Fólk er ekki fífl, Bjarni!

Ágætu bloggvinir.

Eftirfarandi grein skrifaði ég í fyrrinótt og sendi hana rakleitt í Morgunblaði og Fréttablaðið. Nú bíð ég spenntur eftir því hvort hún verður birtí Mbl. - efast ekki um hitt!

En til þess að hún komi fyrir einhverra augu set ég hana hér líka. Manni ofbýður oft málflutningur sjálfstæðismanna þessa dagana. Þeir hafa ekkert lært og viðurkenna ekkert. Ekkert er þeim að kenna! Hún var annars góð grein JBH í blaðinu í dag! 

Álítur formaður Sjálfstæðisflokksins að fólk sé fífl? Svo gæti maður haldið, af skrifum hans í 80 ára afmælisbók flokksins að dæma. Þar varar hann við vaxandi ríkisafskiptum núverandi ríkisstjórnar og svo er að skilja sem landflótti nú um stundir sé af þeim orsökum.

Í vefritinu Pressunni er sagt frá skrifum þessarar mannvitsbrekku: „Hann telur að Sjálfstæðisflokkurinn og ungliðar hans gegni lykilhlutverki við þá endurbyggingu sem framundan er eftir bankahrunið. Ríkisstjórnin sé á góðri leið með að rústa áralangri baráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir minnkandi ríkisafskiptum og meira frelsi einstaklinga og frelsi í viðskiptum. Samhliða hafi lífskjör í landinu batnað verulega.
„Sú vinstristjórn sem nú er við völd telur að allar lausnir á þeim vandamálum sem að okkur steðja megi leysa með auknum ríkisafskiptum á öllum sviðum. Aðgerðir hennar og árorm (svo!) bera öll þess merki og nái þær fram að gagna (svo!) er ljóst að hagsmunum þjóðarinnar er stefnt í hættu.""

Manni fallast hendur. Ætlast formaður Sjálfstæðisflokksins til þess að einhverjir aðrir en SUS-arar, frjálshyggjumenn og aðrir dyggir áhangendur Sjálfstæðisflokksins trúi því að það sem við þurfum nú séu meira frelsi í viðskiptum?

Ég fullyrði að meirihluti þjóðarinnar hafi einmitt fengið nóg af öllu því. Og meirihluti þjóðarinnar veit að það voru „frjálsir einstaklingar og viðskiptamenni" sem rúðu almenning inn að skyrtunni og fengu hann sviptan ærunni. Það hafðist upp úr því að veita þeim fullt frelsi til athafna. Þetta „frelsi" sjálfstæðismanna er nefnilega frelsi hinna fáu til að græða á hinum mörgu. Það hefur sannast núna.

Ég vonaði að eftir hrunið myndu stjórnmálamenn leggja stundarhagsmunina til hliðar meðan verið væri að taka til eftir öll ósköpin sem yfir dundu. En, nei. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þvælst fyrir og þæft málin í nafni lýðræðis en hin raunverulega ástæða var harðvítug valdabarátta.

Og nú hefur sú valdabarátta tekið á sig þá mynd að núverandi ríkisstjórn, sem er að reyna að koma af stað endurreisn efnahagslífsins, er sögð eiga sök á ósköpunum en „hugsjónir" fyrri ríkissstjórnar, sem urðu að lokum orsök hrunsins, séu vænlegastar til endurreisnarinnar.

80 ár eru alveg nógu langur tími, nú mætti fara að leggja Sjálfstæðisflokkinn niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan og þarflegan pistil.

Númi (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 21:07

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvar er hægt að komast í þetta merka afmælisrit? 

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.10.2009 kl. 15:12

3 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Ég veit það satt að segja ekki, Lára Hanna, ég hef aðeins séð umfjöllunina á visir.is.En hún er vafalaust aðgengileg í Valhöll!!!

Þorgrímur Gestsson, 2.10.2009 kl. 21:23

4 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Aafsakið, ég meinti að ég hefði séð þetta í Pressunni.

Þorgrímur Gestsson, 2.10.2009 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband