Metro-módelið komið í þrot

ÉG hef haft efasemdir um að þetta fyrirkomulag gengi, allt frá byrjun. Fríblöð ganga þar sem mikill fjöldi fólks fer um á skömmum tíma og flestir fá sér eintak til þess að lesa í lestinni á leið til vinnu; á því byggðist Metro-hugmyndin. Hér eru ekki þær aðstæður.

En jafnvel þótt blaðið fari til tugþúsunda manna á hverjum degi er þetta viðskiptamódel andstætt öllum hugmyndum um frjálsa blaðamennsku. Þessi blöð eru einvörðungu háð auglýsendum um rekstrarfé, sem getur gengið um hríð meðan þensluástand ríkir. En á samdráttartímum verður að skera niður rekstrarkostnað og þá er náttúrlega byrjað á því að spara í mannahaldi, og hverjum er sagt upp fyrst? Þeim sem hafa lengsta reynslu og fá hæst kaup. Nú er þetta ferli komið í gang hjá Fréttablaðinu, sem hefur svosem átt góða spretti, en peningarnir hafa alltaf yfirhöndina, eigendavaldið er sterkt og sannleikurinn tapar í því stríði sem nú er hafið, stríðið við að halda blaðinu á floti á tímum efnahagsöngþveitis.

Vonandi tekst áskriftarblöðunum að halda velli þótt það sé erfitt líka, og já, nú njótum við þess að eiga Ríkisútvarp, sem verður vonandi breytt aftur í ríkisstofnun!


mbl.is Útgáfudögum Fréttablaðsins fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða bull færsla er þetta eiginlega? Þú talar eins og þú hafir séð fyrir þessa miklu kreppu og samdrátt sem nú er í gangi og ekkert sé sjálfsagðara en að heilu markaðirnir leggist af og þú hafir auðvitað vitað að það myndi gerast.

Ef svo er þá spyr ég af hverju þú aðvaraðir ekki stjórnvöld, stjórnendur fyrirtækja og almenning.

Það er ekkert ólíkt með neinum fjölmiðli á íslandi nú að reksturinn gengur illa hvort sem um áskriftarmiðil eða frían miðil er að ræða. Í þenslu hlýtur það einnig að haldast í hendur að fleyri eru tilbúnir að gerast áskrifendur af fjölmiðlum og þar með aukast auglýsendur þar og tekjur þeirra hækka enn meira. Samanber það að Stöð 2 birjaði að setja uaglýsingar inn í þætti líkt og frístöðin Skjár Einn hefur ætíð gert. Sá leikur gat aðeins komið til af tvennu, annars vegar vildi stöð 2 nýta það sem skjár einn hafði getað nýtt svo vel skítt með áskrifendur sína eða að þeir höfðu skindilega svo mikið af auglýsingum að þeir þurftu að fjölga auglýsingatímum. Hvort það svo er get ég ekki svarað.

Hvað dagblöð varðar þá er Fréttablaðið eina blaðið sem hefur verið rekið í plús í þónokkuð mörg ár. Svo kemur samdráttur og þá segjir fólk já auðvitað gat þetta ekki gengið. Vitleysa og heimska að mínu mati. Það er samdráttur hjá öllum á íslandi og sumir munu falla og aðrir ekki. Skjár Einn stendur enn þó að það sé svosem ekki útséð hvað gerist á endanum en þegar yfirlísingin um að þetta væri honum erfitt og hugsanlega yri lokað álitu margir að allir væru hættir þar og hættu meira að segja að stilla sjónvarpið sitt á Skjá Einn. Slakið á í guðs bænum. Við missum ekki allt þó við missum margt og hættið að þykjast vita eitthvað rosalega mikið um þetta. Viðurkennið bara að þið vitið ekki neitt um þetta alveg eins og ég og allir hinir. Fréttablaðið er að segja að þeir eru að leita leiða til að spara ekki að þeir séu að loka. Mogginn er í margfalt meiri hættu alveg eins og Stöð 2 var í margfalt meiri hættu en Skjár Einn þar til Nonni Ás keypti hana af sjálfum sér og minnkaði hættuna aðeins. Það er ógjörningur að segja hvað gerist með þessi fyrirtæki frekar en landið sjálft. Slökum því bara á og njótum þess sem við höfum á meðan við höfum það.

Sigurður J Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:08

2 identicon

Það væri gaman að sjá hlutfall auglýsingatekna vs. áskriftartekna hjá öllum miðlum, ég er viss um að auglýsingatekjurnar eru miklu hærri í öllum tilfellum.

Bandarísku ókeypis sjónvarpstöðvarnar hafa gengið áratugum saman og sína vel að ókeypis fjölmiðill getur vel staðið undir sér.  

Karma (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 16:12

3 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Bíðið aðeins við, kæru vinir. Ég sagði ekki annað en að ég hafi frá upphafi haft megnustu ótrú á því að dagblöð væru gefin. Enda fór Fréttablaðið einu sinni á hausinn. Ég þurfti ekkert að vara neinn við, menn gátu sagt sér að þenslan tæki enda, sem hún gerði. En auðvitað sá ég ekki fyrir það hrun sem varð. Blaðamennska getur ekki þrifist í miðlum sem byggjast einvörðungu á auglýsingum. Það er á hreinu.

Lítið svo á markaðinn. Það þýðir ekkert að bera saman það sem gengur í Bandaríkjunum þar sem eru 2-300 milljónir manna og hér þar sem eru 300 þúsund manns! Þetta er hreinasta rugl. Ekki veit ég hve gamlir þið eruð sem gerðuð hér athugasemd. En mig grunar að þið munið ekki mikið fram fyrir upphaf þenslunnar sem var.

Þorgrímur Gestsson, 6.1.2009 kl. 16:37

4 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Fyrirgefðu, ég leit aftur á myndina af Sigurði. Hann var vísast ekki fæddur þegar þensluskeiðið, góðærið og stöðugleikinn hófst og man ekki annað en gósentíð og heldur líklega að peningahyggjan sé undirstaða alls.

Þorgrímur Gestsson, 6.1.2009 kl. 16:39

5 identicon

Ég man alveg tímana tvenna fyrst þú hefur áhuga á því. 

Það er alveg hægt að bera saman USA og Ísland þó stærðarmunur sé. Rekstur snýst bara um tekjur vs. útgjöld og ókeypis miðlar ganga út frá þeirri forsendu að hægt sé að afla nægra tekna með auglýsingum eða að eigendur haldi lífi í miðlinum þrátt fyrir tap.

Auðvitað er rekstrargrundvöllur alls konar fyrirtækja breytilegur eftir því hvort það er samdráttur eða þensla.

Annars fatta ég ekki alveg pointið þitt. Annars vegar segiru að Metro-módelið sé komið í þrot en síðan segiru að fríblöð gangi bara ef notast er við Metró-módelið.

Karma (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 17:22

6 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Óttalegur misskilningur er þetta - eða útúrsnúningur. Ég á við að Metrómodelið gengur ekki hér - nema helst í yfirþenslu eins og verið hefur, þegar allt er á útopnu. Nú hefur allt hrunið og stefnir vonandi í eðlilegri tíma en verið hefur um sinn. En ég hef haft þá skoðun frá byrjun að þetta módel gangi engan veginn upp, m.a. út frá blaðamennskulegu sjónarmiði. Enda sérðu hvernig fjölmiðlun í Bandaríkjunum er, undir hæli fjármagnseigenda, fjölmiðlar sitja og standa eins og þesir vilja. Frjáls fjölmiðlun þrífst ekki nema hjá almannaútvarpsstöðvunum og örfáum stöðvum sem stofnaðar voru og eru reknar af hugsjónafólki, t.d. Democracy now!

Bara til að leggja áherslu á þetta: Ég hef aldrei sagt að fríblöð "gangi bara ef notast er við Metró-módelið" Hvaða dómadags vitleysa er þetta? Þú getur ekki skáldað svona, góði minn.

Það segir sig bara sjálft að 300 þúsund manna markaður stendur ekki undir mörgum fjölmiðlum. Það þarf ekkert að ræða frekar. Það er ekki við undanfarna tíma að miða því allt það fé sem flætt hefur um þjóðfélagið var gervifé, lánsfé sem var aldrei annað en tölur á tölvuskjám eins og komið hefur á daginn. 

Þorgrímur Gestsson, 6.1.2009 kl. 17:49

7 identicon

Takk fyrir hrósið við myndinn minni. Vissulega er það rétt hjá þér að ég man ekki mikið eftir fyrirþenslutímanum enda fer þeim hratt fækkandi enda hátt í 30 síðan það hófst eða um það leyti sem ég skreið í heiminn. Það þýðir hins vegar ekki að ég hafi engan skilning á því sem er að gerast og það er mjög skammsýnt hjá þér að halda að ungt fólk geti ekki skilið neitt í þessum málum. En hins vegar man ég eftir erfiðistímum enda kem ég úr stórri fjölskyldu og ég lít á foreldra mína sem algjörar hetjur fyrir að hafa náð að hafa mat ofan í okkur sistkynin.

En aftur að aðalmálinu þá er ekkert sem segir að ísland geti ekki borið marga mismunandi fjölmiðla, það er bara spurning hversu brjálæðislega stórir þeir eiga að vera. Það er hægt að reka ódýra fjölmiðla sem koma fréttum og öðrum skilaboðum vel á framfæri. Það sem ég er ansi hræddur um að hafi gerst í þenslutíðinni er að fjölmiðlar eins og flest fyrirtæki misstu sig í eyðslunni, bæði í húsnæði og tækjum og öðrum flottheitum. Svo ekki sé minnst á starfsfólk. Ég veit um dæmi þar sem fólki hefur verið sagt upp nú og það hefur sagt að það hefði vitað að það myndi gerast því starfið þeirra var algjörlega óþarft.

Það er hægt að láta ótrúlega hluti ganga á ótrúlega litlum pening en það sem við íslendingar þurfum að læra allir með tölu, og ekki bara við unga fólkið sem þið eldri kynslóðin kennduð aldrei, er að sníða okkur stakk eftir vexti.

En þú sem blaðamaður átt nú líka að geta vitað að það þarf ekki gríðalega umgjörð utan um fréttir eins og verið hefur. það er tæknilega nóg að hafa einblöðung með fréttum prenntaðann í slatta af eintökum til að geta talist fullgildur fjölmiðill.

En svo er annað, Fréttablaðið var aldrei Metro blað. Fréttablaðinu er dreift í hús rétt eins og Mogginn, Metro blöðum er dreif á standa í borgum þar sem fólk grípur þau með sér. Það er all annað en Fréttablaðið eins og þú veist.

En skemmtilegt þras þetta engu að síður. Við munum sjá hvað verður og einhverjir aðilar munu halda áfram að fara af markaðnum en ég mun ekki kenna samdrætti og kreppu um að fjölmiðlar fari á hausinn. Slíkt getur aðeins verið skrifað á annaðhvort slæma hugmynd eða slæman rekstur og á Íslandi eftir allt þetta rugl sem hefur gengið yfir þá skrifa ég það í lang flestum tilfellum á slæman rekstur.

Sigurður J Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 04:27

8 identicon

"Fríblöð ganga þar sem mikill fjöldi fólks fer um á skömmum tíma og flestir fá sér eintak til þess að lesa í lestinni á leið til vinnu; á því byggðist Metro-hugmyndin"

Þetta eru þín orð, ég er ekki að skálda neitt.

"Það segir sig bara sjálft að 300 þúsund manna markaður stendur ekki undir mörgum fjölmiðlum"

Mér sýnist að þér sé aðalega í nöp við Fréttablaðið vegna hugmynda þinna um frjálsa blaðamennsku og kannski eigenda þess.

Það er hægt að segja þetta um nær öll fyrirtæki í öllum geirum, 300þús manna markaður stendur ekki undir öllu augljóslega en það þýðir ekki að eitt stakt fyrirtæki eða rekstrarmódel geti ekki gengið.

Karma (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 09:18

9 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Það er dálítið erfitt að eiga orðastað við þig. Auðvitað "gengur" metro-módelið upp fjárhagslega ef nógu margt fólk les blaðið - þá vilja auglýsendur auglýsa. En íslenska útgáfan er náttúrlega dálítill bastarður - Metró-hugmyndin útfærð með venjulegu áskriftarfyrirkomulagi, með því að bera blaðið  í hvert hús. Þá er náttúrlega mesta hagkvæmnin farin!

En 300 þús. manna markaður stendur ekki undir slíku - til lengdar - eins og komið er í ljós nú, þegar allt er hrunið. En ég sagði líka í upphafi að ég hefði alltaf haft vantrú á  Metró-módelinu, það væri ekki hollt fyrir frjálsa blaðamennsku að blöð væru einungis gefin út til þess að þóknast auglýsendum. Það er er nóg að þurfa að berjast við þá undir venjulegum kringumstæðum - ég hef bæði verið blaðamaður og ritstjóri og þekki þetta. Sífelldan þrýsting á að skrifa í hag auglýsenda, til þess að fá auglýsingar. Það hefur einmitt tröllriðið þessum"auglýsingablöðum, þó svo Fréttablaðið hafi átt sína spretti, eins og ég hef áður sagt.

Ég er ekkert séstaklega "á móti" Fréttablaðinu, fremur en t.d. Morgunblaðinu eða öðrum fjölmiðlum. Ég reyni hins vegar að meta þá blaðamennsku sem stunduð er og finnst hún stundum í lagi, oftar ekki. Og blaðamennska vestanhafs, í USA, er almennt séð ekki burðug um þessar mundir. Og mér er ekkert sérstaklega í nöp við eigendur Fréttablaðsins en finnst þó andskoti skítt það sem þeir tóku þátt í - og eiga sök á, meðal annarra.

Út af lokaorðum þínum: Já, kannski gengur þetta þjóðfélag alls ekki upp! En það er svo kannski efni í aðra umræðu!

Þorgrímur Gestsson, 7.1.2009 kl. 10:05

10 identicon

Við eigum það allavega sameiginlegt að reyna að meta blaðamennskuna sem slíka og íslensku miðlarnir allir eiga það sameiginlegt að fjalla of oft hlutdrægt, meðvirkt og grunnt um mikilvæg málefni. Allt of mikið um fréttir unnar beint uppúr fréttatilkynningum til dæmis.

Ég held að fleiri og fleiri kjósi að afla sér upplýsinga um hitt og þetta með því að leita uppi blogg, umræðuvefi og youtube myndbönd raunverulegra sjónarvotta.

Fréttablaðið stendur illa, Mogginn skuldar víst 4,5 milljarða, Viðskiptablaðið svo gott sem á hausnum, 24 stundir hættar, DV veit ég ekkert um en hef búist við lengi að rúlli. Tími áþreifanlegra fréttamiðla er einfaldlega að líða þó að það sé kannski ennþá pláss fyrir vel rekin fyrirtæki.

Karma (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 11:20

11 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Nú erum við sammála! Og mér finnst vera mjög miður að staðan skuli vera þessi því ég myndi salna hinna "áþreifanlegu miðla" en kannski góð "blaðamennska" eigi eftir að þroskast í hinum nýju miðlum, hver veit. Og kannski er þetta bara íhaldssemi í mér, kannski skiptir útgáfumátinn ekki máli.

En ég vildi gjarnan vita hver leynist á bak við þetta dulnefni!

Þorgrímur Gestsson, 7.1.2009 kl. 12:27

12 identicon

Útgáfumátinn skiptir mig ekki öllu máli heldu meira aðgengið, ég vil geta séð uppfærðar fréttir þegar hlutirnir breytast.

Dagblöðin vil ég sjá með dýpri fréttaskýringar. Ég hef engan áhuga að opna blað og lesa nákvæmlega sömu fréttina og ég las kvöldið áður.

Það er nú bara ég sem er á bak við Karma nafnið. Líffræðingur og starfa við það, réttu megin við þrjátíu ára múrinn (hvernig sem þú túlkar það) og deili því með þér að vera vinstrisinnaður og trúi að atburðir síðustu missera muni vekja fólk úr nýfrjálshyggjumartröðinni sem hefur gegnumsýrt þetta þjóðfélag alltof lengi.

Karma (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband