Færsluflokkur: Bloggar

50 Hafnfirskir listamenn

Á 100 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar tölti ég undir marssólinni niður í Hafnarborg og var viðstaddur opnun á sýningu á verkum 50 hafnfirskra listamanna,  í tilefni af téðu afmæli og aldarfjórðungsafmæli listamiðstöðvarinnar sem apótekarinn Sverrir gaf bænum á sínum tíma. Þar var nánast fullt hús en samt sem áður leit Strandgata þannig út um þrjúleytið þegar ég rölti niðureftir:

SNC10300

Var þessi mynd tekin á aðalgötu bæjar þar sem íbúar eru um 25 þúsund? Já, það er víst. Hvar voru þá íbúarnir? Í Smáralindinni?

En það reyndist vera dálítið mannlíf í þessum bæ þrátt fyrir allt. Í Hafnarborg tók ég þessa mynd:

SNC10305

Þarna eru tveir fimmtugustu af listamönnunum, Góa systir og ýmsir fleiri. Sýningaropnunin var vel heppnuð, hvítvínið ágætt. Sem betur fer breytti Pétrún  opnunarsiðunum og hætti að hafa opnanir klukkan fimm á fimmtudögum. Þann tíma sem sá siður var hafður komu fáir af hinum föstu  opnunargestum en nú eru þeir farnir að sjást aftur. Þar á meðal mín ágæta vinkona, nú bloggvinkona, Heidi Strand, listakona frá Þrándheimi, og bloggvinurinn Kristbergur úr Hafnarfirði, listmálari og öðlingur. Já, og Adda og Teddi frá Bolungarvík og Siglufirði, vinir frá Noregstíma.

Eins og sést á efri myndinni skein marssólin í dag og við vitum að héðan af hækkar hún á lofti dag frá degi. Þess vegna eigum við að vera bjartsýn en ég get samt ekki að því gert að mér finnst eitthvað að hér í Hafnarfirði. Ég lyfti glasi og kinkaði kolli til Lúðvíks bæjarstjóra en mér fannst hann taka heldur dræmt undir kveðju mína. Getur verið að hann sé svekktur vegna greinarinnar sem ég skrifaði í Moggann um skipulagsslys í Hafnarfirði? Ef hann er það er enn dálítil von. En ef ekki.... Enginn sem ég tala við mælir Norðurbakkaslysinu bót. Og það verður ekki aftur tekið. Líklega telst ég vera óvildarmaður Hafnarfjarðar rétt eins og menntamálaráðherrann telur mig óvildarmann Ríkisútvarpsins vegna þess að ég hef gagnrýnt ýmislegt sem þar hefur verið gert, í nafni Hollvinasamtakanna. Það var rifjað upp í útiskýli Suðurbæjarlaugar í morgun og sá sem það gerði spurði hvaða hugmyndir ráðherrann gerði sér um lýðræðið þegar (hún) telur þann sem hefur aðrar hugmyndir um Ríkisútvarpið en (hún) sjálf sé þess vegna óvildarmaður útvarpsins! Ein skoðun er rétt, hin eina rétta skoðun!

Það er náttúrlega mjög gott að hafa alltaf rétt fyrir sér!

 En hvað ætlaði ég nú að segja? Hún yngri dóttir mín, hún Vala, skrifaði athugasemd við blogg mitt á þá leið að þessi köttur, Hallormur, væri eilífur. Hver er Hallormur? Hann var stór partur af lífi mínu. Hann var köttur sem ég fórnaði fyrir frelsi mitt eftir 15 ára sambúð. Um hann skrifaði ég eitt sinn sögu og las í útvarpið. Hann tengir saman tvö fyrri tilverustig mín og kemur kannski við sögu síðar.

Sem stendur er þetta tilvera mín:

SNC10302

Nú er nóg bloggað í bili, líklega of mikið, persónulegra en ég ætlaði. Næst: Um blaðamennsku, lífið og tilveruna. Eða allt þetta í senn.


Mozart er æði!

Já, ekki bara Mozart heldur líka þær stöllur Arndís Halla Ásgeirsdóttir sópran og Antonía Hevesi píanóleikari. Þær voru frábærar í Hafnarborg í Hafnarfirði í hádeginu í dag.

Á leiðinni heim eftir tónleikana, í sæluvímu og hundslappadrífu, hugsaði ég með mér að fyrst ég væri byrjaður að blogga skyldi ég hafa þetta fyrir frétt dagsins í mínu litla og heldur friðsæla lífi og fór að hugleiða breytta tíma: Nú væri ég kominn með minn eigin miðil þar sem ég væri eigandi, fréttastjóri og blaðamaður (verð að muna eftir að rausa svolítið um það alltsaman og rifja upp það sem Jónas Kristjánsson sagði um daginn). Áður fyrr hafði ég atvinnu af fréttamennsku en nú ræð ég semsagt yfir mínum eigin miðli, ræð sjálfur hvað er frétt og hvað er ekki frétt. En í dag gekk ég raunar beint inn í frétt sem mér hefði þótt fengur í þegar ég annaðist lögreglufréttir á Fréttastofu Útvarps: Ég ætlaði í bakaríið í Firðinum á heimleiðinni og rak þá augun í sjónvarpsmenn og spurði nærstadda hvað væri að gerast. Jú, það hafði verið framið bankarán í Kaupþingi-banka en ræninginn fékk samviskubit og sneri aftur með fenginn, sem var ekki mikill, en gekk þá beint í flasið á löggunni. Vonandi bjargast hann frá glapstigum sínum. Þetta held ég að gæti hvergi gerst nema á Íslandi - og líklega í Færeyjum. Svo yndislega sveitalegt í bestu merkingu þess orðs! Ekkert vesen, enginn terrorismi, bara afslappað, huggulegt, misheppnað bankarán. En hvers vegna þurftu starfsmennirnir áfallahjálp? Ég skil það nú ekki.

En ég var semsé að koma af Mozart-tónleikum og var afskaplega hrifinn af söngkonunni, sem gerði sér lítið fyrir og flutti sem aukalag sjálfa  Næturdrottninguna. Ég er svosem enginn óperusérfræðingur en efast ekki um að þetta hafi verið gríðarlega flott, í það minnsta táraðist ég þegar hún Arndís gaf allt í botn á kristaltærum háu nótunum! Og hún Antónía, sem ég held að sé frá Ungverjalandi, kynnti lögin á frábærri íslensku (hefur verið hér frá 1992); það voru lifandi og fræðandi frásagnir. Þær voru góðar saman. Takk fyrir, stúlkur!

Af fréttum dagsins finnst mér athyglisverðust niðurstaða vísindamanna sem hafa verið við rannsóknir við Mývatn og sýnt fram á að kísilgúrverksmiðjan hafi eyðilagt silungastofninn í vatninu og líklega verði ekki unnt að bjarga honum. Margir vöruðu við þessu en Mývetningar eru stoltir og láta ekki segja sér fyrir verkum. Í þessu samhengi er líka athyglisverð fréttin um að lífríkið fyrir neðan stóru stífluna í Grand Canyon sé að deyja vegna þess að set berst ekki niður fyrir hana; þess vegna hleypa þeir núna nokkrum milljónum sekúndulítra framhjá til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Hvað með Lagarfljót og hin náttúrulegu áhrif setsins í Héraðsflóa? Hvenær ætla menn að vitkast og hætta þessu fikti við náttúruna? Líklega seint. En fiktið hefnir sín alltaf að lokum. Leyfið líka kúnum á Egilsstöðum að hafa sína hentisemi! Og kennarar þar eystra: Notið tækifærið til þess að ganga úr skugga um að öll börn á Héraði kunni að beygja orðið kýr!

Önnur athyglisverð frétt var í Útvarpinu og um hana fjallað í þeim ágæta þætti Speglinum: Læknar hafa sýnt fram á að atvinnuleysi eykur tíðni dauðsfalla af hjarta- og æðasjúkdómum. Í okkar þjóðfélagi stafar atvinnuleysi eigi ósjaldan af uppsögnum vegna hagræðingar, sameiningar fyrirtækja og sparnaðar, sem hægrimenn telja óumflýjanlegan þátt í atvinnurekstri. En sú hugsun gengur út frá því að heill fyrirtækisins gangi fyrir öllu og einstaklingunum sé fórnandi fyrir hana. Þetta leiðir hugann almennt að því hvort sé mikilvægara fólkið í byggðunum vítt og breitt um landið eða hluthafarnir sem sitja heima og bíða eftir ávöxtunum af sínu pundi.

Svo er best að gerast persónulegur að lokum, þvert á öll fyrirheit því ég stenst ekki að minnast á marssólina sem hefur lífgað upp á sálartetrið í dag og gær og gefið fyrirheit um að nú stefnir allt í eina átt, til vors og sumars. Þeir lofa norðanátt næstu daga og hún er alltaf góð hér í Hafnarfirði, ekkisíst hér vesturundir hraunkantinum. Alltaf logn í norðanátt! Og nóvemberkaktusinn minn er kominn með knúppa í þriðja sinn þennan veturinn! Lífið gengur sinn gang og vel það.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband