sagði að hann réði hvernig þetta yrði og hann hefði þegar fundið manninn í stöðuna - sá er fyrrverandi formaður einkavæðinganefndar. Hann öskraði á manneskjuna. Hvers konar framkoma er þetta af ráðherra?

Og hvað er sagt í fjölmiðlum um þetta í morgun? Ekkert! Enda viðkvæmt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir ríkisstjórnina og væntanlega fyrir Morgunblaðið. Hvar voru blaðamenn þessa lands í gærkvöldi? Sofandi heima hjá sér?

Ég tek til baka allt sem ég hef sagt og hugsað um vaknandi blaðamenn. Þeir eru jafnsofandi og áður.


mbl.is Ríkissjóður í jafnvægi 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristlaug M Sigurðardóttir

Ég held að við þurfum að gera byltingu. Hundrað manns hertaka hvert ráðuneyti, alþingi, fjölmiðlana og seðlabankann. Neyðarstjórn í 12 mánuði sem gerir nýja stjórnarskrá og kosningar eftir það-Lifi lýðræðið!! Þöggunin í fjölmiðlum er ótrúleg-hvar er metnaður blaðamanna þessa lands? Hefur engin lengur áhuga á því að segja sannleikann?

Kristlaug M Sigurðardóttir, 13.1.2009 kl. 10:03

2 Smámynd: Haukurinn

'Hvar eru blaðamenn þessa lands' er spurt, nær lagi væri að spyrja 'hverjir eru blaðamenn þessa lands'? Það er, þó svo vissulega séu til dæmi um ómenntaða blaðamenn sem bera af í blaðamennsku, þá tíðkast það í þeim löndum sem við miðum okkur við, að blaðamenn eru hluti af fagstétt sem starfar á grundvelli ákveðinnar fagmenntunar.

Er það alveg víst að þeir sem á Íslandi eru kallaðir 'blaðamenn' hafi öðlast þau 'verkfæri', gegnum menntun eða álíka þjálfun, sem nauðsynleg eru til að starfa sem slíkir?

Hér ber að taka það fram að ég er ekki að halda neinu fram, en frekar að spyrja þá sem fróðari eru um mögulegar skýringar og svör. Einkum sökum þess, að mér hefur hingað til ekki fundist íslensk pressa uppfylla þeim skilyrðum eða koma til móts við þær kröfur sem hlutverk þeirra sem 'hin fjórða valdstofnun' krefst. Ennfremur virðast fjölmiðlar landsins aldrei hafa náð að fjarlægja sig gömlu flokkamiðlunum, og á nýrri tímum einkamiðlum auðjöfranna. Oftar virðist bera á því að verið sé að birta fregnir fremur en að greina þær eða þýðingu þeirra. Í upplýsingasamfélagi nútímans er minnkandi þörf á fregnabirtingu fréttamiðlanna, en samhliða aukin þörf á greiningu þeirra - sem og upplifuðu og raunverulegu sjálfstæði fjölmiðlanna sem samfélagsstofnun.

Haukurinn, 13.1.2009 kl. 10:19

3 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Fjölmiðlar þessa lands ru mannaðir tiltölulega ungu fólki, sem margt hefur menntast í Háskóla Íslands, í deild hans eða skor eða hvað það heitir, sem kennd er við "hagnýta fjölmiðlun". Ég hef lengi verið gagnrýninn á það nám sem þar er boðið upp á, án þess þó að hafa kynnt mér það, sem er náttúrlega skömm að. En frammistaða fjölmiðlanna undanfarin ár sýnir ekki að sú kennsla sem þar fer fram sé mikils virði. Áður fyrr sóttu nokkuð margir ungir blaðamenn nám í fjölmiðlun á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Sjálfur stundaði ég nám í blaðamennsku í Noregi fyrir um 30 árum - og um langt árabil var yfirleitt einn Íslendingur í hverjum árgangi þar. Ég ætla svosem ekki að dæma hvort blaðamennska á Íslandi var betri eða verri á þeim árum - þetta var á árum flokksmálgagna - en fullyrði að hún átti marga mjög góða spretti, hvað sem öðru líður (minni á Helgarpóstinn, sérstaklega framan af). En á seinni árum finnst mér allt hafa fallið niður í einhverja flatneskju og síðustu árin hefur blaðamennska á Íslandi aðallega verið ná forsendum auðmagnsins. En þetta er náttúrlega bara mín skoðun og ég vil gjarnan fá upp einhverja numræðu um þetta hér!

Þorgrímur Gestsson, 13.1.2009 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband