Ég verð að viðurkenna að ég er enn svolítið dasaður eftir fréttir af skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Í fyrsta lagi: Allt sem þessir ágætu (karl)menn nefna sem orsök hrunsins er rétt. En ansi stór hluti þjóðarinnar hefur hinsvegar áttað sig á þessu fyrir löngu. Allt þetta var kjarninn í mótmælum okkar Austurvellinga.
Hins vegar er erfitt að átta sig á því hvað þeir eru að fara þegar þeir halda því fram að ekkert af þessu sé sjálfum Sjálfstæðisflokknum eða stefnu hans að kenna. Bíðið nú aldeilis við: Frelsi í atvinnulífinu, einkavæðing, frjálst framtak einstaklingsins. Var þetta ekki þarna allt saman? Voru það þá bara einstaklingar sem fylgdu helstu stefnumálum flokksins sem brugðust, þeir í sjálfu sér, "per se" eins og menn segja þegar þeir vilja virðast gáfaðir. Semsagt vondir sjálfstæðismenn, vondir kapítalistar.
Nöfnin sem standa undir skýrslunni eru líka athyglisverð. Ég staðnæmist þó aðallega við nafnið Ólafur Klemensson - er það ekki maðurinn með vindilinn sem gekk milli mótmælenda við Hótel Borg, hrinti konum, ógnaði körlum og kallaði fólk kommatitti eða eitthvað álíka? Fólk átti víst bara að sitja heima og bíða eftir að hann og félagar hans lykju við endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins, sem er náttúrlega ætlað að hreinsa skjöld Flokksins svo hann fái nú mikið fylgi í næstu kosningum! Og allir gleymi nú þessum ávirðingum - en annars: Þarna eru engin nöfn nefnd, þó tekið fram að ekki hafi verið heppilegt að fyrrum valdamenn sætu í stjórn Seðlabankans. Því er ekki nafnið nefnt?
Sjónvarpið var ekki með þessa frétt - eða fór hún bara framhjá mér? Eitt augnablik hélt ég að þetta væri bara gróft grín en svo fann ég heimasíðu Endurreisnarnefndar og sýndist þetta vera fúlasta alvara. Eða lenti ég óvart inn á vef Baggalúts?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.