27.1.2009 | 13:45
Með hækkandi sól eykst bjartsýni um sæmilega framtíð
Ég lýsi yfir ánægju minni með að loksins sé verið að mynda vinstristjórn hér á þessu landi. Hættið öllu tali um "báknið burt" og "varist vinstri slysin". Hér varð óskaplegt "hægra slys", sem ætti að kenna þjóðinni mikilvæga lexíu.
Eftir langar stöður á Austurvelli og á stéttinni fyrir framan Alþingishúsið bíð ég nú vonglaður eftir tiltektinni - og ekki er það verra að Framsókn og jafnvel Frjálslyndir skuli hyggjast veita stjórninni stuðning; þá verður einn flokkur úti í horni en vonandi sjá þingmenn úr honum sóma sinn í að leggjast á árarnar með nýrri ríkisstjórn.
Sérlega athyglisvert er að fela á efnahags- og fjármál sérfræðingum í þeim efnum. Ekki veitir af. Og næst er tiltekt í Seðlabankanum - já, og hæfa menn þurfum við í Fjármálaeftirlitið.
Dagar tiltektar eru hafnir - og héðan í frá hækkar sólin á lofti með hverjum deginum sem líður. Það er þó víst. En við vonum að sól þjóðarinnar fari einnig hækkandi.
Gangi ykkur vel næstu hundrað dagana (eða svo), nýju valdhafar - að þeim loknum kemur þjóðin aftur til skjalanna og hefur vonandi um marga góða kosti að velja.
Falið að mynda stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.