Færsluflokkur: Bloggar

Allt á borðið um ES-aðild, kosti OG galla

Sem ég sit hér aðfaranótt fyrsta almenna vinnudags ársins 2009 velti ég fyrir mér hvað muni eiginlega gerast á þessu ári. Miðað við þá stefnu sem umræðan hefur tekið undanfarna daga held ég að ætlunin sé að reka okkur mjög hratt út í það að taka einhvers konar ákvörðun um Evrópusambandsaðild. Þá held ég að við verðum að passa okkur mjög vel því annars vegar höfum við Evrópusinna, sem sjá ekkert annað en aðild og hins vegar þá sem sjá ekkert annað en illt við aðild. Ég hef verið í báðum hópunum; lengst af hef ég verið mikill andstæðingur aðildar en haust snerist ég skyndilega og reifst jafnvel við mína nánustu, spurði til að mynda hvort aðildarríkin hefðu öll misst fullveldi sitt - hvort Frakkar, Þjóðverjar og allar þessar þjóðir væru ósjálfstæðar og hvort ekki væri réttara að vinna með öðrum Evrópuríkjum en einangra okkur hér úti í hafi.

En ég er alls ekki viss, aðallega vegna þess að ég veit of lítið um þetta. Þess vegna er aðalatriðið að ítarleg og upplýsandi umræða hefjist sem fyrst og allt verði lagt á borðið, bæði kostir OG gallar. Hvað með fiskinn? Hvað með aðrar auðlindir? Er hætta á að við missum að einhverju leyti yfirráðarétt yfir þessu? Fyllast Íslandsmið af fiskiskiðum frá Spáni, Portúgal, Bretlandi? Verður ástandið eins og áður farið var að stækka fiskveiðilögsöguna?

Allt þetta verðum við að fá að vita, og ekki kostina frá Samfylkingunni og gallana frá Sjálfstæðisflokknum eða LÍÚ heldur verða fjölmiðlar heldur betur að fara að hysja upp um sig brækurnar og útvega okkur upplýsingar og umfram allt spyrja stjórnmálamenn og embættismenn hvassra spurninga, láta þá ekki sleppa endalaust með óljóst hjal, múður og undanslátt.

Allt á borðið og fulla hreinskilni, takk.

Og ef ég á að meta afstöðu vinstri flokkanna  sýnist mér Samfylkingin vera staða í sínum rétttrúnaði en að Vinstri græn séu tilbúin að ræða málið - og þá væntanlega á krítískan hátt. Það tel ég vænlegra en hallelújahjal Samfylkingarmanna til þessa.


Skrifið ekki barnamál í mbl.is!

Þetta er ótækt málfar í íslenskum miðli: maður og kona klesstu á hvort annað.... Það er eins og barn hafi skrifað þetta, þetta er hreinasta barnamál. Þið á mbl.is verðið að umgangast tungumálið með virðingu, ekki gera ykkur sek um sóðaskap sem þennan. Ég veit að það er enginn prófarkalestur á þessari ritstjórn og það er algjörlega ótækt. Þetta er ekki ykkar mál, blaðamannanna, ekki ritstjóranna, þetta er mál okkar allra, skylda ykkar gagnvart lesendum er að málfarið hjá ykkur sé boðlegt - en mikið vantar upp á að svo sé. Það hefði ekki tekið lengri tíma að skrifa: karl og kona rákust saman í miðri skíðabrekku en það hefði kostað dálitla umhugsun og umfram allt máltilfinningu, sem blaðamenn á mbl.is virðist skorta sárlega upp til hópa.
mbl.is Árekstur skíðafólks í Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir þurfa að fara í endurhæfingu?

Til þess að gæta allrar sanngirni vil ég leggja áherslu á að Jón Ásgeir er náttúrlega ekki einn sekur - og eins og hann skrifar í varnargrein sinni í Morgunblaðinu ber hann til að mynda ekki ábyrgð á Icesafe-reikningunum. Þarna koma margir aðrir glannar við sögu, sem fóru offari í ákefð sinni, drifnir áfram af gróðafíkn og græðgi, vildu meira og meira. En bankamennirnir sem stjórnuðu útlánunum bera ekki minni sök, mér láðist að nefna það í morgun. Og ráðamennirnir sem þverneituðu að nokkuð væri að þegar erlendir bankamenn spurðu forviða hvað þeir væru að hugsa, sögðu að þeir skildu bara ekki hinn íslenska hugsunarhátt - þeir gerðu það náttúrlega ekki! - og hver sagði aftur að þessi bandaríski hagfræðingur, sem lét í ljós undrun sína á síðasta ári yfir því að stjórnvöld gerðu ekkert, þyrfti líklega að fara í endurhæfingu?

Hverjir þurfa að fara í endurhæfingu núna?


Já, með dyggri aðstoð settirðu okkur á hausinn, Jón

Nei, Jón Ásgeir, þú settir Ísland ekki á hausinn einn þíns liðs. Þið lögðust nokkrir á eitt. Í hvers þágu fóruð þið í þessa svonefndu "útrás"? Í þágu þjóðarinnar? Nei, í ykkar eigin þágu. Það hefði verið í lagi ef þið hefðuð sést fyrir og vitað hve langt þið ættuð að ganga. En þið hélduð áfram og áfram og áfram þangað til allt hrundi. Ég hef heyrt það nefnt "eftiráspeki" þegar menn segja að ekki hafi verið tekið mark á viðvörunarljósum sem blikkuðu allt síðastliðið ár. En Hallgrímur Thorsteinsson rifjaði upp ýmislegt sem var í fréttum um það fyrri hluta ársins í þætti sínum Vikulokunum á laugardaginn. Það var fróðleg samantekt og góð upprifjun fyrir alla. Hagfræðingar og bankamenn í útlöndum voru furðu lostnir á því sem var að gerast í ofvöxnu bankakerfinu hér en ráðamenn ypptu öxlum - hafa menn gleymt þeim ummælum varaformanns Sjálfstæðisflokksins að á bak við þetta hlytu að liggja annarlegar ástæður?

Já, Jón Ásgeir Jóhannesson, þú lagðir þig allan fram um að koma Íslandi á hausinn. Og nú átt þú að nýta alla þína "harðdrægni í viðskiptum" til þess að vinna í þágu þjóðarinnar - ekki í þína þágu - við að greiða upp í þá skuld sem nú er verið að leggja á herðar okkar. Það eiga allir hinir "útrásarvíkingarnir" að gera líka. Ganga fram niðurlútir, biðjast afsökunar á mistökum sínum og leggja fram allt það fé sem þeir geta tekið úr fyrirtækjum sínum erlendis og bankahólfum í skattaparadísum. Þá má vera að þeim verði fyrirgefið. Því það er stórmannlegt að fyrirgefa mönnum misgjörðir þeirra - ef þeir iðrast sjálfir.


mbl.is Jón Ásgeir tekur dóma nærri sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er að fara með okkur út í fen fátæktar

Hefur ríkisstjórn Íslands ekki frétt af þessu? Hún skar hressilega niður í öllum málaflokkum í gær. Til menntamála, til heilbrigðismála, til verklegra framkvæmda. Er þetta ef til vill finnska leiðin - að skera allt niður þar til atvinnulífið og allt kerfið hrynja? Stefnir ríkisstjórnin þjóðinni út í fen fátæktar og örbirgðar? Hvers vegna hikar fólk við að gera allsherjar uppreisn? Og hvar eru auðævi olígarkanna íslensku sem keyrðu þjóðfélagið í þrot???

Ég hélt að ríkisstjórnin væri að vinna í samráði við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn! Hvers vegna hefur hann þá ekki kippt í taumana?


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónus er bara harður bissniss!

Hvað sem segja má um upphæð sektarinnar sem Högum er gert að greiða vegna undirboðanna er hitt víst að ábyrgð þeirra feðga er mikil. Árum saman var fullyrt að Bónus beitti birgja valdi til þess að þeir verðlegðu vörurnar eins og Bónusi þóknaðist. Það hlýtur síðan að hafa valdið hærra vöruverði annars staðar - sem Bónus hagnaðist náttúrlega á. Það sýnir líka máttleysi fjölmiðla, að þeir hafa aldrei tekið á þessu þótt þetta væri altalað. Eða gerðu þeir það? Ekki varð ég var við það. Þarna brugðust þeir lika!

Og vegna Bónuss eru varla til litlar matvöruverslanir, hverfisverslanir - kaupmaðurinn á horninu - lengur, til skaða fyrir þá sem eiga ekki bíl og fyrir mannlífið í hverfunum. Það hefur jafnframt stuðlað  að aukinni bílaumferð - og mengun - og sóun.

Hvernig fara Hagar svo út úr bankahruninu? Standa þeir feðgar jafnréttir eftir eða......? Spyr sá sem ekki veit. En eitt er víst: Þeir sem reka Bónus gera það ekki af góðsemi við okkur almenning, eins og þegar hefur verið bloggað, heldur eru þeir í hörðum bissniss. Og harður, miskunnarlaus bissniss er vonandi í dauðateygjunum!


mbl.is Brot Haga alvarlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skærumótmæli farin að bera árangur!

Þetta unga fólk, sem á að erfa landið, stendur sig vel. Þetta mætti kalla skærumótmæli, leggja til atlögu í minni hópum á sérstaklega völdum stöðum og hverfa svo á braut. Einhver hefur gagnrýnt að þau skyldu þiggja kaffisopa - en auðvitað eiga þau, og ekki heldur við, neitt sökótt við starfsfólkið niðri á gólfinu. Það situr í sömu súpunni og við. En þessar skærur hafa þegar haft þau áhrif að Tryggvi Jónsson hefur sagt upp. En nú þarf að beina spjótunum gegn bankastýri Landsbankans, sem var hátt sett í gamla bankanum - og það þarf að hreinsa til í skilanefndunum. Er það svo ekki dæmigert fyrir Fjármálaeftirlitið að þar skyldi allt vera læst og enginn viðbrögð sýnd? Þetta er sannkallaður fílabeinsturn.
mbl.is Þökkuðu fyrir kaffið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hattinn af fyrir blaðamanninum unga

Þetta var óþokkabragð af Reyni Traustasyni og ber honum ekki gott vitni sem blaðamanni og ritstjóra. En hattinn af fyrir Jóni Bjarka. Það er dálítið hlálegt að þegar íslenskur blaðamaður grípur til svolítið "walraffskrar" aðferðar skuli það afhjúpa dagblaðsritstjóra. Enda þótt  blaðamaðurinn ungi hafi þurft mánuð til þess að taka ákvörðun er hans gjörð eigi að síður góð, einnig félaga hans sem finnst sér ekki vera sætt á þessari ritstjórn. Og vonandi verður þetta til þess að íslensk blöð og aðrir fjölmiðlar taki á sig rögg og beini rannsóknum sínum af fullum krafti gegn höfuðsyndaselunum í harmleik haustsins, útrásar- og bankamönnunum, og láta sig engu varða um það þótt þeir eigi miðlana. Ef þeir grípa til óyndisúrræða og hóta að loka sýna þeir þjóðinni einfaldlega sitt rétta andlit og hver veit til hvers það kann að leiða - kannski góðs. En mitt fertuga blaðamannshjarta samgleðst þessum unga blaðamanni og ég er þess fullviss að hann á eftir að fá sín tækifæri - og lætur vonandi meira að sér kveða í blaðamennsku. Ekki veitir af að hrista upp í íslenskum fjölmiðlaheimi sem svaf því miður lengstaf á útrásartímunum og spurði varla nokkurra spurninga. Þarna voru þó undantekningar - Spegillinn á Rás 1 Ríkisútvarpsins syndi að þar fór og fer eini raunverulega frjálsi fjölmiðill landsins.

Reynir Traustason mætti annars taka ofan sinn eigin hatt öðru hverju, þótt ekki væri til annars en að sýna náunganum örlitla kurteisi.


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið og svínaríið halda áfram, undir opinberri vernd

Sannanir um óheiðarleika, sukk og svínarí auðmannanna hrannast upp og jafnvel dómskerfið hélt hlífiskildi yfir braskinu þegar Baugsmenn keyptu og seldu sjálfum sér fyrirtækin fram og til baka. Og nú lætur ríkisstjórnin okkur öll blæða með hærri sköttum, hærra eldsneytisverði, áfengisverði - og allt fer þetta út í verðlagið og við sem munum verðbólguárin erum þegar farin að kannast við atburðarásina. Forseta ASÍ er nóg boðið og framundan blasir við gamalkunnug barátta launafólks til þess að reyna að verja kjör sín. Engin merki eru hins vegar um aukinn skatt á hátekjumennina, þeir sleppa sem fyrr, þar á meðal þeir sem settu þjóðina á hausinn!

Ríkisstjórnin er með allt niðrum sig og fylgið molnar undan  Samfylkingunni meðan forystumenn hennar sitja undir þessu ofríki sjálfstæðísráðherranna. Við heimtum kosningar og heilbrigða landstjórn.


mbl.is Viðskipti, ekki fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri og meiri skítur!

Já, það kemur upp meiri og meiri skítur eftir því sem dýpra er grafið. Öll kurl eru áreiðanlega ekki komin til grafar. Maður heyrir raddir sem segja að manneskjan sé í eðli sínu svo óheiðarleg að engin leið sé að stöðva þetta. Menn mega sosum hafa þá skoðun en margir halda fast í þá trú að unnt sé að hamla gegn ósómanum og bæta samfélagið. Enn aðrir halda því fram ennþá að allt sé þetta einungis heimskreppunni að kenna og telja fáfengilegt að mótmæla hér uppi á Íslandi, það sé til einskis, hér sé jafnvel um að ræða "ömurlega íslenska lágkúru af hálfu mótmælendanna" eins og væntanlega guðhræddur, ungur guðfræðingur skrifar í Morgunblaðið í dag. Við eigum að slökkva á gagnrýnisröddunum hér og mynda okkur skoðanir á heimsefnahagnum, sjá eitthvert samhengi. En á meðan við leitum að samhenginu halda skúrkarnir áfram að raka til sín gróðanum eins og ekkert hafi í skorist en við eigum bara að vera þæg og kyssa vöndinn. Sveiþví!
mbl.is Sami maður beggja vegna borðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband