Færsluflokkur: Bloggar

Opið bréf til málfarsráðunautar

Ég sendi stundum Aðalsteini Davíðssyni, málfarasráðunaut Ríkisútvarpsins, línu um eitt og annað sem ber fyrir eyru mín í þeim ágæta miðli. Því miður fer of mikið af klúðri í loftið - og á vef RÚV. Aðalsteinn hefur tekið ábendingum mínum, eins og margra annarra, sjálfsagt, með þökkum og hefur þann ágæta ávana að svara ætíð bréfum mínum. Það merkir vitanlega að hann fær fleiri ábendingar, sem hann segir að hjálpi sér í baráttunni innanhúss.

Hér sendi ég eina frétt með furúlegum málfarslegum villum og eina dagskrárkynningu sem ég fann fyrir tilviljun og að auki fáein dæmi um leiðindafyrirbæri í ensku sem nefnt er "glutter" í ágætri bók sem ég keypti í Washington fyrir margt löngu og sýnir að ýmsar málfarsvillur eru ekki bundnar við eitt tungumál.

Hvað finnst mönnum um þetta?

Rvík: Slys í slippnum

Maður brenndist nokkuð við vinnu í slipp Stálsmiðjunnar við Mýrargötu í Reykjavík rétt fyrir klukkan sex í kvöld. Iðnaðarmenn voru að gera gat á skipsbotn með brennara en fyrir slysni kveiknaði í olíu og við það kom mikill blossi framan í manninn. Hann var vel búinn en brenndist. Hann var fluttur á sjúkrahús.
....var ekki eldur í þessum blossa?
Þessa dagskrárkynningu fann ég líka þegar ég leitaði að kveiknaði:
06.02.2008
Atli, Finnur, Hilmar og DJ Platurn
Atli Örvarsson tónskáld í Los Angeles segir frá tónlist sem hann hefur verið að vinna að síðustu þrjá mánuði við myndina Babylon A.D með kappanum Vin Diesel, Andrea hittir fyrir kvikmyndagerðarkonu sem er að gera heimildarmynd um plötusnúðinn DJ Platurn, sem hefur getið sér gott orð í Bandaríkjunum. Ásgrímur fjallar um indverska mynd um ofbeldi gegn konum og hvernig hugmyndin að myndinni kveiknaði og Elsa María hittir fyrir Finn Arnar leikmyndahönnuð og Hilmar Jónsson leikstjóra, í tilefni af nýjustu sýningu Hafnarfjarðarleikhússins á Höllu og Kára, eftir Hávar Sigurjónsson. 
Það verður farið milli ólíkra heima í þættinum í kvöld, Hafnarfjarðarleikhúsið, Hollywood og indversk bíómynd sem varð til í Kópavoginum.
Svo lofaði ég að senda þér dæmi um "flækjumálfar" í ensku og tek fáein dæmi úr bók sem heitir On writing well eftir William Zinsser, sem var háskólakennari í ensku í Yale þegar bókin kom út, 1988. Niðurstaða mín eftir að hafa lesið bókina (fyrir margt löngu) er sú að margt af því sama hrjáir íslenska tungu og þessum höfundi finnst hrjá enska tungu - vandamálin eru sameiginleg, þvert á tungumál! Zinsser helgar einn kafla því sem hann nefnir clutter og ég hef þýtt með hröngl, orðahröngl. Höfundurinn líkir baráttunni við orðahrönglið  við barátttuna við illgresi, ný afbrigði skjóti rótum að nóttu og um miðjan dag sé það orðið hluti af amerískri orðræðu. John Dean sem var einn af ráðgjöfum Nixons forseta segir hann að hann hafi sett nýtt met í þessu þegar hann notaði eitt sinn í þeim frægu Watergate-yfirheyrslum orðalagið "at this point of time" þar sem "now" hefði dugað hreint ágætlega. Kannast ekki einhver við "á þessum tímapunkti"? Á ensku er þetta 400% orðabólga en þó ekki nema 300% orðabólga á  íslensku!
Raunar segir hann að fólk hafi verið mikið til hætt að nota now áður en Dean vann sitt afrek: At present time, currently, presently hafði þegar leyst orðið nokkru að leyti af hólmi. Og hann fullyrðir að tannlæknir myndi spyrja sjúkling hvort hann "is experiencing any pain" en börnin sín eftir sem áður "does it hurt?" Hvernig mætti yfirfæra þetta á íslensku?

Ég sagði þetta alltaf!

  

Síðustu kvöldin hafa verið dálítið undarleg og skrítin, í það minnsta óvenjuleg; hjá mér hafa þau liðið í meiri rólegheitum en ég á að venjast þótt flest kvöld í mínu lífi séu fremur róleg. En þetta hafa verið meiri rólegheit en ég hef átt að venjast um langt skeið, hugsanlega frá því hætt var að gefa Ríkissjónvarpinu frí í júlímánuði fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna. Já, munurinn á undanförnum kvöldum er sá að ég hef ekki kveikt á sjónvarpinu fyrr en í fyrsta lagi rétt fyrir klukkan tíu.

Í fyrstunni hélt ég að ég væri óánægður með að Sjónvarpið sýnir um þessar mundir óáhugaverðan fótbolta allt kvöldið, á besta sýningartíma, endalausa leiki, upphitun og samantekt og hefur gefið Kastljósi hálfsmánaðar frí. En smám saman komst ég að þessari niðurstöðu: Aðalfréttatími Sjónvarpsins ætti ekki að vera fyrr en klukkan tíu. Kannski klukkan níu. Raunar er ég ekki viss um hvort ég held uppteknum hætti eftir HM og sest við kassann klukkan sjö til þess að horfa á sjónvarpsfréttir. Eða klukkan tíu; þó frekar það. Ég get vel verið án þeirra – og Kastljóss. Sjónvarpsleysið í kvöld þýddi meðal annars að ég heyrði frábæra kvöldstund með bassasöngvaranum Poul Robeson sem ég hefði líklega misst af ella. Eða hvað?

Ég hef hins vegar haldið þeirri venju minni að hlusta á Útvarpsfréttir klukkan 18 – og Spegilinn sem hefst að þeim loknum, eitthvert besta og snarpasta útvarpsefnið sem sent er út á landi hér. Í framhaldi af Spegli kvöldsins fór ég að hugleiða að svo virðist sem ég hafi haft aldeilis rétt fyrir mér í tveimur mikilsverðum málum síðustu missera:

Ég var einn þeirra sem tóku mark á fréttamönnum og öðrum sem fullyrtu að innrásin í Írak væri byggð á falsrökum og var jafnframt einn þeirra sem báðust afsökunar á afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli í auglýsingu í bandaríska stórblaðinu New York Times. Ég minnist þess að íslenskir ráðherrar sögðu með fyrirlitningartóni að þetta væri tómur rógburður, engin ástæða væri til að taka mark á þessum óstaðfesta orðrómi. Þarf ég að nefna nöfn? Þarf ég að segja: Valgerður, þarf ég að segja Halldór eða Davíð eða Björn? Einn íslenskur fyrrum stjórnmálamaður hefur haft kjark til að viðurkenna að hann hafi látið blekkjast: Jón Baldvin Hannibalsson. Hann er maður að meiri. Nú held ég að allir skynsamir menn viðurkenni að Bush fari frá völdum næsta vetur rúinn trausti og hvílíkt fífl hann er. Ég get ekki kallað hann annað. Ekkert hefur áunnist með innrásinni, þvert á móti hefur ástandi versnað og það fjarar hratt undan bandaríska stórveldinu.

Og í kvöld kom enn ein staðfestingin á þessu: Fálmandi, hikandi og hálfstamandi Bush reynir að deila við dómarann og hótar að breyta þeim lögum sem hæstiréttur vísar til í dómi sínum um að Kvantanamó-fangelsið sé ólöglegt - andstætt því sem á að tíðkast í réttarríki. Vonandi nær Obama kjöri í haust og tekst að bjarga því sem bjargað verður - hæfileg vinstrihugsun er hið eina sem dugir til þess að rétta kolrangan kúrs Bandaríkjamanna.

 

Ég vissi líka mætavel að hin svonefnda útrás íslenskra fjárglæframanna myndi fara illa. Hlutabréfaverð gat ekki hækkað endalaust, það hlaut að ná hámarki og hrapa aftur. Enda fór svo. Það sem verra er: Hinir íslensku fjárglæframenn sem höfðu ekki hemil á sér heldur héldu áfram og áfram og áfram hlutu illt orðspor, og Íslendingar almennt í leiðinni.

Ekki ætla ég að kenna þeim alfarið um hvernig fór. Þar hafa náttúrlega mikil áhrif líka afleiðingar þess að fleiri fjárglæframenn en íslenskir hafa spilað rassinn úr buxunum og ekki bera þeir beint ábyrgð á hækkun olíuverðs. En óbeint. Allt þetta ber nefnilega að sama brunni: Alheims nýfrjálshyggjan er farin að sýna sitt rétta andlit, frelsi hinna ríku, einstaklingshyggja hinum ríku til handa. Við, almenningur, venjulegt fólk sem vinnum fyrir okkar daglega brauði í sveita okkar andlitis megum eiga okkur. Frelsið er ekki fyrir okkur. Vonandi fá hannesar heimsins verðuga ráðningu, vonandi ná skynsamir menn yfirhendinni.


Grunnhygginn og illa upplýstur bæjarstjóri fyrir vestan

ÉG er dálítið undrandi á starfsmönnum fyrrum vinnustaðar míns, Fréttastofu Útvarps. Þeir hafa útvarpað furðulegum ummælum bæjarstjóra nokkurs fyrir vestan í það minnsta tvisvar þar sem hann heldur því fram blákalt að engin ástæða sé til að ætla að olíuhreinsistöð í landi Hvestu í Arnarfirði fái ekki að menga eins og hver vill því Kyoto-samningurinn verði útrunninn þegar hún taki til starfa!

Annað hvort eru þetta orð grunnhyggins manns eða furðu hrokafulls og bíræfins. Eins og Árni Finnsson náttúruverndarmaður hefur sagt tekur að sjálfsögðu við nýr samningur um takmörkun á útblæstri verksmiðja þegar Kyoto-samningnum sleppir og þar verður útblástur vafalaust ekki tekinn linari tökum en nú er gert, sjálfsagt margfalt fastari. Eða býst bæjarstjórinn við að umræðan um heimshlýnun muni fjara út og menn halda áfram að sleppa ómældum koltvísýringi út í andrúmsloftið? Eða býst hann við að í ljós komi á næstunni að þetta með heimshlýnun af mannavöldum sé eintóm vitleysa eins og Hannes Hólmsteinn segir?

Annað er að maðurinn virðist ekki hafa grundvallarhugtök í þessum efnum á valdi sínu. Hann segir að menn séu að tala um mengun en koltvísýringur sé ekki mengun - mengun sé það sem fái fólk til þess að hósta. Svo fór hann að þrugla eins og barn um að engin rök séu færð gegn olíuhreinsistöðinni, menn segi bara afþvíbara....! Á morgunvakt Rásar 1 í morgun komst hann upp með þvílíkan kjaftavaðal að mér finnst ástæða til að gera alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð að sleppa þessu út á öldur ljósvakans án þess að gera minnstu tilraun til þess að fá manninn til að skýra mál sitt betur en með þessum furðulegu fullyrðingum. Hann komst upp með að fullyrða að allt tal um mengunarhættu frá olíuhreinsistöð sé vitleysa, engin mengun komi frá verksmiðjum sem þessari!!! Heyr á endemi. Það þarf ekki annað en einn skipsskaða og ein af bestu fiskimiðum heimsins og fagrar fjörur verða í stórhættu.

Og hvers konar fyrirtæki er þetta sem vill reisa þessa verksmiðju? Það fæst ekki upp gefið sem bendir til að þar sé eitthvað málum blandið! Vilja Íslendingar fá hingað fyrirtæki sem er undir hælnum á Pútín?

 Að lokum um þetta í bili: Heldur bæjarstjórinn að 500 Vestfirðingar muni ráða sig í vinnu í þessari verksmiðju og aka daglega í Arnarfjörðinn hver frá sínu heimili, kannski nokkur hundruð kílómetra? Eða verða reistar vinnubúðir í Arnarfirði? Verða það kannski Pólverjar eða Lettar eða einhverra annarra þjóða menn sem ráða sig til vinnu þarna, með allri virðingu fyrir því fólki? Heldur bæjarstjórinn virkilega að þessi stöð muni leysa vanda Vestfirðinga? Hefur hann ekki fylgst með árangri því hvaða árangur það hefur borið fyrir Austfirðinga að álver var reist við Reyðarfjörð? Kannski verður það þó atvinnuskapandi fyrir fræðimenn hjá Fræðasetrinu á Ísafirði að rannsaka þau félagslegu vandamál sem eiga eftir að skapast þegar 500 manns hreiðra um sig í Arnarfirði - flest útlendingar - jafnvel þótt það yrðu Íslendingar.

Tölum ekki um eyðileggingu á fögrum firði. Ekki að sinni.


Hafnarfjörður 100 ára

Við Hafnfirðingar óskum okkur til hamingju með daginn. Kaupstaður i eina öld!

Í upphafi bloggtíðar minnar setti ég inn mynd sem tekin var á Strandgötu, aðalgötu bæjarins, á laugardegi. Þar sést ekki sála á ferð. Nú er enn laugardagur en aldarafmæli kaupstaðarins og gatan troðfull af fólki. Það væri kannski heldur mikið ef þetta væri hið  venjulega - en svona helmingi færra fólk á Strandgötu á venjulegum laugardagseftirmiðdegi væri svona takk bærilegt! Skyldi það verða þegar blokkirnar á Norðurbakkanum eru verða allar setnar fólki, þegar allar íbúðirnar í öllum hinum nýju húsunum sem eru í byggingu, öllum húsunum sem hafa staðið að hluta til auð í nokkur ár hafa loksins selst?

Við vonum það. En einhvern veginn efast ég. Fólk er allt of upptekið af því að komast auðveldlega í smárakringlulindirnar.

Að lokum vil ég láta þess getið að tölvan fraus nokkrum sinnum á meðan ég var að setja þessar myndir inn og ég hélt að það hefði mistekist svo ég reyndi aftur en sá þá að inn fóru tvö eintök af annarri myndinni! Það gengur bara betur næst. Þó er það ekki víst - ég reyndi nefnilega að henda annarri myndinni út en fann ekki aðferðina til þess!


Er of seint um rassinn gripið?

Ég hvet alla til að lesa pistil Jóns Axels Harðarsonar Íslenskt mál í Morgunblaði dagsins. Þar rekur hann á fræðilegan hátt þá málbreytingu sem kennd er við ásókn nafnháttar í stað einfaldrar nútíðar eða þátíðar. Þetta telur hann að muni útrýma sagnbeygingum úr íslensku, nema sögninni að vera, sem allir virðast vera mjög leiknir í að beygja! Þetta þýðir einfaldlega að gríðarleg kerfisbreyting á tungumálinu er að ganga yfir og fáir virðast telja að ástæða sé til að hamla gegn því.

Fyrir þremur og hálfu ári eða svo sendi ég eftirfarandi grein í Morgunblaðið og taldi þá að mikil vá væri fyrir dyrum. Greinina endurbirti ég hér:

Andlát sagnbeyginga í íslensku
Ég brá mér á málþing í Kennaraháskóla Íslands á miðvikudaginn var, degi íslenskrar tungu. Þar töluðu þeir vísu menn Haraldur Bernharðsson, málfræðingur við Hugvísindastofnun, Sigurður Konráðsson, prófessor við nefndan skóla, og Gauti Kristmannsson, þýðingafræðingur og aðjunkt við HÍ. og sögðu margt athyglisvert. Það olli mér þó vonbrigðum hve fáir mættu til þessa málþings.
Haraldur sýndi meðal annars fram á að málið breytist sífellt, oftast til einföldunar. Með döprum huga varð ég að viðurkenna að líklega væri vonlaust að berjast gegn setningum eins og til að mynda: „Maðurinn sat með bók í hönd“ þar sem rétt beyging þess orðs væri flestum of erfið. Og all athyglisverð þótti mér sú staðhæfing hans að í rauninni væri ekkert til sem héti „gullaldarmál“, hver tími hefði sitt málfar og fólk hefði jafnvel talað „vitlaust“ á tímum Egils Skallagrímssonar rétt eins og nú. Það rifjaðist upp fyrir mér að árið 1944 skrifaði Hallbjörn Halldórsson prentari bók sem hann nefndi „Lýðveldishugvekja um íslenzkt mál“ og gaf út á eigin kostnað. Þar er fjallað um það hvað íslenskunni hafði hrakað mjög frá því fyrir heimsstyrjöldina fyrri.
Hins vegar varð ég forviða þegar Gauti brá upp á tjald tveimur textum, sem ég skildi hvorugan en áttu þó báðir að vera á íslensku. Þetta var frásögn tölvumanns, annars vegar á „hreinni“ íslensku, samkvæmt íðorðasafni, hins vegar á „ísl–ensku“, sem ku vera samskiptamál tölvukarla. Þar skildi ég ekki bofs. Mér var brugðið.
Athyglisverðust fannst mér þó vera frásögn Gauta af því að þegar hann kom heim frá dvöl í útlöndum fyrir fimm árum uppgötvaði hann að stórbreyting hafði orðið á málnotkun Íslendinga. Fólk var farið að tala í nafnhætti. Hann sagði að það hefði verið rétt eins og að fá blauta tusku í andlitið. Þar var komið það sem ég hafði í raun og veru vonast til að menn nefndu á þessu málþingi, ekki síst vegna þess að það var haldið í iðrum íslenskrar kennaramenntunar.
Doktor Svanhildur Óskarsdóttir nefndi þetta fyrirbæri fyrst manna svo ég viti í Málfarsmínútunni heitinni í Spegli Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum árum. Það er í stuttu máli þannig að fólk beygir sögnina „að vera“ eftir öllum kúnstarinnar reglum en hafa allar aðrar sagnir í nafnhætti. Dæmi: „Hvað erum við að borga nú þegar?“ (Kristján Kristjánsson í Kastljósi 17. nóv.) – en hann tók sig reyndar á og bætti við: „Hvað borgum við?“. Þetta var í viðtali við Geir H. Haarde utanríkisráðherra, sem sagði meðal annars að mikilvægt væri að leysa þetta mál með Bandaríkjamenn og Keflavíkurflugvöll „...fyrir þá sem eru að vinna á þessu svæði“. Þetta er ein útgáfan, "eru að" er skotið inn í setninguna að óþörfu; einfaldast er að segja: „...fyrir þá sem vinna á þessu svæði.“ Eða hvað?
Að erindunum loknum voru leyfðar spurningar og umræður og ég leyfði mér að spyrja fræðingana að því hvort ekki væri ástæða til að óttast að þessi málnotkun ylli óbætanlegu tjóni á íslenskri tungu þar sem hún myndi útrýma öllum sagnbeygingum nema á sögninni að vera. Íslenskufræðingarnir tveir kváðu nei við því. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, hafði talið að fræðimenn væru að velta fyrir sér hvernig væri unnt að bregðast við þessum fjára (þarna á þetta rétt á sér, menn eru að velta þessu fyrir sér núna) og benti á að þetta væri ekkert „undirstéttamál“ heldur orðfæri allra, jafnvel þeirra allra menntuðustu: ráðherra, alþingismanna, prófessora og bankastjóra jafnt sem iðnaðarmanna, verslunarmanna og verkamanna. Eftir málþingið heyrði ég að ýmsir viðstaddir reyndust vera á sama máli og ég þótt þeir hefðu ekki blandað sér í umræðuna.
Íslenskan er sagnamál. Hvað verður þá um hana ef menn hætta að beygja sagnirnar? Ég veit að doktorsnemi nokkur er að rannsaka þetta fyrirbæri og vona að einhvern tíma fái íslenskir málnotendur að lesa ritgerðina hans. En vonandi verða sagnbeygingar í íslensku ekki alveg dauðar þegar loksins kemur að þeirri doktorsvörn og vonandi vakna íslenskukennarar í musteri íslenskrar kennaramenntunar til vitundar um hættuna áður en það verður um seinan og taka að leggja á ráðin um hvernig íslenskum sagnbeygingum verður forðað frá bráðum bana.

Síðan þetta var skrifað hefur ekkert gerst annað en þessi málbreyting hefur orðið æ útbreiddari og einkennir nú málfar flestallra sem taka til máls opinberlega - og væntanlega prívat líka. Ég hef vanið mig á þann (ó)sið að hripa hjá mér "málblóm" sem ég heyri í fjölmiðlum eða sé í blöðum, hvort sem það eru hreinar málvillur eða  klúðurslegt orðafar.

Hér eru örfá dæmi um orðalag sem  fellur í þennan flokk málbreytinga:

Það er nauðsynlegt að hafa tök á ástandinu – það erum við ekki að hafa núna!

Steingrímur Sigfússon í Vikulokum 15. mars.

 

Frú menntamálaráðaherra á hlaupársdag 2008:

Við erum að fá atvinnulífið með okkur (til þess að fjármagna iðnskólann)

 

Rás 1 21.feb. 2008 kl. 09:20 Við erum kannski að eyða helmingi af vökutíma okkar í vinnu.

..........og svo þessa nýja veruleika (spyrillinn)

Það er kannski ekki mikið af ungu fólki sem er að sækja sér símenntunar.....Við skulum láta þessa visku setjast aðeins til í höfðunum á okkur.... (hér fær fleira að fljóta með) 

Verið að útskýra einhverja sérstaka beitu: Þessi pokabeita er að veiða ýsu.... 

Alþingismaður:Við höfum einstaklinga sem eru ítrekað að brjóta af sér. 

Lögmaður: Við erum ekki að standa okkur.Þetta eru úrræði sem eru að virka. 

Þetta læt ég nægja að sinni en varpa því út til lesenda (ef einhverjir nenna enn að líta inn hjá mér!) hvort þeim finnist í lagi að láta þetta ganga yfir eða að ástæða sé til að sporna við fótum. Almennt álit íslenskufræðinga virðist vera að þeirra sé að fylgjast með málbreytingunum, skilreina þær og skýra okkur frá þeim, ekki gera eitthvað í málinu. Ég vil að eitthvað sé gert í málinu, vil að hraustlega verði tekið til hendi við að bjarga því áður en sagnbeygingar hverfa gjörsamlega - fyrir nú utan allt annað sem hrjáir málfar allt, allt of margra sem tala og skrifa opinberlega - og allt of margra sem eru með fastráðningarbréf hjá þeirri stofnun sem ætti að vera flaggskip tungunnar, RÚV!

 


Gætið að beygingunum, Mbl.is-menn!

"Einni nashyrningskýrinni var ekkert um myndavélina gefið, réðist á hana og braut hana."

 Hvað er rangt við þetta? Beygingin er svona: kýr-kú-kú-kýr. Þótt þetta sé sjaldséð nashyrningskýr var nashyrningskúnni altént illa við myndavélina og braut hana.


Réttur þroski - og rangur

Ég er svolítið hugsi yfir viðtalinu við verðandi aðalritstjóra Morgunblaðsins, Ólaf Þórisson Stephensen, sem brátt tekur við af Styrmi Gunnarssyni. Í þeim hluta þess þar sem fjallað er um uppruna hans, uppvöxt og æviferil er náttúrlega ekki dregin dul á tengslin við Sjálfstæðisflokkinn og Heimdall og látið í það skína að erfitt hafi verið að ræða við hann um stjórnmál á þeim árum (líklega vegna rökfestu hans og sannfæringar um málstaðinn); enda hafi fáir lagt út í það nema Illugi Gunnarsson og Baltasar Kormákur, sem voru báðir vinstrisinnaðir þá en eru orðnir góðir og gegnir sjálfstæðismenn nú. Látum það vera. En svo koma þessi orðaskipti: "- Þú hefur snúið þeim báðum? "Ekki ætla ég nú að halda því fram. En þeir hafa þroskazt til réttrar áttar!"

Eflaust er þetta meint af Ólafs hálfu sem kaldhæðnislegt spaug. En hann meinar þetta nú samt! Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort verðandi aðalritstjóri elsta, virðulegasta og líklega traustasta dagblaðs landsins getur leyft sér slíkt í þessu samhengi. Við munum öll eftir oft á tíðum óvarlegum yfirlýsingum fyrrum forsætisráðherra, sem svaraði þegar hann var gagnrýndur fyrir glannalegar yfirlýsingar að hér á landi væri málfrelsi, sem hann mætti nýta sér eins og aðrir. En málið er að forsætisráðherra getur ekki leyft sér að tala eins og götustrákur og bráðum aðalritstjóri Morgunblaðsins getur ekki leyft sér ummæli sem hvaða annar heimdellingur sem er getur vel leyft sér. Ritstjóri Morgunblaðsins er ekki eins og hver annar heimdellingur.

Ef verðandi aðalritstjóri Morgunblaðsins getur leyft sér að tala eins og hver annar stuttbuxnapiltur og dregið þroska pólitískra andstæðinga sinna í efa án þess að menn kippi sér upp við það vil ég fyrir mitt leyti draga í efa trúverðugleika þeirrar stefnu morgunblaðsmanna að blaðið sé ekki málgagn Sjálfstæðisflokksins, þó vissulega borgaralegt blað, en fyrst og fremst blað þar sem sé rekin óvilhöll, heiðarleg, jafnvel gagnrýnin blaðamennska, og hlutverk blaðsins sé fyrst og fremst að standa vörð um lýðræðið, og hag almennings. Opið öllum skoðunum, blað þar sem öllum skoðunum er gert jafnhátt undir höfði.

Auðvitað er það rétt að Illugi og Baltasar hafa þroskast frá því þeir voru í Hagaskólanum. En er það eitthvað réttara en annað að þroskast frá hugmyndum þeirra sem lögðu á sínum tíma grundvöllinn að velferðarríki nútímans til hugmynda þeirra sem leggja megináherslu á þrönga eiginhagsmuni peningahyggjunnar og eru að ríða efnahag hins vestræna heims á slig einmitt um þessar mundir?

Þetta er ekki góð byrjun hjá hinum væntanlega aðalritstjóra. Eða meinar hann kannski ekki það sem hann segir? Eru skoðanir vinstrimanna að hans mati jafngildar skoðunum hægrimanna þrátt fyrir þessi orð eða gerir væntanlegur aðalritstjóri einhvern greinarmun þarna á?

Nú reynir á hvort þessar línur rata einhvern veginn til Ólafs því ég vil gjarnan fá svör við þessu. Í þetta sinn nenni ég ekki að skrifa grein og senda til Morgunblaðsins - kannski hefði ég átt að gera það, kannski hefði hún fengið forgang og ekki þurft að bíða í margar vikur. En ég læt þetta nægja - í bili að minnstakosti.

Hvers vegna ætli Ólafur Stephensen leggi annars á sig að nota z, sem var aflögð þegar hann var nokkurra ára gamall? Ætli það sé til að sýna ákveðið þroskamerki - þrozkamerki, sem sagt.

 


Athyglisverð umfjöllun og umræða meðal frænda vorra!

Mér hefur löngum fundist blaðamennska í Noregi vera á ögn hærra plani en íslensk. Undanfarið hefur mikið verið fjallað um efnahagsmál á Íslandi eins og t.d. hér: http://e24.no/utenriks/article2422240.ece Þessa slóð sendi ágætur norskur vinur minn mér og lét um leið í ljós áhyggjur af því að efnahagurinn væri á leið til helv...! Ég renndi í gegnum þetta og sá að vissulega er þetta sett fram með nokkuð stórum fullyrðingum en lesi maður áfram sér maður betur og betur hve ítarleg þessi umfjöllun er. Og athugasemdirnar sem venjulegt fólk hefur sett inn eru ekki síður athyglisverðar, þar kemur berlega í ljós að margir Norðmenn hafa fulla samúð með okkur og sumir nefna okkur "litlu bræður í vestri" og spyrja hvað yrði úr Norðmönnum ef olían kláraðist skyndilega eða olíuverð hryndi skyndilega!

Ég hvet fólk til þess að lesa þetta!


Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg mitt hafði ég ekki trú á að margir myndu lesa það. En ég hafði rangt fyrir mér því rúmlega þúsund manns hafa ratað inn á síðuna frá því snemma í apríl! Auðvitað hafa ekki allir lesið þetta litla sem ég hef skrifað og örfáir hafa gert athugasemdir. Þó gerðu tveir athugasemdir við skrif mín um Taser-byssur og lögregluna, annar lýsti sig sammála mér en hinn, sem nefnir sig Ragnar S., er algjörlega ósammála og telur að lögreglunni sé nauðsyn á slíkum vopnum, bendir auk þess á að óháðar rannsóknastofnanir hafi sýnt fram á skaðleysi þeirra. Ekki skal ég mótmæla slíkum rannsóknaniðurstöðum en er hins vegar enn á þeirri skoðun að ég treysti ekki íslenskum lögreglumönnum - né lögreglumönnum yfirleitt - til þess að gæta hófs við notkun vopnanna eins og viðbrögð lögreglunnar við Rauðavatn á dögunum afhjúpaði svo rækilega. Dæmin um ofsafengin viðbrögð lögreglunnar að óþörfu eru of mörg í gegnum tíðina. Íslenskir lögregluforingjar mættu hugleiða þau hófstilltu viðbrögð lögreglunnar í París í maí 1968, undir stjórn manns sem nú er virðulegur öldungur og er þakkað það að ekki fór verr en raunin var. Ég man eftir öðru slíku tilfelli í Osló fyrir um 30 árum. Nokkrum sinnum höfðu orðið óeirðir í grennd við konungshöllina, á svonefndu Nisseberg, sem voru raktar til æsingamanna úr röðum nýnasista sem æstu upp harða vinstrimenn, kommúnista, Maóista og fleira fólk sem var áberandi á þeim árum. Eitt kvöldið var rólegheita varðstjóri á vakt og ég fylgdist með því í beinni útvarpssendingu hvernig hann talaði liðið til, vinstrimennirnir slöppuðu af en nýnasistarnir laumuðust burt með skottið á milli fótanna.

 Ég held að í þessu efni gildi það sama og í samskiptum milli þjóða, að vopnavald leysir ekkert, gerir bara illt verra eins og spriklið í Bush þessi misserin sýnir best. Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Já, ekki gleyma Ísrael.

Lögreglan talar um að þeir þurfi að verja hendur sínar og vísar til árásar fóla nokkurra á lögreglumenn við skyldustörf fyrir nokkru - já, þeir segja að slíkt fari vaxandi. Í fyrsta lagi hélt ég að lögreglumenn væru sérstaklega þjálfaðir í að yfirbuga óða menn og í öðru lagi held ég að þurfi að byrja á dómurunum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að mjög furðulegri niðurstöðu í þessu máli þar sem honum þótti löggan ekki hafa gert nægilega vel grein fyrir sér - þótt þeir sýndu lögregluskírteini og væru girtir belti með handjárnum og með talstöðvar í höndum! Og auðvitað eiga þung viðurlög að liggja við árás á lögreglumenn við störf.

 Annars langar mig í þessu sambandi til þess að hvetja fólk til að hlusta á leikrit Guðmundar Kambans, Marmara, sem Útvarpsleikhúsið flytur um þessar mundir á sunnudagseftirmiðdögum, en þar er ansi hreint djúp pæling um réttvísina - henni eiginlega snúið á haus til þess að reyna að kryfja hana til mergjar.

Bloggið er vafalaust merkt fyrirbæri og trúlega mikilvægt lýðræðinu. Hver og einn bloggari ræður yfir sínum eigin fjölmiðli og getur komið sér upp nokkuð stórum lesendahópi - og  eigum við að segja "samræðuhópi"? Hér getur almenningur fengið rödd og tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri án þess að þurfa að bíða margar vikur eftir plássi fyrir grein í Mogganum eða Fréttablaðinu - þar eru lesendurnir raunar fleiri en biðtíminn oft svo langur að málefnið sem til umræðu er oft úrelt orðið loks þegar greinin birtist. En ég viðurkenni að ég er ekki alltaf upplagður til að skrifa "gáfulega" um mikilvæg málefni að loknum vinnudegi fyrir framan skjáinn; ég vinn þessa mánuðina í spreng við að ljúka handriti fyrir mitt sumar og er ekki alltaf upplagður til að blogga seint á kvöldin. Það er þá helst seint á sunnudagkvöldi eftir hvíldarhelgi eins og núna.

En ég vil að lokum þakka fréttastofu Sjónvarpsins fyrir að vekja athygli á því furðulega framferði starfsmanna hjá Reykjavíkurborg að losa sig við olíumengaðan jarðveg  upp á heiðina þarna við Reynisvatn, hvað sem hún heitir, og eyðileggja þúsundir trjáa. Það er eins og fávitar séu þarna á ferðinni! Og ég vona að fréttamenn vaki yfir skipulaginu á Hólmsheiði þar sem gert er ráð fyrir að rústa gömlu skógræktarsvæði. Hvernig er það annars, er það ekki einmitt þarna sem talað er um nýjan flugvöll? Á að byggja íbúðarhús þarna fyrst, setja svo niður flugvöll? Og í öllum bænum ekki láta trjástuld Kópavogsmanna í Heiðmörkinni gleymast! Hvernig lyktaði því máli?

 


Sannleikurinn um Taser?

Já, hver er sannleikurinn um þessa "rafmagnsstuðbyssu" sem íslenskir lögreglumenn vilja koma höndum yfir til þess að - ja, til hvers? Verja sig eða yfirbuga brjálaða menn? Með slíku vopni væri lögregla á okkar friðsælu eyju ekki lengur vopnlaus. Viljum við vopnaða lögreglu?

Á friðsælum hvítasunnudegi þegar austanáttin er furðu sterk hér í Hafnarfirði og maður þakkar sínum sæla fyrir að vera ekki einhvers staðar úti á þjóðvegi blasir við furðulegt skrif lögreglumanns í sunnudagsmogga, bls. 41. Fyrirsögnin er: Sannleikurinn um Taser valdbeitingartækið og niðurstaða þeirrar ungu löggu sem þarna hefur slegið á lyklaborð er að líklega séu "þeir sem hafa yfirgnæft umræðuna um Taser valdbeitingartækið séu akkúrat þeir sem eru stundum í þeim aðstæðum að tækið yrði jafnvel notað gegn þeim."

Já, akkúrat það!!!

Þetta eru skrítin rök. En enn skrítnara er að löggumaðurinn gerir málflutning Amnesty International í þessum efni tortryggilegan en tekur niðurstöður "hlutlausra rannsókna" á vegum framleiðandans sem heilagan sannleika. En sannleikurinn er sá að eftir atburðina við Rauðavatn treysti ég ekki lögreglunni. Það er augljóst á þeim myndskeiðum sem unnt var að skoða á netinu að lögreglan missti vald á skapsmunum sínum - það sem meira er: Varðstjóri á staðnum bað fréttamenn að bíða og sjá "verkin tala". Verkin töluðu svo sannarlega.´

 Ég "gúglaði" "taser" og komst að því að þessi vopn eru seld almenningi, m.a. á netinu og ódýrasta vopnið kostar 300$. Og það fann ég líka út að þetta fyrirtæki, Taser, hefur her lögmanna í því að kæra hvern þann réttarlækni sem dirfist að úrskurða að maður hafi látist af völdum þessa vopns. Það skal líta út fyrir að vera alveg "hættulaust", væntanlega svo það seljist betur á almennum markaði!

Mér varð satt að segja hverft við að sjá þann viðbúnað sem lögreglan hafði við Rauðavatn: Röð vígalegra, hjálmklæddra ungra manna með þessa plastskildi sem mynduðu óárennilegan vegg. Er það þetta sem menn mega eiga von á í framtíðinni? Og að auki vopnaðir rafmagnsbyssum? Lýðurinn skal ekki komast upp með neinn moðreyk framar! En nú hallar ekki á, vörubílstjórar hafa verið meðhöndlaðir eins og kínverskt heilsuræktarfólk og breskir náttúrverndarsinnar. Harkalegar náttúrlega en kannski verða skildirnir dregnir fram þegar í hart fer austur við Þjórsá, sem hlýtur að gerast hvað úr hverju.  Neið, maður hafði á tilfinningunni að þessum ungu löggum þætti einum of "gaman" að fjörinu við Rauðavatn og sannið til, þess verður ekki langt að bíða að þeir fá útrás næst!

Þá rifjast upp fréttin af því að héraðsdómur Reykjavíkur sló á fingur Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins sem neituðu ungum Máritaníumanni um landvistarleyfi án þess, að því er virðist, að hafa haft fyrir því að rannsaka fullyrðingar hans um að hann hefði orðið fyrir misþyrmingum af hendi lögreglu í heimalandi sínu. Þetta þarf nú að kanna en vesalings maðurinn verður líklega að hírast suður í Keflavík enn um sinn, eins og hann hefur gert í fjögur ár! Þetta minnir á mál kúrdíska bóndans forðum daga sem var leynt á bæ norður í landi vegna þess að útlendingaeftirlitið vildi senda hann úr landi þótt hans biði fangelsi og ill meðferð fyrir það eitt að hann var Kúrdi. En íslensk yfirvöld höfðu einfaldlega haft samband við yfirvöld í heimalandi mannsins - mig minnir hann hafa verið frá kúrdíska hluta Tyrklands - og fengið þær upplýsingar þar að þetta væri tóm vitleysa!!! Því var trúað. En meðal annarra orða: Hver urðu örlög Kúrdans? Er hann ennþá fjósamaður fyrir norðan?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband