Stefna Sjálfstæðisflokksins svínvirkaði

Þessi grein birtist í síðasta Fjarðarpósti en Guðni ritstjóri birti ranga útgáfu - ég sá hnökra á greininni, bætti úr og bað ritstj. skipta, sem hann lofaði en hefur gleymt. Hér kemur rétt útgáfa:

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar í síðasta tölublað Fjarðarpóstsins að í vor verði kosið um hvort hér „verði áfram byggt upp öflugt þjóðfélag velmegunar eða hvort að við festumst í kreddum miðstýringar og ríkisforsjár til frambúðar."

Þarna er ýmsu snúið á hvolf. Forystumenn í Sjálfstæðisflokknum hafa gumað af því að hafa létt flestum hömlum af fjármálalífi þjóðarinnar, í nafni „frjáls framtaks einstaklingsins" Nú er komið í ljós að sú stefna Sjálfstæðisflokksins að tryggja „frjálst framtak einstaklingsins" brást alls ekki, hún svínvirkaði. Algjört frelsi einstaklingsins hlýtur fyrr en síðar að fara úr böndunum, eins og komið hefur í ljós á svo eftirminnilegan hátt. Séu engar hömlur hafðar ganga óvandaðir einstaklingar að sjálfsögðu eins langt og þeir geta. Þetta hefur jafnvel Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, viðurkennt.

Þorgerður Katrín getur býsnast eins og hún vill yfir því að núverandi stjórnvöld séu ekki að gera neitt, nema ef til vill það sem hennar ríkisstjórn hefði gert hvort sem var. En það er hlægileg fullyrðing og barnaleg. Hvað ætlaði sú ríkisstjórn að gera? Fátt heyrðist af því meðan hún lafði, og neitaði fram í rauðan dauðann að nokkur á hennar vegum bæri nokkra einustu ábyrgð. Og nú hefur nefnd innan Flokksins komist að þeirri niðurstöðu að stefnu Sjálfstæðisflokksins sé ekki um hrunið að kenna heldur beri einhverjir ótilgreindir menn úti í bæ alla sökina!

Svo held ég að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætti að tala sem minnst um efla það velferðarkerfi, sem var komið á hér á landi þrátt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hann hefur samt sem áður löngum eignað sér, en hefur á síðustu árumgrafið verulega undan því.

Ég tek undir það að við eigum að leggja áherslu á „svigrúm til frumkvæðis og verðmætasköpunar svo íslenskt atvinnulíf muni blómstra á nýjan leik". En í öllum bænum ekki sams konar frumkvæði og sams konar „verðmætasköpun" og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lagði grunninn að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

"The Social Contract", er gamalt hugtak í stjórnmálaheimspeki, sem rifjaðist upp þegar Eva Joly vakti máls á því.

Fer ekki hér út í langar skilgreiningar, en þegar rof á sér stað -eins og gerðist hér á Íslandi, Enron osfrv.-  er fjandinn einfaldlega laus

Finnst svo að sjálfstæðismenn ættu að ganga í þagnarreglu Trappista -öll sem ein.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.3.2009 kl. 17:16

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Takk fyrir að ganga í hópinn. Verst er hvað ég gef mér lítinn tíma til bloggs nú um stundir en það skánar vonandi bráðum!

Þorgrímur Gestsson, 18.3.2009 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband