Íslendingar eru loksins að vakna og hafa fengið rödd

Ég er ekki stoltur af því að ég fór ekki á borgarafund fyrr en í kvöld, að ég skellti mér á fundinn á Nasa þar sem var fullt hús, um 700 manns. Í fáum orðum sagt þótti mér það mikil lífsreynsla. Þar ríkti eitthvert mjög sterkt andrúmsloft. Eitthvað lá í loftinu sem gaf það til kynna, þegar allt er lagt saman: Sístækkandi fundir á Austurvelli, Iðnófundirnir og þessi. Ég fékk það sterkt á tilfinninguna að ég væri viðstaddur fæðingu merkilegrar hreyfingar - jafnvel fyrirboða einhvers konar uppreisnar almennings. Lýðsins, fólksins. Er loksins að myndast hreyfing venjulegs fólks, sannkölluð "grasrótarhreyfing", sem er reiðubúin að standa í hárinu á ráðamönnum þjóðarinnar? Ég held það næstum. Ég trúi ekki að það fólk sem talaði þarna og á fyrri fundum, í Iðnó og á Austurvelli, og það fólk sem klappaði og hrópaði og púaði - og hló hæðnislega að ráðamönnunum, auðmönnunum og öllu því.....ég trúi ekki að þetta fólk þagni í bráð og sitji undir froðusnakki, lygum og feluleik ráðamanna héðan í frá. Þetta fólk hættir ekki að hrópa og kalla og skamma. Ég held ekki að þetta fólk þagni héðan í frá.

Eða er þessi hreyfing þegar fædd? Óánægðir Íslendingar hafa í það minnsta sameinast  þvert á flokkslínur og eru þessar vikurnar að brýna sína snjöllu raust.

Auk þeirra snjöllu ræðumanna sem töluðu á Nasa í kvöld sátu fulltrúar allra helstu fjölmiðla í panel enda var umfjöllunarefni fundarins "ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda kreppunnar" og reyndu að svara spurningum. Ég held ég geti fullyrt að þeir hafi allir verið meira og minna í vörn, ekki síst Ólafur Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins, sem sat fremur hljóður undir uppgjöri ræðumanna og fundarmanna á trúarbrögðum hans, frjálshyggjunni og heimdellunni. Björg Eva Erlendsdóttir er fyrir nokkru sloppin af útvarpinu og var mjög gagnrýnin á stofnunina, bæði í ræðu sinni og þegar hún svaraði spurningum; hún stóð sig vel og var mjög trúverðug í gagnrýni sinni eins og oft er þegar fólk er í þessari aðstöðu og á engra hagsmuna að gæta. Broddi Broddason skautaði létt yfir gagnrýnina sem útvarpið fékk og gat í rauninni fátt sagt. Hann stýrir raunar skárri hluta RÚV og reyndi lítt að verja bága frammistöðu Sjónvarps. Fjölmiðlafólkið átti satt að segja mjög í vök að verjast og hvassasta gagnrýnin var að mínu mati sú að þeir létu pólitíkusana - og aðra - komast upp með að svara fáu, litlu, engu og láta undir höfuð leggjast að þýða á mannamál það litla sem þeir þó segja, tengja það áliti og mati annarra og kafa ofan í það. Það er þó frumskylda blaðamanna.

Ég ætlaði eiginlega ekki að fara út í þessa sálma hér heldur halda áfram með hreyfingu fólksins. Við eigum eftir að sjá stórmerkileg tíðindi. Ég er sannfærður um það. Við eigum eftir að sjá núverandi ráðamenn skjálfa á beinunum frammifyrir  lýðnum, fyrrum kjósendum sínum. En þá komum við að því sem kann að reynast hættulegt. Upp úr þessum jarðvegi getur sprottið fjöldahreyfing lýðskrumara, snjallra ræðumanna sem hrífa með sér einfaldar og illa upplýstar sálir. Slíkt hefur gerst og farið illa. Vonandi tekst hinum menntaðri og upplýstari, sem meðal annars hafa staðið að fundum undanfarinna vikna, að beina þróuninni á réttar brautir - og vonandi taka fjölmiðlarnir sig á og upplýsa okkur betur um það sem er að gerast en þeir hafa gert til þessa.

Raunar viðurkenndu þeir það að nokkru að þeir hefðu brugðist og lofuðu að standa sig betur í framtíðinni. Vonandi gera þeir það. Þeir tóku sig þó á í umfjölluninni um Austurvallarfundina - en höfðu kolfallið á því prófi fyrstu fimm vikurnar.

Í fundarlok var tilkynnt að á laugardaginn kemur yrði haldinn borgarafundur í Háskólabíói og boðaðir til hans allir alþingismenn þjóðarinnar.  Gunnar Sigurðsson fundarstjóri og skipuleggjandi fundarins tilkynnti að tekin yrðu frá sæti fyrir alla ráðherrana og þau merkt með nöfnum þeirra. Fundargestir fögnuðu þessu ákaflega!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þetta er akkúrat málið... manni líður eins og maður sé að upplifa kraftaverk. Fólk er að fatta að það á rödd og þorir orðið að beita henni.

Heiða B. Heiðars, 18.11.2008 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband