Færsluflokkur: Bloggar
7.5.2008 | 00:04
Stríðið um Hallargarðinn hafið fyrir alvöru!
Þá hefur salan á Fríkirkjuvegi 11 til Björgólfs-feðga verið samþykkt eins og vænta mátti. Það var ákaflega merkileg lífsreynsla að koma nálægt þessu máli og kynnast vinnubrögðum fólks innan borgarkerfisins.
Þetta mál snerist fyrst og fremst um það hvort leyfa ætti væntanlegum eigendum Fríkirkjuvegar 11 að gera ákveðnar breytingar Hallargarðinum svonefnda. Við sem erum í forsvari fyrir Hollvini Hallargarðsins viljum engar breytingar nema til upprunalegs horfs þessa almenningsgarðs. Í kaupsamningnum sem samþykktur var í kvöld var hins vegar gert ráð fyrir að setja mætti "viðhafnarinnkeyrslu" í garðinn og aðkomuplan sunnan hússins vegna fyrirhugaðs safns í kjallaranum. Á þeirri óvönduðu teikningu, sem fylgdi og er formlegur hluti af kaupsamningnum, er auk þess sýnt rof í hestagerðið gamla, sem er hundrað ára á þessu ári, og (leik)svið. Ekki er á það minnst í samningnum en þar er hins vegar talað um bílastæði, sem geta varla verið annars staðar en þarna.
Vegna baráttu okkar og borgarfulltrúa Vinstri grænna var hætt við viðhafnarinnkeyrsluna og lofað að aldrei yrði takmarkaður aðgangur almennings að garðinum og borgarstjóri lýsti yfir því að farið yrði eftir fornleifalögum hvað hestagerðið varðar, sem þýðir væntanlega að það verði ekki snert. Þó er gert ráð fyrir því í endanlegum samningi.
Við, stjórnarfólk Hollvina Hallargarðsins, hittum borgarstjóra á sunnudaginn og ræddum þetta við hann. Þar hafði aðallega orðið Hrólfur nokkur Jónsson, sviðsstjóri hjá borginni, fyrrverandi slökkviliðsstjóri. Framganga hans var frómt frá sagt ruddaleg, í hvert sinn sem hann opnaði munninn æsti hann sig og var augljóslega í vörn - fyrir hvern? Fyrir kaupendur, Novator ehf. Það fór ekki á milli mála. Fagfólkið í okkar hópi skýrði mál okkar mjög vel og gerði grein fyrir gildi garðsins og þeim verðmætum sem þar liggja og eina krafan sem við lögðum fram var að fá skriflega þær fullyrðingar borgarstjóra að ekki yrði snert við garðinum og hann yrði ætíð opinn almenningi. En við því var náttúrlega ekki orðið.
Svo hófst borgarstjórnarfundurinn. Ég hlustaði á netinu fram til kvöldverðarhlés og aftur frá því um kl. 20. Eiginlega ofbauð mér sá kjaftagangur sem þar var fram borinn, eilífur orðhengilsháttur um smáatriði og útúrsnúningur, hótfyndni og hártoganir. Ég er eiginlega orðlaus. Það var eins og oftast bæði á Alþingi og í borgarstjórn, meirihlutinn hefur myndað sér skoðun og heldur fast við hana, minni hlutinn reynir að rökstyðja mál sitt en ekkert hrín á meirihlutanum. Svo er allt samþykkt eins og ákveðið hafði verið. Við erum fullvissuð um að í raun og veru gerist ekkert, nema þetta aðkomutorg verður gert. Samt eru í samningnum heimildir fyrir ýmsum breytingum - og það sem meira er: Ef borgin vill breyta einhverju seinna þarf að leggja fram ítarlegar og nákvæmar teikningar þar sem grein er gerð fyrir breytingunum. Annað en rissið sem þeir lögðu fram sjálfir, riss sem má túlka fram og til baka!
Í lok fundar okkar með borgarstjóra og sviðsstjóra sagði ég á þá leið að maður sem hefur efni á að kaupa hús fyrir næstum milljarð hljóti að hafa flestalla þræði í hendi sér.
En menn skulu vita það að Hollvinir Hallargarðsins munu beit sér fyrir því að um leið og farið verður að hrófla við garðinum grípum við til allra tiltækra ráða og kærum hvaðeina. Þetta skal fara fyrir Hverfisráð miðborgar og skipulagsyfirvöld og allir kærufrestir nýttir til hins ýtrasta.
Sjáið annars nánar um atburði dagsins á hollvinir.net. Því miður varð myndavélin mín rafmagnslaus þegar þeir félagar Benedikt og Hilmir Snær komu á virðulegu tölti eftir Ráðhússbrúnni og riðu síðan eftir gangi Ráðhússins og fóru út hinum megin. Starfsmenn sem þarna voru urðu skíthræddir og sögðu að þetta væri bannað - en var þá bent á að þarna væri aðeins skilti með yfirstrikuðum hundi, ekki yfirstrikuðum hesti. Þá sagði einn þeirra að hellurnar á gólfinu lægju á sandi og undir þeim væru lagnir sem gætu skemmst! "Já, ég vissi að þetta hús væri byggt á sandi", varð mér að orði en ég held hann hafi ekki skilið það.
Ég stenst ekki að rifja það upp úr umræðunum í kvöld að Gísli Marteinn sagði undir lokin að hann vissi ekki betur en að búið væri að ernig rjúfa skarð í hestagerðið, öðruvísi hefðu hestarnir varla komist inn! Því myndi engu muna að stækka gatið svo þar kæmist bíll. Hvernig skyldu hestar Thors Jensens hafa komist inn í réttina? Klifruðu þeir yfir vegginn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2008 | 10:47
Mótmælalisti á netinu
Nú er mótmælalistinn kominn á netið, slóðin er:
http://www.petitiononline.com/f11rv101/petition.html
Skrifið undir og dreifið slóðinni!
Með bestu kveðju
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2008 | 00:07
Baráttan fyrir frjálsum Hallargarði í fullum gangi!
Undirskriftalistar vegna mótmæla gegn því að tveir af auðmönnum þessa lands fái að loka Hallargarðinum þegar þeir þurfa að bjóða heim vinum sínum hefur fengið prýðis undirtektir, allir boðnir og búnir að skrifa undir og dreifa listum.
Verið er að útbúa síðu á netinu þar sem hægt verður að kvitta fyrir þessi mótmæli en það hefur eitthvað dregist. Vonandi kemst hún í gagnið á morgun. Auðvitað eru allir í þessu á hlaupum, allt önnum kafið fólk en þetta eru líka vanir menn í svona aðgerðum og vonandi hrífur þetta, vonandi verður Hallargardððinum þyrmt.
Ásgeir Friðgeirsson, áróðursmeistari þeirra feðga, reyndi að snúa þessu upp í misskilning og segir að enginn ætli að loka garðinum. En enginn hefur sagt að þeir ætli að gera það - "nema" þegar "tignir gestir" koma, "nema" nokkra daga á ári. Það eina sem hefur verið sagt í þessu sambandi er að almenningur eigi að hafa fullan aðgang að garðinum þrjá daga á ári: sumardaginn fyrsta, 1. maí og 17. júní - já og líklega á menningarnótt. Eða var 1. maí ekki inni þessu? Líklega ekki. Þeir félagar hafa líklega megnustu fyrirlitningu á þeim degi!?
Í kvöld hringdi í mig níræð kona, sem vildi lýsa stuðningi við okkur. Hún heitir Sonja Schmidt, fædd frostaveturinn mikla, 1918, og bjó alla sína tíð að Sólvallagötu 4. En því miður seldi hún rétt áður en fasteignaverðið rauk upp, hún hefði líklega getað keypt fjórar íbúðir fyrir húsið í stað einnar, sem hún gerði. Hún lá á Hvítabandinu vegna botlangaskurðs 1968 þegar undirskriftum var safnað gegn niðurrifi Fríkirkjuvegar 11 og fékk held ég flesta eða alla sjúklinga, lækna og hjúkrunarfólk til að skrifa undir og telur fullvíst að það hafi riðið baggamuninn! Já, því ekki?
Aðalatriðið er að vera níræður og ennþá brennandi í andanum! Hafi gamla konan þökk fyrir stuðninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2008 | 22:49
Stöndum vörð um Hallargarðinn!
Á þessum síðustu tímum þegar góðærið og stöðugleikinn eru í andarslitrunum, verðbólgupúkinn bíður glottandi á næsta horni, verktakarnir ríghalda í hrörnandi húskumbalda í gamla bænum og nýríkir útrásarmenn hafa stórskaðað álit umheimsins á Íslendingum almennt, já þá biður einn þessara auðmanna um að fá keyptan einn af almenningsgörðum miðborgarinnar. Og meiri hluti borgarstjórnar vill lúffa fyrir þessum peningamönnum, jafnvel borgarstjórinn sem hangir á völdunum hvað sem það kostar þótt hann hafi lýst yfir því áður en hann komst til valda að hann myndi aldrei samþykkja það. Eða það hef ég fyrir satt.
Í ár eru 30 ár frá því haldin var samkeppni arkitekta um útlit nýrrar seðlabankabyggingar sem var ætlaður staður á lóðinni nr. 11 við Fríkirkjuveg. Seðlabankamenn tóku fram af gefnu tilefni að vildi einhver að húsið yrði varðveitt myndu þeir af góðmennsku sinni og höfðingsskap sjá um að flytja það á nýjan stað.
En Reykvíkingum var nóg boðið. Safnað var undirskriftum þar sem öllum þessum fyrirætlunum var mótmælt og einn þeirra sem skrifuðu undir mótmælin var Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður og Fríkirkjuvegur 11 stendur enn, sem betur fer. Húsið hefur hins vegar staðið autt í um það bil ár vegna þess að borgarfulltrúar í minni hlutanum hafa spyrnt við fótum og reyna að fá embættismenn borgarinnar til þess að fara að settum reglum í stað þess að afhenda afkomendum Thors Jensens húsið á silfurfati.
En sala hússins er ekki það eina sem stendur til. Þeir sem vilja kaupa hyggjast breyta garðinum við húsið, sem hefur um áratugi gengið undir nafninu Hallargarður vegna þess að bindindishreyfingin átti húsið áður fyrr og það var kallað Bindindishöllin. Þeir vilja breyta honum þannig að unnt sé að renna þangað inn limosínum , "tiginna gesta" án þess að skilgreint hafi verið hvað það hugtak þýðir í þessu tilfelli og vilja fá leyfi til þess að loka garðinum með lögregluvaldi þegar þessa tignu gesti ber að garði.
Dálítill hópur fólks sem finnst þetta vera mjög varhugavert hittist í dag og ákvað að halda kynningarfund í sjálfum Hallargarðinum klukkan 13 á sunnudaginn og stofna í framhaldi af því hollvinasamtök Hallargarðsins, endurtaka leikinn frá 1968 og veita þessum fyrirætlunum harða mótspyrnu.
Ég álpaðist á þennan fund með þeim afleiðingum að ég var gerður að fundarstjóra, þrátt fyrir að ég benti vinsamlegast á að ég kynni ekki fundarstjórn. Það verður þá bara að hafa það - mér finnst þetta svo mikilvægt prinsippmál að svoleiðis smámunir mega ekki þvælast fyrir manni. Almennir borgarar Reykjavíkur (og fleiri, sjálfur er ég orðinn Hafnfirðingur) verða að taka höndum saman og stöðva framrás útrásarmannanna, stöðva landvinninga þeirra í borginni okkar, koma í veg fyrir að þeir fái yfirráðarétt undir lögregluvernd yfir einum af almenningsgörðum borgarinnar. Þetta bætist við þann yfirgang auðmannanna sem þeir hafa sýnt undanfarin ár með því að valta
yfir gömlu Reykjavík, rífa hvert húsið af öðru og reisa steingelta og andstyggilega íbúðaturna, gera meðal annars Skuggahverfið að sannkölluðu skuggahverfi og yfirleitt leika borgina þannig að útlendingar spyrja agndofa hvort borgin hafi farið illa út úr loftárásum í stríðinu.
Við sem vorum skipuð í undirbúningsnefnd þessarar félagsstofnunar ætlum að ráða ráðum okkar á morgun og reyna að halda fjölmennan fund fyrir framan Fríkirkjuveg 11 - ung baráttukona sem ég held að sé í Kvennó talaði um að virkja ungt fólk til að grilla og stjórna leikjum - og ætlunin var að fá að skoða húsið innan en það virðist ætla að bregðast því skömmu eftir að Hrólfur Jónsson sviðsstjóri (eða eitthvað svoleiðis) hjá borginni hafði samþykkt það hringdi hann og sagði að því miður væri það ekki mögulegt. Við hvað eru þeir hræddir?
Sjáumst í Hallargarðinum, fyrir framan Fríkirkjuveg 11, klukkan 13 á sunnudaginn (með regnhlíf ef rignir)!
Bloggar | Breytt 22.4.2008 kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2008 | 13:03
Muna að lesa yfir!
Hvernig væri að blaðamenn á mbl.is læsu nú yfir það sem þeir skrifa áður en þeir senda það í loftið? Eða hvað þýðir þetta: "Hundruðir rannsókn hafa verið gerðir...."?
Mér skilst raunar að enginn prófarkalestur sé á þessum miðli, sem er til skammar fyrir hinn aldraða og virðulega eiganda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2008 | 13:58
Blaðamennska heimsins er á heljarþröm, í gíslingu kapítalismans
Þótt 13 ár séu liðin síðan ég var síðast fastur starfsmaður á fjölmiðli reyni ég enn að telja sjálfum mér trú um að ég sé fyrst og fremst blaðamaður, þótt rithöfundarnafnið hljóti að vera innan seilingar þar sem ég er þó alltént félagi í Rithöfundasambandi Íslands - en hef hins ekki verið í Blaðamannafélaginu árum saman. Mér finnst raunar miður að vera ekki í því félagi. Eða hvað?
Ég hef lengi verið ósáttur við þá þróun sem íslensk blaðamennska hefur tekið hin síðari ár - mörg. Mér virðast vinnubrögð íslenskra blaðamanna sífellt verða yfirborðskenndari, stjórnmálamenn og embættismenn sleppa allt of billega frá spurningum þeirra, sleppa við að gefa skýringar sem þeir ættu að gefa og það verður æ sjaldgæfara að blaðamenn rannsaki málin sjálfir, kanni þau ofan í kjölinn og upplýsi okkur sem teljumst til almennings. Um þetta gæti ég skrifað langt mál - og geri það vafalaust fyrr eða síðar. Í dag hef ég ekki tíma til að kafa mjög djúpt í þetta en læt nægja í bili að setja hér netslóð sem mér var send í morgun og leiðir inn í fróðleg skrif um þetta efni. Þar kemur í ljós að þetta er ekki aðeins íslenskt vandamál, ástæða sé til að hafa áhyggjur af blaðamennsku heimsins, henni hafi hnignað mjög frá því seint á níunda áratug síðustu aldar þegar Rupert Murdoch skóp fjölmiðlaveldi sitt og blaðamenn nútímans séu fyrst og fremst þrælar heimskapítalismans og gróðahyggjunnar, hlekkjaðir við skrifborð og tölvu og rannsaki mál sárasjaldan, hver lepji fréttirnar meira og minna upp eftir öðrum.
Í lok greinarinnar er slóð á kynningu bókar sem kom út í síðasta mánuði og heitir Flat Earth News eftir Nick nokkurn Davies og virðist vera mjög athyglisverð.
http://www.cpbf.org.uk/body.phtml?doctype=news&id=1 998
Hvaða fjölmiðill hefur t.d. reynt að setja eldsneytisverðsmótmæli vörubílstjóra í stærra samhengi?
Ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2008 | 11:24
Samúð mín með trukkabílstjórum gufaði upp
Í nokkra daga hafði ég dálitla samúð með mótmælum vörubílstjóra en gat náttúrlega trútt um talað því ég þarf ekki að láta loka mig af í bíltík minni í umferðarstöppu og hírast þar undir ærandi flautukór. Ég hugsaði á þá leið að vissulega væru þetta ekki löglegar aðgerðir en uppreisn alþýðunnar í París 1786 hefði ekki heldur verið lögleg en þó varð hún upphafið að sjálfu lýðræðinu.
En svo fóru að renna á mig tvær grímur, ef ekki fleiri. Spurningarnar fóru að hrannast upp: Hver á raunverulega sök á háu eldsneytisverði? Hvers vegna mótmæla því frekar en okri á helstu lífsnauðsynjum? Og við hverju búast bílstjórarnir þegar þeir segjast halda áfram þangað til stjórnvöld fari að kröfum þeirra? Búast þeir virkilega við því að ríkisstjórnin fórni höndum og lækki álagninguna og olíufélögin geri það sem þau gerðu í einn dag, slægju 25 krónum af verði bensínlítrans? Ég trúi því ekki eitt augnablik að þetta gerist. Ég veit ekki heldur hvað bílstjórarnir halda að gerist né hve lengi þeir halda þetta út. Kannski í allt vor og sumar og fram á haust???? Ég veit ekki. Hitt veit ég að þessi mótmæli vörubílstjóra hér norður á Íslandi hafa engin áhrif á þá sem hafa hið raunverulega vald á eldsneytisverðinu..... ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að vöngum frekar yfir því.
Hins vegar fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna lögreglan tekur þessa mótmælendur þeim vettlingatökum sem raunin er og fór að rifja upp aðfarirnar gegn Falun Gong og krökkunum sem flykktust austur á hálendið til þess að mótmæla þeim gríðarlegu landspjöllum sem Kárahnjúkavirkjun er og álvitleysunni á Reyðarfirði sem nú er að koma í ljós að bjargar víst ekki Austurlandi eins og að var stefnt - því miður. Lögreglan hundelti þetta fólk, rak úr landi, sendi mál þess fyrir dómstóla á þeirri forsendu að það hefði brotið gegn grundvallargildum þjóðfélagsins (sem lögreglustjórinn gat alls ekki útskýrt hver væru þegar honum var stillt upp við hlið bresku stúlkunnar sem átti að hafa brotið þessi gildi -- henni vafðist hins vegar ekki tunga um tönn). Kannski bílstjórarnir fái á endanum ákærur vegna brota á þeim grunréttindum borgaranna fá að komast leiðar sinnar á blikkbeljum sínum. Hver veit.
En þegar jeppaeigendur og félagar í 4x4 mættu á ofurjeppum sínum og eigendur fóðurflutningabíla með 300 hestafla vélar blönduðu sér í mótmælin var mér öllum lokið. Þarna voru komnir strákar á leiktækjum sínum og ég get ómögulega haft samúð með þeim. Sjálfur á ég jeppa. En hann eyðir innan við tíu lítrum á 100 km. Ofurjeppaeigendurnir telja slíkar tíkur varla með - en ég er hæstánægður. Og get ómögulega haft samúð með mótmælum þeirra. Stöndum heldur vaktina í verðlagseftirlitinu með Neytendasamtökunum og verkalýðshreyfingunni sem mér sýnist hafa boðað endurnýjun á hugsunarhættinum sem dugði til að drepa verðbólguna á árunum eftir 1990. Snúum bökum við bröskurunum sem voru komnir vel á veg með að koma efnahagslífinu hjá okkur fyrir kattarnef en snúum bökum saman í hagsmunagæslunni fyrir almennt launafólk.
Spörum svo einkabílana í sumar, hjólum, göngum, tökum strætó (en handónýtt strætókerfi þarf að stórbæta)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2008 | 23:34
Svona tala ekki fjármálaráðherrar
"Árni M. Mathisen óttast að svör hans til umboðsmanns alþingis vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar í embætti Héraðsdómara hafi takmarkaða þýðingu, því umboðsmaður hafi mótað sér afstöðu í málinu fyrirfram."
Svona getur fjármálaráðherra landsins ekki leyft sér að tala, kjörinn alþingismaður á Alþingi Íslendinga og ráðherra. Svona tala aðeins hortugir götustrákar sem láta aldrei af skoðunum sínum og telja sig ætíð hafa rétt fyrir sér. En svona talar ekki maður sem vill láta taka mark á sér. Maður sem tekur ekki mark á því sem fagleg matsnefnd um ráðningu dómara, skipuð samkvæmt lögum til þess að gefa faglegt álit sitt, hefur ekkert á Alþingi að gera, hvað þá í ráðherrastól. Betra hefði verið og heiðarlega af ráðherranum að beita sér fyrir því að nefndin yrði lögð niður, rétt eins og ákveðinn fyrrverandi ráðherra, skyldur drengnum sem var gerður að dómara, gerði í öðru tilfelli og ráða hann svo.
Sem dýralæknir hefði hann kannski getað leyft sér að segja: "...staða aðstoðarmanns ráðherra sé að lögum sambærileg við starf skrifstofustjóra í ráðuneyti. Einnig að þrátt fyrir að aldrei hafi reynt á störf Þorsteins sem varamanns í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis hafi Alþingi sýnt Þorsteini þann trúnað og traust að kjósa hann til starfans. Hann eigi auðvelt að greina aðalatriði frá aukaatriðum og hafi tekið virkan þátt í félagsstörfum í gegn um tíðina." En þetta segir ekki ráðherra í ríkisstjórn. Við gerum meiri kröfur til slíkra manna en svo.
Þetta er svo kjánalegt allt saman að maður getur ekki orða bundist svona á síðkvöldi eftir skammt af Auden í meðförum Egils....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2008 | 11:57
Æstar löggur, banaslys og kínverska sendiráðið
Ég lenti í þeirri miður skemmtilegu aðstöðu í gærdag að þurfa að bíða við Álftanesvegamótin meðan lögregla og sjúkralið athöfnuðu sig uppi á Reykjavíkurvegi þar sem kona hafði farist í bílslysi. En ég hafði náttúrlega ekki hugmynd um það þegar ég var á leið úr Nóatúni og hugðist fara mína leið vestur Reykjavíkurveg. Á gatnamótunum tók á móti mér lögreglumaður sem virtist vera gjörsamlega hamslaus af bræði, hann pataði út í loftið og virtist öskra af öllum lífs og sálarkröftum. Í fyrstunni skildi ég ekki hvað var að gerast og stoppaði fyrir aftan næsta bíl, komst ekki framhjá honum, en löggan kom æðandi, ég skrúfaði niður rúðuna og heyrði að hann æpti á mig að halda áfram - halda áfram.....Ég bakkaði og gat mismunað bílnum út í kant, steig út og hrópaði til löggunnar að hann ætti ekki að vera svona grimmilegur eða hvað væri að gerast. Svipurinn mildaðist dálítið og hann sagði að gatan yrði að vera opin fyrir sjúkrabíl sem væri á leiðinni og smám saman fékk ég út úr honum að alvarlegt umferðarslys hefði orðið. Ég sætti mig við þetta og beið á meðan sjúkrabíllinn kom og fór aftur drykklangri stund síðar, væntanlega með þessa ólánssömu konu og ég sá þegar ég kom nær að bíl hennar hafði hreinlega verið sópað upp á miðeyju af stórum jeppa, sem virðist hafa farið allhratt þarna á 50 km. hámarkshraðasvæði, sem fáir taka mark á.
Á meðan ég beið hugleiddi ég í fyrsta lagi ógnvekjandi framkomu löggunnar, sem er ákaflega ungur maður, hvort svona framkoma væri nauðsynleg við þessar aðstæður, og mín eigin viðbrögð; ég snerist þegar í stað til varnar og varð reiður yfir þessari framkomu unga mannsins. Var það vegna þess að við Íslendingar þekkjum ekki her né vopnaða lögreglu og erum yfirleitt óvanir afskiptum löggunnar nema við höfum brotið eitthvað af okkur? Hvað myndi gerast ef valdstjórnin færi að beita sér gegn okkur fyrir alvöru? Myndi ég snúast til varnar ef ég væri á annað borð sannfærður um að aðgerðir mínar væru réttlætanlegar? Þarna er ég náttúrlega að meina mótmælaaðgerðir í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Ég tek það fram að ég er alveg sammála lögreglunni um að hart þurfi að taka á glæponum sem taka sig til og ráðast á lögreglumenn. Það er algjör óhæfa sem dómstólum ber að taka hart á því þessir ungu menn sem eiga meðal annars að kljást við afbrotamenn, sölumenn dauðans og brjálaðar fyllibyttur eiga skilið að samfélagið veiti þeim þá vörn í þessu hættulega starfi sem hægt er.
En þarna eru ákveðin takmörk. Ég var að lesa um mótmæli ungra samfylkingarmanna (sem einu sinni hétu ungkratar) við kínverska sendiráðið. Er það virkilega rétt að stór hópur íslenskra lögreglumanna sé hafður í grennd við sendiráðið og fólk sem leggur leið sína þangað sé spurt um nafn og kennitölu? Er ástæða til að hafa þvílíkan viðbúnað hér í hinni friðsælu Reykjavík? Er ekki nóg að Kaninn sé haldinn móðursýkislegri hræðslu og láti loka Laufásveginum? Er ástæða til að sýna fulltrúum kínverskra stjórnvalda, sem eru þekkt fyrir mannréttindabrot, slíka tillitssemi? Er ekki óþarfi að binda stóran hóp lögreglumanna við að gæta eigna slíkra stjórnvalda á meðan lögreglan er fjársvelt og á erfitt með að halda uppi eðlilegu umferðareftirliti á götum og vegum þar sem hinir einu sönnu íslensku hermdarverkamenn eru á ferðinni? Friðsamt áhugafólk um alþjóðastjórnmál, lýðræði og málfrelsi ætti að geta afhent sín mótmæli í friði fyrir "valdstjórninni", jafnvel hellt rauðri málningu á tröppur.
Og hananú!
Að lokum klipp úr fréttum dagsins á ruv.is. Hvernig skyldi þessi frétt hafa verið lesin? - eða þessi bútur úr þeirri undarlegu frétt að fjárhagsvandi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli var leystur með því að flytja tollarana undir fjármálaráðuneytið - og að Bj. Bj. hafnar því jafnframt að vallarlögreglan eigi við fjárhagsvanda að stríða:
ruv.is skírdag, 20. marsGuðbjörn Guðbjörnsson, formanni tollvarðafélagsins, lýst ekki vel á nýjar hugmyndir og hvernig að þeim var staðið. Algjör óvissa sé um hver verði tollstjóri 1.júlí. Hann segist ennfremur ekki sjá hver sé ávinningur breytingarinnar, hvorki faglegan né fjárhagslegan.
Gaman væri að fá komment á þetta ef einhver nennir að lesa þetta blogg mitt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2008 | 20:28
Málfar sem gengur ekki í RÚV
Ég ætti eiginlega að hafa fyrirgert rétti mínum til þess að halda úti bloggsíðu með því að hafa látið líða á aðra viku án þess að setja inn nýja færslu. Á meðan hafa líklega um tvöhundruð manns litið á síðuna! Ég veit ekki hvernig eða af hverju það gerist en það eru fleiri lesendur en ég hafði ímyndað mér. Það undarlega og stórfurðulega við bloggið er nefnilega að þar skrifar maður fyrir heiminn - allir hafa í rauninni möguleika á aðgangi, á því að lesa það. Hins vegar er afskaplega takmarkaður fjöldi fólks sem hefur tungumálakunnáttu til að lesa það sem hér stendur og enn færri gera það. En semsagt: furðumargir.
Það sem gerði að ég settist niður núna var eiginlega tvennt. Stúlka í sjónvarpinu sem var að kynna væntanlega afhendingu tónlistarverðlauna ársins hafði kallað til sín tónlistarmanninn Múgison og sagði eitthvað á þessa leið: Margir eru ánægðir með hvernig þú ert að lúkka, Múgison. Þarna urðu stúlkunni á tvenn mistök sem hvor um sig ættu að vera brottrekstrarsök frá RÚV. Ég læt fólk um að átta sig á hvað ég er að fara.
Hitt er þessi frétt af ruv.is. Ég heyrði ekki fréttir í kvöld en skilur einhver þetta? Ég hef hugsað mér að benda Aðalstein Davíðssyni málfarsráðunaut á þessi ósköp:
Gengið réttara en um langa hríð
Gengi íslensku krónunnar er nær því að vera rétt skráð nú, en verið hefur um langa hríð, að mati Sveins Hjartar Hjartarsonar hagfræðings Landsambands íslenskra útvegsmanna. Tekjur sjávarútvegsins aukast um 25 milljarða við breytingar á genginu og vega upp niðurskurð á þorskkvótanum.
Íslenskur sjávarútvegur hefur orðið af 15-20 milljarða króna tekjum árlega síðustu árin vegna þess að gengi krónunnar hefur ekki verið rétt skráð segja útvegsmenn.
Eðlilegt sé að gengisvísitala krónunnar sé á bilinu 135-140 stig. Þótt gengisvísitalan sé ívíð hærri nú eða tæp 160 stig gengi krónunnar lægra það er, sé sú staða nær lagi en verið hafi í langan tíma. Sveinn Haukur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, segir gengislækkun krónunnar ekki eiga að koma neinum á óvart. Gengið hafi verið allt of hátt skráð. Leiðréttingin sé tímabær.
Sveinn Hjörtur telur raunhæft að ætla að sjávarútvegurinn nái sömu tekjum og á síðasta ári eða 128 milljörðum króna vegna gengisþróunarinnar. Gengisvísitala í tæpum 160 stigum sé nær lagi en þegar krónan var sterk og vísitalan um og yfir 100 stig um skeið.
Í þriðju málsgrein fer eitthvað verulega úrskeiðis. Öll merking hverfur út í buskann og blm. fer að skrifa í viðtengingarhætti án sýnilegrar ástæðu. En þessi viðtengingarháttarskrif hafa færst mjög í vöxt og eru látin koma í stað beinnar ræðu - þ.e. blm. umsnýr beinni ræðu í óbeina á þann hátt. Ég tók raunar fyrst eftir þessu í fréttatímum útvarps hjá einum af þaulreyndustu fréttamönnunum. Þessi stíll gengur alls ekki; sem skattgreiðandi, dyggur útvarpshlustandi og gamall blaðamaður mótmæli ég þvílíku og öðru eins.
Ef mér tekst að fella blogg-skrif inn í daglega rútínu mína (sem er þó frekar órútína) má eiga von á fleiri pistlum sem þessum. Af dæmum á ég nóg.
En læt þetta duga í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)