7.1.2009 | 21:54
Hvað er utanríkisráðherrann að rugla?
Ég held að margir séu reiðir eftir Kastljós kvöldsins. Þar sagði Ingibjörg Sólrún við allt of linan Helga Seljan eitthvað á þá leið að hún skildi ekki í fólki sem heimtaði "nýtt Ísland" strax, á þremur mánuðum. Fólk yrði að athuga að ríkisstjórnin væri í "miðjum skafli", að moka, hún væri að byggja upp nýtt kerfi!!!
Þetta er mikill misskilningur. Fólk hefur aldrei heimtað Nýtt Ísland strax. Fólk vill fara að bretta upp ermnarnar og fara að byggja upp manneskjulegra samfélag og allir vita að það á eftir aða taka langan tíma.
Ætlast hún til þess að við treystum núverandi ríkisstjórn til þess að byggja upp á rústum þess sem var? Ráðherrann sagði að þingmennirnir hefðu sitt umboð frá síðustu kosningum! Heldur hún að þær raddir sem hafa hrópað það hvað eftir annað, á torgum, á götum, í blaðagreinum, á blogginu að þeim sé einmitt ekki treyst lengur og að við viljum fá nýtt fólk í forystu, - að þetta séu raddir fáeinna öfgamanna? Heldur hún enn að þjóðin sé ekkert að segja? Þetta fólk hefur einfaldlega ekkert traust lengur -já, og húntreystir Árna Matt. "til allra góðra verka" þótt hann hafi verið staðinn að lögleysu og spillingu!¨Og Geir líka þótt það væri ekki nefnt þarna af einhverjum undarlegum ástæðum.
Svo tuldraði hún eitthvað um að ekki hefðu þeir sem sætu núna í Seðlabankanum byggt upp það kerfi sem var ekki öflugra en svo að allt hrundi! Nú! Ekki Davíð Oddsson, hönnuður þess kerfis í forsætisráðherratíð sinni? Sátu ekki núverandi embættismenn og núverandi ráðherrar og aðrir pólitíkusar í sínum núverandi stólum mánuðum saman á meðan hrikti í stoðunum og allir sem vit höfðu á sögðu að bankakerfið og efnahagskerfið væri að fara til fjandans?
Það þýðir ekkert að segja að þetta sé "eftiráspeki", í kringum áramótin voru allar þessar viðvaranir rifjaðar samviskusamlega upp.
Ég held að fjölmiðlafólkið okkar sé loksins að vakna!
En ég er rasandi .
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þetta. Ingibjörg Sólrún talaði í heilan hring og gott betur í þættinum. Það er kominn tími á að hún taki sér hvíld frá stjórnmálum.
Haraldur Hansson, 7.1.2009 kl. 22:01
Já, það er ágæt lýsing, hún talaði í hring og var í mikilli vörn en Seljan gaf henni bara lausan tauminn. Eftir því sem hún situr lengi molnar meira undan Samfylkingunni.
Þorgrímur Gestsson, 7.1.2009 kl. 22:11
Heill og sæll Þorgrímur.
Ég er sammála öllu sem þú skrifar í þessari færslu nema því að Helgi hafi verið linur.
Með hægð sinni fékk Helgi Ingibjörgu til að opinbera hroka sinn og ást á ráðherrastólnum svo ekki fór fram hjá neinum sem á horfði. Hún lýsir traust á Árna Matt, hún ver Davíð, og Björn B. er í góðu lagi.
Þessi sama manneskja er búin að hamra á því að það þurfi að hreinsa út úr Seðlabankanum og hefur talað fyrir breytingum á ráðherraliðinu. En nú segir hún að ekki sé nein þörf á neinum hreingerningum í stjórnkerfi þjóðarinnar.
Helgi gerði formann, míns flokks, ekki aðeins að fífli heldur ótrúverðugum stjórnmálamanni eða konu. Eftir því hvernig við viljum hafa það.
Annars bara gleðilegt ár
Kveðja
Guðni Ölversson
Dunni, 7.1.2009 kl. 22:49
Þorri ég er sammala Dunna að því leiti að Helgi náði mörgu fram. Hins vegar hefði hann mátt ganga aðeins harðar að henni um Davíð.
Haraldur Bjarnason, 8.1.2009 kl. 00:33
Ég get ekki séð að ríkisstjórnin sé mikið að hreyfa við skaflinum. Það er þjóðin sem fær það hlutverk að troða snjónum í vasa sína næstu árin.
Kristbergur O Pétursson, 8.1.2009 kl. 10:36
Takk fyrir athugasemdir og kveðjur. Já, ef til vill má segja að með hægðinni hafi Helga tekist að fá ISG til þess að verða sér til skammar. En mér finnst nú samt að hann hefði mátt spyrja dálítð hvassar, hann hætti of fljótt, fylgdi spurningunum ekki nógu vel eftir. Annars stendur hann sig oft vel.
Þorgrímur Gestsson, 8.1.2009 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.