Stemningin í þjóðfélaginu fer ekki á milli mála

Það sem stendur upp úr eftir borgarafundinn í Háskólabíói í gærkvöldi er hið sama og eftir fundinn í Nasa, nema  enn öflugra: Tilfinningin fyrir því að almenningur á Íslandi hafi tekið höndum saman um að stöðva aðför misviturra stjórnvalda um áratugi að lífi og högum almennings og krafan um að farið verði að tala við okkur eins og vitiborið fólk, ekki börn eða hálfvita. Þar sem ég stóð í mannþrönginni í anddyri bíósins og þekkti aðeins örfáar hræður (þar af voru systir mín, mágur og sonur þeirra) fann ég til einhverra fjölskyldubanda, ég fann fyrir einhverju sem tengdi okkur öll saman. Það örlaði á skilningi hjá mér fyrir því hvað það er að vera af þessari litlu þjóð, vera Íslendingur.

Við höfum fengið nóg!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk of langt þegar hún lýsti því yfir að við (fólkið í salnum) værum ekki fulltrúar þjóðarinnar, það væri hún ekki heldur. Þetta lýsir miklum hroka. Ég hef engan heyrt segja að hann tali fyrir munn allrar þjóðarinnar. Hins vegar hafa margir ræðumenn í ræðum sínum undanfarnar vikur vísað til almenns andrúmslofts í þjóðafélaginu. Það er nauðsynlegt hverjum þeim sem tekur á einhvern hátt í stjórnmálum, að skynja hvað almenningur hugsar. Undanfarið hefur ÞAÐ varla farið framhjá mörgum - nema ef vera kynni sumum alþingismönnum og vísast öllum ráðherrunum. Það fólk virðist ekkert skilja ennþá. Það virðist ekki skilja að almenningur treystir því ekki lengur fyrir landstjórninni. ÞAÐ eru skilaboðin sem hafa verið send af Austurvelli, úr Iðnó og Nasa, síðast frá Háskólabíói en ríkisstjórnin virðist ekkert hafa skilið enn. Skilaboð þúsunda Íslendinga. Það að ráðherrarnir skynja ekki hvað er á seyði í þjóðfélaginu gerir þá óhæfa til starfa sinna. Enn tala þeir um björgunaraðgerðir en almenningur treystir ekki að þær aðgerðir séu EKKI til bjargar peningamönnunum, þeim sem settu okkur á hausinn, embættismönnunum og stjórnmálamönnunum sem skildu ekki allar þær viðvaranir sem þeim voru sendar undanfarin misseri.

 Annars var þetta ráðherralið í Háskólabíói ekki beysið; þar sagði enginn neitt af viti. Einu ráðherrarnir sem hægt er að segja að hafi reynt að klóra í bakkann voru Össur og Þorgerður Katrín. Aðrir voru vandræðalegir í yfirklóri sínu. Þarna voru gömlu plöturnar leiknar enn einu sinni.

En  allir sem tóku til máls um þá tillögu Gunnars Sigurðssonar að almenningur fengi tvo fulltrúa í allar nefndir sem skipaðar verði í tengslum við væntanlegar björgunaraðgerðir og jafnvel til að vera áheyrnarfulltrúar á ríkisstjórnarfundum höfnuðu því ákveðið. Ég spyr hins vegar: Hvernig ætli ráðherrar og alþingismenn hafi brugðist við fyrir einni öld eða svo þegar farið var að hafa orð á því að allur almenningur - og konur - ættu að hafa fullan atkvæðisrétt? Ætli mörgum hafi ekki þótt það fáránleg hugmynd ?

Tilfinningin sem sá sem hér bloggar hefur eftir að hafa staðið upp á endann í tvo tíma og hlýtt á mál manna er  að gjáin milli okkar og stjórnvalda breikkar sífellt; ráðherrarnir þykjast hlusta en heyra ekkert. Þeir hanga á völdunum eins og hundur á roði. Mestum vonbrigðum veldur Ingibjörg Sólrún, sem boðaði fyrir kosningar "viðræðupólitík" en er ekki til viðræðu nú, sem kvartaði fyrir kosningar um yfirgang ríkisstjórnarinnar og algjöran skort á samráði við stjórnarandstöðuna. Nú hefur Samfylkingin skipt um hlutverk við Framsóknarflokkinn og tekur fullan þátt í því með hinum stjórnarflokknum að hundsa hvort heldur sem er stjórnarandstöðuna eða almenning.

En í gærkvöldi þóttist Þorgerður Katrín ætla að tala skýrar hér eftir, hún viðurkenndi að skort hefði á upplýsingagjöf til almennings. Batnandi konu er best að lifa og við bíðum og vonum að nú verði farið að segja okkur hvað standi til og hvað sé að gerast. En það er ekki mikil von. Ég hef sjálfur staðið í því að toga upplýsingar út úr stjórnmálamönnum og veit af biturri reynslu að það getur verið torsótt.

Það þarf varla að taka það fram að ræðumönnum mæltist hver öðrum betur, sérstaklega varð ég hrifinn af verkakonunni sem hreif með sér nærri 2000 fundargesti, sem stóðu upp henni til heiðurs og klöppuðu, þegar hún hafði lokið máli sínu. Frá einum fundarmanna kom tillaga um þjóðstjórn; það held ég að væri eina vitið, og í þeirri þjóðstjórn ætti Þorvaldur Gylfason að sitja. Hann hefur lengi grunað í hvað stefndi, reynt að vara við og hefur þá þekkingu sem dugir til að stjórna björgunarleiðangrinum.

Ég vil bæta hér við leiðréttingu; mér var bent á að Þorvaldur Gylfason gæti aldrei tekið þátt í þjóðstjórn, sem er náttúrlega rétt en mér varð á að blanda þarna saman þjóðstjórn og embættismannastjórn en báðir möguleikar koma til greina. Þorvaldur yrði náttúrlega forsætisráðherra í embættismannastjórn. Líklega væri það líka betri kostur en hitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Það er ekki alvöru lýðræði á Íslandi og forsætisráðherra er farinn að haga sér eins og einræðisherra!

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 26.11.2008 kl. 10:07

2 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Einmitt. Með góðum stuðningi utanríkisráðherra. Í öðrum ráðherrum heyrist ekki og þingð situr með hendur í skauti, nema VG, sem reynir að koma af stað umræðum en fær bara skítkast fyrir. Í dag heyrðist loksins í Samfylkingarþingmönnum sem er farið að lengja eftir nefndinni sem á að rannsaka hvað gerðist. En er það ekki orðið of seint? Öll sönnunargögn farin í pappírstætarana. Og hvar eru fjölmiðlar? Frændur okkar Norðmenn reyna þó að klóra í þetta, sjá nrk.no/brennpunkt fróðleg umfjöllun svo langt sem hún nær. Nú þarf RUV að fara í gang!

Þorgrímur Gestsson, 26.11.2008 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband