Vitið þér enn eða hvað?

Ég get ekki stillt mig um að birta hér tvær klausur úr handriti að sögu Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans, sem ég er að leggja lokahönd á þessar vikurnar. Hverfum til ársins 1995. Hálfur áratugur er liðinn frá svonefndri "þjóðarsátt". Engu að síður, og kannski einmitt þess vegna, þurfti verkalýðshreyfingin að sækja fast launahækkanir til handa þeim lægstlaunuðu. Hér kemur fyrri klausan:

 

"Samkomulag náðist loks aðfaranótt þriðjudagsins 21. febrúar, eftir að ríkisstjórnin kom til móts við verkalýðshreyfinguna með því að 4% framlag launþega í lífeyrissjóð skyldi verða að fullu frádráttarbært til skatts á næstu tveimur árum. Ríkisstjórnin lofaði einnig að leggja fram nokkur hundruð milljónir króna til skuldbreytinga vegna vanskila í húsnæðiskerfinu og að verðtryggðar fjárskuldbindingar skyldu miðast við vísitölu framfærslukostnaðar í stað lánskjaravísitölu. Loks var samið um að lögum um atvinnuleysistryggingar skyldi breytt þannig að unnt yrði að fastráða fiskvinnslufólk. Samið var til ársloka 1996 eða til tæpra tveggja ára og áhersla lögð á krónutöluhækkun launa og tvær almennar hækkanir á samningstímanum; lægstu laun, sem voru undir 60 þúsund krónum, áttu að hækka um 3.700 krónur á mánuði við undirritun en síðan færi hækkunin stiglækkandi upp að 84 þúsund króna launum en öll laun þar fyrir ofan áttu að hækka um 2.700 krónur. Í byrjun árs 1996 áttu laun að hækka aftur, ýmist um krónutölu eða prósentutölu, eftir því hvaða landssamband Alþýðusambandsins átti í hlut."[1]

Seinni klausan er svona:

"Verkfall grunn- og framhaldsskólakennara um allt land skall á föstudaginn 17. febrúar og leysist ekki fyrr en nærri hálfum öðrum mánuði síðar þegar samkomulag náðist um 15% kauphækkun á samningstímanum, nokkru meira en um samdist í hinum almennu kjarasamningum. Eftir það var samið við fleiri hópa opinberra starfsmanna og nokkur félög á almennum vinnumarkaði um meiri hækkanir en verkalýðshreyfingunni hafði tekist að knýja fram fyrir hönd almenns verkafólks og mörgum innan verkalýðshreyfingarinnar fannst það setja allt sem áunnist hafði í kjaramálum undanfarin ár í uppnám.

En í byrjun september féll úrskurður Kjaradóms um launakjör æðstu embættismanna ríkisins í umræðuna eins og sprengja. Samkvæmt honum átti þingfararkaup alþingismanna að hækka um 17 þúsund krónur, úr tæpum 178 þúsund krónum í 195 þúsund, og laun ráðherra um tæp 20%, úr 334 þúsund krónur á mánuði í 350 þúsund krónur. Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambandsins, benti á að ef sú leið hefði verið farin sem flestir þeirra sem þarna fengu hækkanir hefðu mælt með fyrir verkafólk hefðu þeir ekki átt að fá nema 2700 króna hækkun en þeir hefðu hins vegar fengið allt upp í 60 þúsund króna hækkun. „Ég spyr þá sem taka á móti þessu hvernig þeim líður siðferðislega" hafði Morgunblaðið eftir Birni Grétari. Friðrik Sophusson fjármálaráðherra skýrði þessa miklu hækkun með því að dómurinn hefði miðað við árið 1989 en eftir það hefðu þessir hópar ekki fengið allar launahækkanir og launaskrið sem aðrir hefðu notið.[1]

Miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman og ályktaði að þessi úrskurður væri „kjaftshögg fyrir þá jafnlaunastefnu sem reynt hefði verið að fylgja í kjarasamningum ASÍ í febrúar"[2] og Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambandsins, hvatti fólk til þess að leggja niður vinnu daginn eftir og mótmæla þessu. Um tíu þúsund manns brugðust við þessu kalli í Reykjavík og komu til útifundar á Ingólfstorgi og allmargir héldu fundi á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Harðorðar ályktanir voru samþykktar þar sem því var hótað að yrðu ákvarðanir um launahækkanir embættismannanna ekki felldar niður myndi launafólk krefjast sömu kjarabóta við fyrsta tækifæri."[3]

Ég birti þetta áhugasömum til upprifjunar og umhugsunar á þessum síðustu - og verstu - tímum. Það eru 13 ár síðan þetta gerðist en ég er hræddur um að margir hafi gleymt þessari atburðarás. Mótmælin árið 1995 báru engan árangur, launamunur í þjóðfélaginu bara jókst og jókst þar til allt hrundi nú í haust. Vitið þér enn eða hvað?
Bók sú sem þessi texti er úr er væntanleg á næsta ári - og menn athugi að hann er alls ekki fullunninn og að í honum geta leynst alls konar villur og klúður.

[1] Morgunblaðið 9. september 1995, 48 (baksíða).

[2] Morgunblaðið 14. september 1995, baksíða.

[3] Morgunblaðið 15. september 1995, baksíða.

[1] Morgunblaðið 21. febrúar 1995, baksíða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband