Niðurskurðurinn á RÚV jafnast á við skemmdarverk á þeirri góðu stofnun

Það eru 17 ár síðan ég hætti störfum á fréttastofu Útvarpsins. Enn á ég nokkra kunningja á þeirri stassjón, en þeim fer nú fækkandi. Þeir og allt annað starfsfólk Útvarpsins, og raunar alls RÚV, á alla mína samúð. Ég veit að þeim sem ekki hefur verið sagt upp líður illa að horfa upp á félaga sína sem verða brátt að taka pokann sinn. Gamall kunningi þarna innandyra fullyrti raunar við mig að ekki yrði skorið niður í almennri fréttaþjónustu en íþróttadeildin yrði hins vegar að draga mikið saman seglin. Ég syrgi það ekki! Hins vegar þýðir samdrátturinn óhjákvæmilega aukið álag á þá föstu starfsmenn sem halda starfinu og fyrir mitt leyti tel ég það vera skemmdarverk á Útvarpinu ef rétt reynist að nú eigi að leggja niður svæðisútvarpsstöðvarnar. Þar hefur mikið uppbyggingarstarf verið unnið undanfarna tvo áratugi, sem virðist nú eiga að fleygja í ruslatunnuna. Og nú bíð ég kvíðinn eftir að heyra hvaða þættir á Rás 1 verða lagðir niður.

Auðvitað er alltaf nauðsynlegt að fara vel með almannafé (já og fé yfirleitt). En við vitum að RÚV hefur verið fjársvelt undanfarinn áratug eða svo, auk þess sem fjárhagsbyrðar hafa verið lagðar á stofnunina og hún að auki gerð að hlutafélagi, sem greiddi fyrir þessum niðurskurði.

Ríkisútvarpið hefur alla tíð verið undirmannað og starfsfólk þess hefur um áratugi unnið sannkallað kraftaverk á hverjum degi. Því hef ég kynnst af eigin raun innanfrá, þegar ég var hluti  af þessari góðu stofnun. Starfsfólk hefur unnið fyrir útvarpið af samviskusemi - og mikilli elsku á stofnuninni - og haldið uppi ótrúlega góðri dagskrá, sem oft gefur ekkert eftir því besta sem gert er í heiminum, með brot af því starfsafli og fé sem annars staðar tíðkast. Það hlýtur að vera dýrt að halda úti metnaðarfullri útvarps/sjónvarpsstarfsemi í landi þar sem búa rétt rúmlega 300 þúsund sálir. Það er þess vegna sárara en tárum tekur að horfa upp á þessa stofnun skorna niður við trog, ofan á fjársvelti undanfarinna ára, sérstaklega á tímum sem þessum þegar Ríkisútvarpið okkar hefði átt að vera í fararbroddi íslenskra fjölmiðla í þágu fólksins.

 Sem formaður Hollvinasamtaka RÚV tilkunni ég að þaðan er álits að vænta innan skamms, þegar tekist hefur að hóa stjórninni saman, sem verður víst því miður ekki fyrr en í næstu viku.

Af þeim sökum verður fólk að gæta þess að það sem ég hef skrifað hér  er eingöngu mínar prívat og persónulegu skoðanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Mér finnst nú talsvert alvarlegt Þorgrímur ef þú sem formaður Hollvinasamtanna "syrgir það ekki" að dregið sé úr íþróttafréttum og íþróttatengdum útsendingum. Það vill nú þannig til að fjöldi manns hefur áhuga á þessum útsendingum en eins og málum er háttað þá neyðist það fólk nú nú hér eftir að kaupa sér dýrar áskriftir að öðrum miðlum.

Ekki það að söðullinn hafi verið hár sem íþróttirnar sátu í. Það hefur markvisst verið unnið að því í mörg ár að leggja þær niður.

Þeim tekst það endanlega með þessu síðasta útspili.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 2.12.2008 kl. 11:21

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Fyrirgefðu, Kristín Björg, en hér skrifaði ég sem "prífatmaður" eins og sýslumaðurinn sagði þegar hann hafði tekið ofan kaskeitið! Hér á landi er hefð fyrir því að jafnvel æðstu menn notfæri sér málfrelsið og tali eins og þeir vilja þótt oft hafi það samt orkað tvímælis. En ég segi þetta náttúrlega ekki sem formaður Hollvina RÚV - hef sent ályktun stjórnarinnar um niðurskurðinn á alla fjölmiðla og vonast til að henni verði gerð góð skil.

Þorgrímur Gestsson, 2.12.2008 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband