Hefst Byltingin á Arnarhóli?

Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum á fundinum á Austurvelli í dag. Er þessi alda að fjara út? Ég held að aldrei slíku vant hafi lögreglan komist nokkuð nærri réttum fjölda - þetta hafa líklega verið um þúsund manns. Það er ekki nógu gott. Skilaboðin til stjórnvalda eru ef til vill þau að nú sé óhætt að anda léttar.... en það er misskilningur. Eftir fundinn fór ég á Café Paris og hitti bresk hjón sem eru hér til þess að sjá norðurljósin; sameiginleg vinkona okkar í Orkneyjum bað mig að sinna þeim. Reyndar kom í ljós að það var aðeins lymskuleg aðferð til að fá mig til að taka við ágætri sendingu frá henni: orkneyskri viskíflösku! Við ræddum dálítið um ástandið og niðurstaðan var eiginlega sú að það sem er að gerast hér sé að gerast um öll vesturlönd meira og minna - afleiðingarnar hér eru bara mestar vegna þess að hagkerfið hér þoldi síst græðgi og taumleysi nýfrjálshyggjumannanna. Í Bretlandi hefur t.d. verið byggt og byggt undanfarið, gjörsamlega taumlaust og stjórnlaust, sama gerðist á Spáni. Þegar þessir menn telja sig sjá gróðamöguleika halda þeim engin bönd og loks fara þeir fram af hengifluginu, hrapa og raka okkur með sér í fallinu, okkur sem viljum bara lifa eðlilegu lífi og sinna okkar hugðarmálum - já og öll hin. Það var annars óhugnanlegt að heyra í Gunnari Birgissyni í Krossgötum Hjálmars Sveinssonar í dag. Samkeppni í uppbyggingunni er nauðsynleg..... ég veit eiginlega ekki til hvers. Og samræmingu á uppbyggingunni líkti hann við Sovétið, það myndi leiða til stöðnunar og einhæfni minnir mig að hann segði. Allt er í besta lagi, þeir sem halda einhverju öðru fram hafa misskilið þetta allt; við lifum í besta heimi allra heima. Kannast menn við einkennin?

Stundum  hallast ég að því sem sumir halda fram, að okkur eigi ekki eftir að takast að losna úr gömlu viðjum hugarfarsins og hefja uppbyggingu nýs og betra samfélags. Hættan á því að gömlu öflin herði tökin og haldi okkur áfram föngnum í gamla tímanum, gamla farinu þar sem gömlu klíkurnar sitja áfram við kjötkatlana og skara eld að sinni köku, gömlu ættirnar og skólabræðurnir. Eftir að hafa spjallað við bresku hjónin á Café Paris í um klukkustund skildist mér að það er við sama  að eiga um alla Evrópu, líklega um allan heim: Spillta stjórnmálamenn sem fjarlægjast fólkið æ meir.

Á Austurvelli var nefnd bylting. Að mótmælin væru aðeins fyrsta stig. Annað stigið í baráttunni væri Byltingin. Eitthvað á að gerast á Arnarhóli klukkan sjö á mánudagsmorguninn. En hvað það er vitum við ekki - fyrr en þá.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Það var ágætis mæting miðað við árstíma. Það er jó að koma jól.
Þitt viskíglas er sennilega hálf tómt, en mitt er fullt.
PS:Líttu inn jólaboðinu hjá mér.

Heidi Strand, 8.12.2008 kl. 17:08

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Ja, kannski. En þetta eru sérstakir tímar og við megum ekki sofna á verðinum, halda áfram að hrópa og hræða stjórnarliðið. Ég leit inn í jólaboðið þitt. Það var fjör!

Þorgrímur Gestsson, 8.12.2008 kl. 18:08

3 identicon

Talandi um byltingu. 

Svona hagar haga leppar Pútíns sér í fjölmiðlum í þjóðareign.

Sjá þessa færslu hér

Maður hefur orðið kjaftsopp af minna tilefni.

Út með þetta hyski sem ekki kann til verka og kann sig ekki heldur. 

101 (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband