20.3.2008 | 11:57
Æstar löggur, banaslys og kínverska sendiráðið
Ég lenti í þeirri miður skemmtilegu aðstöðu í gærdag að þurfa að bíða við Álftanesvegamótin meðan lögregla og sjúkralið athöfnuðu sig uppi á Reykjavíkurvegi þar sem kona hafði farist í bílslysi. En ég hafði náttúrlega ekki hugmynd um það þegar ég var á leið úr Nóatúni og hugðist fara mína leið vestur Reykjavíkurveg. Á gatnamótunum tók á móti mér lögreglumaður sem virtist vera gjörsamlega hamslaus af bræði, hann pataði út í loftið og virtist öskra af öllum lífs og sálarkröftum. Í fyrstunni skildi ég ekki hvað var að gerast og stoppaði fyrir aftan næsta bíl, komst ekki framhjá honum, en löggan kom æðandi, ég skrúfaði niður rúðuna og heyrði að hann æpti á mig að halda áfram - halda áfram.....Ég bakkaði og gat mismunað bílnum út í kant, steig út og hrópaði til löggunnar að hann ætti ekki að vera svona grimmilegur eða hvað væri að gerast. Svipurinn mildaðist dálítið og hann sagði að gatan yrði að vera opin fyrir sjúkrabíl sem væri á leiðinni og smám saman fékk ég út úr honum að alvarlegt umferðarslys hefði orðið. Ég sætti mig við þetta og beið á meðan sjúkrabíllinn kom og fór aftur drykklangri stund síðar, væntanlega með þessa ólánssömu konu og ég sá þegar ég kom nær að bíl hennar hafði hreinlega verið sópað upp á miðeyju af stórum jeppa, sem virðist hafa farið allhratt þarna á 50 km. hámarkshraðasvæði, sem fáir taka mark á.
Á meðan ég beið hugleiddi ég í fyrsta lagi ógnvekjandi framkomu löggunnar, sem er ákaflega ungur maður, hvort svona framkoma væri nauðsynleg við þessar aðstæður, og mín eigin viðbrögð; ég snerist þegar í stað til varnar og varð reiður yfir þessari framkomu unga mannsins. Var það vegna þess að við Íslendingar þekkjum ekki her né vopnaða lögreglu og erum yfirleitt óvanir afskiptum löggunnar nema við höfum brotið eitthvað af okkur? Hvað myndi gerast ef valdstjórnin færi að beita sér gegn okkur fyrir alvöru? Myndi ég snúast til varnar ef ég væri á annað borð sannfærður um að aðgerðir mínar væru réttlætanlegar? Þarna er ég náttúrlega að meina mótmælaaðgerðir í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Ég tek það fram að ég er alveg sammála lögreglunni um að hart þurfi að taka á glæponum sem taka sig til og ráðast á lögreglumenn. Það er algjör óhæfa sem dómstólum ber að taka hart á því þessir ungu menn sem eiga meðal annars að kljást við afbrotamenn, sölumenn dauðans og brjálaðar fyllibyttur eiga skilið að samfélagið veiti þeim þá vörn í þessu hættulega starfi sem hægt er.
En þarna eru ákveðin takmörk. Ég var að lesa um mótmæli ungra samfylkingarmanna (sem einu sinni hétu ungkratar) við kínverska sendiráðið. Er það virkilega rétt að stór hópur íslenskra lögreglumanna sé hafður í grennd við sendiráðið og fólk sem leggur leið sína þangað sé spurt um nafn og kennitölu? Er ástæða til að hafa þvílíkan viðbúnað hér í hinni friðsælu Reykjavík? Er ekki nóg að Kaninn sé haldinn móðursýkislegri hræðslu og láti loka Laufásveginum? Er ástæða til að sýna fulltrúum kínverskra stjórnvalda, sem eru þekkt fyrir mannréttindabrot, slíka tillitssemi? Er ekki óþarfi að binda stóran hóp lögreglumanna við að gæta eigna slíkra stjórnvalda á meðan lögreglan er fjársvelt og á erfitt með að halda uppi eðlilegu umferðareftirliti á götum og vegum þar sem hinir einu sönnu íslensku hermdarverkamenn eru á ferðinni? Friðsamt áhugafólk um alþjóðastjórnmál, lýðræði og málfrelsi ætti að geta afhent sín mótmæli í friði fyrir "valdstjórninni", jafnvel hellt rauðri málningu á tröppur.
Og hananú!
Að lokum klipp úr fréttum dagsins á ruv.is. Hvernig skyldi þessi frétt hafa verið lesin? - eða þessi bútur úr þeirri undarlegu frétt að fjárhagsvandi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli var leystur með því að flytja tollarana undir fjármálaráðuneytið - og að Bj. Bj. hafnar því jafnframt að vallarlögreglan eigi við fjárhagsvanda að stríða:
ruv.is skírdag, 20. marsGuðbjörn Guðbjörnsson, formanni tollvarðafélagsins, lýst ekki vel á nýjar hugmyndir og hvernig að þeim var staðið. Algjör óvissa sé um hver verði tollstjóri 1.júlí. Hann segist ennfremur ekki sjá hver sé ávinningur breytingarinnar, hvorki faglegan né fjárhagslegan.
Gaman væri að fá komment á þetta ef einhver nennir að lesa þetta blogg mitt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2008 | 20:28
Málfar sem gengur ekki í RÚV
Ég ætti eiginlega að hafa fyrirgert rétti mínum til þess að halda úti bloggsíðu með því að hafa látið líða á aðra viku án þess að setja inn nýja færslu. Á meðan hafa líklega um tvöhundruð manns litið á síðuna! Ég veit ekki hvernig eða af hverju það gerist en það eru fleiri lesendur en ég hafði ímyndað mér. Það undarlega og stórfurðulega við bloggið er nefnilega að þar skrifar maður fyrir heiminn - allir hafa í rauninni möguleika á aðgangi, á því að lesa það. Hins vegar er afskaplega takmarkaður fjöldi fólks sem hefur tungumálakunnáttu til að lesa það sem hér stendur og enn færri gera það. En semsagt: furðumargir.
Það sem gerði að ég settist niður núna var eiginlega tvennt. Stúlka í sjónvarpinu sem var að kynna væntanlega afhendingu tónlistarverðlauna ársins hafði kallað til sín tónlistarmanninn Múgison og sagði eitthvað á þessa leið: Margir eru ánægðir með hvernig þú ert að lúkka, Múgison. Þarna urðu stúlkunni á tvenn mistök sem hvor um sig ættu að vera brottrekstrarsök frá RÚV. Ég læt fólk um að átta sig á hvað ég er að fara.
Hitt er þessi frétt af ruv.is. Ég heyrði ekki fréttir í kvöld en skilur einhver þetta? Ég hef hugsað mér að benda Aðalstein Davíðssyni málfarsráðunaut á þessi ósköp:
Gengið réttara en um langa hríð
Gengi íslensku krónunnar er nær því að vera rétt skráð nú, en verið hefur um langa hríð, að mati Sveins Hjartar Hjartarsonar hagfræðings Landsambands íslenskra útvegsmanna. Tekjur sjávarútvegsins aukast um 25 milljarða við breytingar á genginu og vega upp niðurskurð á þorskkvótanum.
Íslenskur sjávarútvegur hefur orðið af 15-20 milljarða króna tekjum árlega síðustu árin vegna þess að gengi krónunnar hefur ekki verið rétt skráð segja útvegsmenn.
Eðlilegt sé að gengisvísitala krónunnar sé á bilinu 135-140 stig. Þótt gengisvísitalan sé ívíð hærri nú eða tæp 160 stig gengi krónunnar lægra það er, sé sú staða nær lagi en verið hafi í langan tíma. Sveinn Haukur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, segir gengislækkun krónunnar ekki eiga að koma neinum á óvart. Gengið hafi verið allt of hátt skráð. Leiðréttingin sé tímabær.
Sveinn Hjörtur telur raunhæft að ætla að sjávarútvegurinn nái sömu tekjum og á síðasta ári eða 128 milljörðum króna vegna gengisþróunarinnar. Gengisvísitala í tæpum 160 stigum sé nær lagi en þegar krónan var sterk og vísitalan um og yfir 100 stig um skeið.
Í þriðju málsgrein fer eitthvað verulega úrskeiðis. Öll merking hverfur út í buskann og blm. fer að skrifa í viðtengingarhætti án sýnilegrar ástæðu. En þessi viðtengingarháttarskrif hafa færst mjög í vöxt og eru látin koma í stað beinnar ræðu - þ.e. blm. umsnýr beinni ræðu í óbeina á þann hátt. Ég tók raunar fyrst eftir þessu í fréttatímum útvarps hjá einum af þaulreyndustu fréttamönnunum. Þessi stíll gengur alls ekki; sem skattgreiðandi, dyggur útvarpshlustandi og gamall blaðamaður mótmæli ég þvílíku og öðru eins.
Ef mér tekst að fella blogg-skrif inn í daglega rútínu mína (sem er þó frekar órútína) má eiga von á fleiri pistlum sem þessum. Af dæmum á ég nóg.
En læt þetta duga í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2008 | 22:55
50 Hafnfirskir listamenn
Á 100 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar tölti ég undir marssólinni niður í Hafnarborg og var viðstaddur opnun á sýningu á verkum 50 hafnfirskra listamanna, í tilefni af téðu afmæli og aldarfjórðungsafmæli listamiðstöðvarinnar sem apótekarinn Sverrir gaf bænum á sínum tíma. Þar var nánast fullt hús en samt sem áður leit Strandgata þannig út um þrjúleytið þegar ég rölti niðureftir:
Var þessi mynd tekin á aðalgötu bæjar þar sem íbúar eru um 25 þúsund? Já, það er víst. Hvar voru þá íbúarnir? Í Smáralindinni?
En það reyndist vera dálítið mannlíf í þessum bæ þrátt fyrir allt. Í Hafnarborg tók ég þessa mynd:
Þarna eru tveir fimmtugustu af listamönnunum, Góa systir og ýmsir fleiri. Sýningaropnunin var vel heppnuð, hvítvínið ágætt. Sem betur fer breytti Pétrún opnunarsiðunum og hætti að hafa opnanir klukkan fimm á fimmtudögum. Þann tíma sem sá siður var hafður komu fáir af hinum föstu opnunargestum en nú eru þeir farnir að sjást aftur. Þar á meðal mín ágæta vinkona, nú bloggvinkona, Heidi Strand, listakona frá Þrándheimi, og bloggvinurinn Kristbergur úr Hafnarfirði, listmálari og öðlingur. Já, og Adda og Teddi frá Bolungarvík og Siglufirði, vinir frá Noregstíma.
Eins og sést á efri myndinni skein marssólin í dag og við vitum að héðan af hækkar hún á lofti dag frá degi. Þess vegna eigum við að vera bjartsýn en ég get samt ekki að því gert að mér finnst eitthvað að hér í Hafnarfirði. Ég lyfti glasi og kinkaði kolli til Lúðvíks bæjarstjóra en mér fannst hann taka heldur dræmt undir kveðju mína. Getur verið að hann sé svekktur vegna greinarinnar sem ég skrifaði í Moggann um skipulagsslys í Hafnarfirði? Ef hann er það er enn dálítil von. En ef ekki.... Enginn sem ég tala við mælir Norðurbakkaslysinu bót. Og það verður ekki aftur tekið. Líklega telst ég vera óvildarmaður Hafnarfjarðar rétt eins og menntamálaráðherrann telur mig óvildarmann Ríkisútvarpsins vegna þess að ég hef gagnrýnt ýmislegt sem þar hefur verið gert, í nafni Hollvinasamtakanna. Það var rifjað upp í útiskýli Suðurbæjarlaugar í morgun og sá sem það gerði spurði hvaða hugmyndir ráðherrann gerði sér um lýðræðið þegar (hún) telur þann sem hefur aðrar hugmyndir um Ríkisútvarpið en (hún) sjálf sé þess vegna óvildarmaður útvarpsins! Ein skoðun er rétt, hin eina rétta skoðun!
Það er náttúrlega mjög gott að hafa alltaf rétt fyrir sér!
En hvað ætlaði ég nú að segja? Hún yngri dóttir mín, hún Vala, skrifaði athugasemd við blogg mitt á þá leið að þessi köttur, Hallormur, væri eilífur. Hver er Hallormur? Hann var stór partur af lífi mínu. Hann var köttur sem ég fórnaði fyrir frelsi mitt eftir 15 ára sambúð. Um hann skrifaði ég eitt sinn sögu og las í útvarpið. Hann tengir saman tvö fyrri tilverustig mín og kemur kannski við sögu síðar.
Sem stendur er þetta tilvera mín:
Nú er nóg bloggað í bili, líklega of mikið, persónulegra en ég ætlaði. Næst: Um blaðamennsku, lífið og tilveruna. Eða allt þetta í senn.
Bloggar | Breytt 9.3.2008 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.3.2008 | 20:34
Mozart er æði!
Já, ekki bara Mozart heldur líka þær stöllur Arndís Halla Ásgeirsdóttir sópran og Antonía Hevesi píanóleikari. Þær voru frábærar í Hafnarborg í Hafnarfirði í hádeginu í dag.
Á leiðinni heim eftir tónleikana, í sæluvímu og hundslappadrífu, hugsaði ég með mér að fyrst ég væri byrjaður að blogga skyldi ég hafa þetta fyrir frétt dagsins í mínu litla og heldur friðsæla lífi og fór að hugleiða breytta tíma: Nú væri ég kominn með minn eigin miðil þar sem ég væri eigandi, fréttastjóri og blaðamaður (verð að muna eftir að rausa svolítið um það alltsaman og rifja upp það sem Jónas Kristjánsson sagði um daginn). Áður fyrr hafði ég atvinnu af fréttamennsku en nú ræð ég semsagt yfir mínum eigin miðli, ræð sjálfur hvað er frétt og hvað er ekki frétt. En í dag gekk ég raunar beint inn í frétt sem mér hefði þótt fengur í þegar ég annaðist lögreglufréttir á Fréttastofu Útvarps: Ég ætlaði í bakaríið í Firðinum á heimleiðinni og rak þá augun í sjónvarpsmenn og spurði nærstadda hvað væri að gerast. Jú, það hafði verið framið bankarán í Kaupþingi-banka en ræninginn fékk samviskubit og sneri aftur með fenginn, sem var ekki mikill, en gekk þá beint í flasið á löggunni. Vonandi bjargast hann frá glapstigum sínum. Þetta held ég að gæti hvergi gerst nema á Íslandi - og líklega í Færeyjum. Svo yndislega sveitalegt í bestu merkingu þess orðs! Ekkert vesen, enginn terrorismi, bara afslappað, huggulegt, misheppnað bankarán. En hvers vegna þurftu starfsmennirnir áfallahjálp? Ég skil það nú ekki.
En ég var semsé að koma af Mozart-tónleikum og var afskaplega hrifinn af söngkonunni, sem gerði sér lítið fyrir og flutti sem aukalag sjálfa Næturdrottninguna. Ég er svosem enginn óperusérfræðingur en efast ekki um að þetta hafi verið gríðarlega flott, í það minnsta táraðist ég þegar hún Arndís gaf allt í botn á kristaltærum háu nótunum! Og hún Antónía, sem ég held að sé frá Ungverjalandi, kynnti lögin á frábærri íslensku (hefur verið hér frá 1992); það voru lifandi og fræðandi frásagnir. Þær voru góðar saman. Takk fyrir, stúlkur!
Af fréttum dagsins finnst mér athyglisverðust niðurstaða vísindamanna sem hafa verið við rannsóknir við Mývatn og sýnt fram á að kísilgúrverksmiðjan hafi eyðilagt silungastofninn í vatninu og líklega verði ekki unnt að bjarga honum. Margir vöruðu við þessu en Mývetningar eru stoltir og láta ekki segja sér fyrir verkum. Í þessu samhengi er líka athyglisverð fréttin um að lífríkið fyrir neðan stóru stífluna í Grand Canyon sé að deyja vegna þess að set berst ekki niður fyrir hana; þess vegna hleypa þeir núna nokkrum milljónum sekúndulítra framhjá til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Hvað með Lagarfljót og hin náttúrulegu áhrif setsins í Héraðsflóa? Hvenær ætla menn að vitkast og hætta þessu fikti við náttúruna? Líklega seint. En fiktið hefnir sín alltaf að lokum. Leyfið líka kúnum á Egilsstöðum að hafa sína hentisemi! Og kennarar þar eystra: Notið tækifærið til þess að ganga úr skugga um að öll börn á Héraði kunni að beygja orðið kýr!
Önnur athyglisverð frétt var í Útvarpinu og um hana fjallað í þeim ágæta þætti Speglinum: Læknar hafa sýnt fram á að atvinnuleysi eykur tíðni dauðsfalla af hjarta- og æðasjúkdómum. Í okkar þjóðfélagi stafar atvinnuleysi eigi ósjaldan af uppsögnum vegna hagræðingar, sameiningar fyrirtækja og sparnaðar, sem hægrimenn telja óumflýjanlegan þátt í atvinnurekstri. En sú hugsun gengur út frá því að heill fyrirtækisins gangi fyrir öllu og einstaklingunum sé fórnandi fyrir hana. Þetta leiðir hugann almennt að því hvort sé mikilvægara fólkið í byggðunum vítt og breitt um landið eða hluthafarnir sem sitja heima og bíða eftir ávöxtunum af sínu pundi.
Svo er best að gerast persónulegur að lokum, þvert á öll fyrirheit því ég stenst ekki að minnast á marssólina sem hefur lífgað upp á sálartetrið í dag og gær og gefið fyrirheit um að nú stefnir allt í eina átt, til vors og sumars. Þeir lofa norðanátt næstu daga og hún er alltaf góð hér í Hafnarfirði, ekkisíst hér vesturundir hraunkantinum. Alltaf logn í norðanátt! Og nóvemberkaktusinn minn er kominn með knúppa í þriðja sinn þennan veturinn! Lífið gengur sinn gang og vel það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)