Þjóðin er hér! Þjóðin er hér! Þjóðin er hér!

Þið getið ekki talað fyrir hönd þjóðarinnar, sagði Ingibjörg Sólrún í Háskólabíói fyrir rúmri viku. Og viðurkenndi að hún gæti það ekki sjálf. En hver getur þá talað fyrir hönd þjóðarinnar? Líklega enginn. Og hvar var þjóðin þetta kvöld? Hún var meðal annars í Háskólabíói, líklega hátt í tvö þúsund einstaklingar af þessari þjóð. Hvar var þjóðin á laugardaginn var? Meðal annars á Austurvelli, líklega 5 eða 6000 þúsund. Og á fullveldisdaginn voru að minnsta kosti eittþúsund einstaklingar, líklega talsvert fleiri, á Þjóðfundi á Arnarhóli. Þar var mannfjöldinn að svara ISG þegar hann hrópaði hvað eftir annað: "Við erum þjóðin!"

Eða var þjóðin alls ekki á þessum stöðum? Var hún einhvers staðar allt annars staðar? Var hún úti á landi? Fyrir norðan, fyrir vestan, austan eða sunnan? Eða einfaldlega heima í stofu eða á laugardagsgöngu? 

Skipta skoðanir þeirra þúsunda sem mótmæla stjórnvöldum dag eftir dag - eða sýna öllum almenningi samstöðu - skipta þær ekki máli að mati stjórnmálamannanna? Hafa hróp þúsundanna undanfarnar átta vikur enga þýðingu? Eða eru það "aðeins" öskur skrílsins? Lýðsins - sem orðið lýðræði er kennt við?

Nú segja Geir og Ingibjörg að þau séu að leiða þjóðina í gegnum ógöngurnar, það geri þau þótt það kosti þau tímabundnar óvinsældir. Og þau vona að vinsældirnar aukist á ný þegar allt verði orðið gott! En þau gæta ekki að því, sérstaklega Geir, sem hefur verið lengi við völd, að leiðtogar þjóðar þurfa að njóta trausts hennar og það gera þau ekki nú. Þau hafa ekki traust okkar, við treystum þeim ekki - eða færri og færri gera það. Aldrei færri. Skoðanakannanir eru nefnilega jafnábyggilegar þegar þær sýna óvinsældir stjórnarflokkanna eins og þegar þær sýna styrk þeirra og stærð.

Hvert klúðrið hefur rekið annað að undanförnu, nú síðast kom í ljós að lagfæra þarf reglur um gjaldeyrisviðskipti ef ekki á að fara enn verr. Nú er nóg komið. Fólkið vill fá að segja sitt um ástandið og ég er þess fullviss að ekkert myndi róa okkur, fólkið, almenning, meira en að annað hvort taki við stjórnartaumunum til bráðabirgða  ríkisstjórn allra flokka eða stjórn hæfra embættismanna.

Eða telja núverandi ráðamenn að þeir einir, sem létu þetta yfir okkur ganga þótt þeir vissu fullvel um hættuna, að enginn ráði við vandann nema þeir?

Ef svo er hafa þeir enn einu sinni rangt fyrir sér. Ég vil að endingu minna á að lýðræði var ekki komið á meðan lýðurinn beið í þögn og þolinmæði eftir því að ráðamenn "leystu vandann".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband