3.12.2008 | 21:54
Hver borgar fyrir skaðað orðspor okkar Íslendinga?
Ég leit inn til kunningja míns í gær og við býsnuðumst svolítið vegna ástandsins. Kunningi minn sagði meðal annars að bankamennirnir eða útrásargaurarnir eða hvað skal nefna þá, skulduðu okkur, venjulegum skattgreiðendum, stórfé og þeir yrðu hreinlega að greiða skuld sína við okkur af öllum þeim auðævum sem þeir halda enn eftir, og hafa vel varin og geymd út um allan heim. Þá rifjaðist það skyndilega upp fyrir mér að frjálshyggjudellingarnir verðlögðu viðskiptavild fyrirtækja sinna og ímynd þeirra, hvað þá annað, þegar þeir seldu þau hver öðrum og skrúfuðu upp verðið um milljarða við hverja sölu, þótt þau væru rekin með bullandi tapi. Þeir lögðu áherslu á að ímyndin og viðskiptavildin væri mikils virði.
Við hrunið hrundi líka ímynd okkar Íslendinga sem þjóðar og viðskiptavild okkar fór veg allrar veraldar. Við sitjum eftir með sárt ennið, smáðir af umheiminum, og menn vilja helst engin viðskipti hafa við okkur og treysta ekki gjaldmiðlinum okkar né held bönkunum. Hvers virði er þessi ímynd okkar - eða svo við notum gamalt og gott orð: orðspor okkar Íslendinga? Hvað skulda Björgólfarnir og þeir okkur fyrir að hafa skemmt mannorð okkar og steypt okkur og afkomendum okkar í þúsunda milljarða króna skuldir? Hið eina rétta er að ganga að eigum þeirra.
Að endingu aðeins um niðurskurðinn hjá Ríkisútvarpinu: Einhvers staðar á bloggsíðu las ég ummæli á þá leið að starfsmenn þar litu svo stórt á sig að þeir vildu ekki taka á sig launalækkanir og uppsagnir eins og aðrir. Vitanlega á enginn að þola það sem hér var nefnt, en hvað varðar starfsmenn RÚV snýst þetta ekki um þá heldur það að unnt sé að halda úti öflugu almannaútvarpi (og sjónvarpi) á tímum eins og þessum, þegar almenningur á í vök að verjast. Það hefði frekar átt að fjölga t.d. í Spegli Útvarpsins og efla fréttaskýringar Sjónvarpsins en skera niður.
Athugasemdir
Um Ruv. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Það er gott að eiga bloggið.
Fjárglæframananna eiga að borga skuldir sinar en ekki við.
Heidi Strand, 3.12.2008 kl. 22:40
Heia RUV!
Þorgrímur Gestsson, 3.12.2008 kl. 22:41
Ég horfi mest á NRK

Heia Norge.
Heidi Strand, 3.12.2008 kl. 23:02
Ég næ ekki NRK, því miður!
Þorgrímur Gestsson, 3.12.2008 kl. 23:10
Það á að koma lögum yfir fjárglæframennina.
Ég veit ekki um almenningsálitið um allan heim en... ummæli fólks í Danmörku í RÚV viðtali voru frekar hliðholl íslenskum almenningi. Viðmælendur gerðu greinarmun á fjárglæframönnum og þjóðinni í heild. Það var allavega góðs viti.
Kristbergur O Pétursson, 4.12.2008 kl. 09:42
Þorri, mér finnst nú það besta í sparnaðarniðurskurðinum hjá RÚV að hætta svæðisútsendingum. Þær eru nefnilega að skila hagnaði. Auglýsingar í svæðisútsendingum gera miklu meira en borga kostnað af þeim. Þetta eru svæðisbundnar auglýsingar sem RÚV fær ekki inn á samlesnar. Svæðisútvörpin hafa hins vegar aldrei notið þessara tekna beint. Þær fara inn í heildina en síðan er svæðisstöðvunum skammtað rekstrarfé. Fyrir utan það að útvarp allra landsmanna stendur ekki almennilega undir nafni án svæðisstöðva. Ég efast um að Páll hafi nokkurn tíma heyrt útsendingu svæðisútvarps.
Haraldur Bjarnason, 4.12.2008 kl. 10:22
Já, ég sá þessa athugasemd þína hjá Pjetri Hafstein. Það er náttúrlega ekki glóra í þessu. - Þakka þér annars fyrir síðast, Halli minn, þegar við sáum um Raust saman í nokkrar vikur á sínum tíma. Það er orðið tímakorn síðan, líklega ein 20 ár - eða hvað?
Þorgrímur Gestsson, 4.12.2008 kl. 11:33
Já þetta voru góðir tímar Þorri, ætli það séu ekki um 20 ár síðan.
Haraldur Bjarnason, 5.12.2008 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.