9.11.2008 | 16:53
Brenglað fréttamat íslenskra fjölmiðla og dauður orðstír
Fréttamat íslenskra fjölmiðla er stundum skrýtið. Þegar mótmæli um 4000 manna á Austurvelli í gær leystust upp í skrílslæti varð fundurinn sjálfur og það sem það var sagt ekki fréttaefni heldur skrílslætin. Ég hef raunar fulla samúð með þeim fjallagarpi sem kleif upp á þak þinghússins og dró bónusfánann að húni en krakkarnir sem köstuðu jógúrt og eggjum í húsið fóru yfir strikið - en sem betur fer sýndi lögreglan mikla þolinmæði og kom líklega með því í veg fyrir að kæmi til verulegs uppþots. Hörður Torfason lagði áherslu á það í sinni tölu að fundarmenn færu kurteislega fram en auðvitað kemur að því að eitthvað alvarlegt gerist ef ráðherrar og aðrir valdamenn fara ekki að hlusta á þau góðu ráð sem menn eru farnir að gefa á báða bóga en halda ekki áfram í sama gamla spillingarfari kunningja- og fjölskylduþjóðfélagsins.
Loksins var þó sagt nokkuð rétt frá fjölda mótmælenda í íslenskum fjölmiðlum en í fyrstunni létu þeir lögregluna telja þá niður í 500 á fyrsta Austurvallarfundinum BBC sagði hins vegar að þar hefðu verið um 2000 manns! Við sem höfum tekið þátt í þessum mótmælum allt frá því byrjað var að krefjast afsagnar Davíðs á mótmælafundi á Arnarhóli í byrjun október og síðan daglegum mótmælum á Austurvelli í heila viku sáum að erlent fjölmiðlafólk fylgdist með af áhuga. Sjónvarpsmenn og blaðamenn frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og víðar að ræddu við okkur og spurðu hverju við værum að mótmæla. Við lögðum áherslu á að allur almenningur ætti enga sök á því sem gerst hefði og sögðum okkar skoðun á því hverjir sökudólgarnir væru - án þess þó að nefna nokkur nöfn. Ég sagði við einn blaðamanninn að hann gæti bara flett því upp hverjir hefðu átt bankana, hverjir væru í fjármálaeftirlitinu og hver væri bankastjóri Seðlabankans og það væri ekkert leyndarmál hver væri forsætisráðherra, hver fjármálaráðherra, hver viðskiptaráðherra og svo framvegis. En þá hafði orðspor Íslendinga raunar ekki enn horfið endanlega.
Viðbrögð ýmissa við mótmælafundunum sem haldnir hafa verið á Austurvelli undanfarna laugardaga bera þess vitni að langur tími er liðinn frá því mótmæli voru daglegt brauð hér á landi. Reynt hefur verið að gera lítið úr þessu, gera okkur hlægileg. Til að mynda sagðist Einar Kárason rithöfundur í þættinum Í vikulokin á Rás 1 ekki skilja hverju fólki væri að mótmæla, nema ef vera kynni því að þurfa að vera reitt! Hann hefur ekki sést á Austurvelli og ekki hafa fjölmiðlar heldur sagt honum neitt um þessi mótmæli. Og í Fréttablaði dagsins skrifar Davíð Þór Jónsson guðfræðistúdent í Bakþönkum: "Aðrir mótmæltu opinberlega en gátu hvorki komið sér saman um hvar hvenær né hverju." Þarna á hann líklega við okkur Austurvellinga. Ég hef ekki heldur séð hann á Austurvelli og hefði ekki haldið að óreyndu að hann ætti til slíka sleggjudóma.
En örfá orð um þetta ósamkomulag: Þar var einfaldlega á ferðinni kona að nafni Kolfinna Baldvinsdóttir, sem reyndi að notfæra sér þessi mótmæli til þess að láta á sér bera - ætlar kannski í pólitík - en Herði Torfasyni tókst að lempa hana og draga úr því tjóni sem hún olli á orðspori mótmælenda, en engu að síður varð tjónið nokkurt.
Ég vona að mótmælaaldan breiðist út og 20 þúsund manns fari á Austurvöll á laugardaginn kemur. Og í tilefni af öllu þessu vek ég athygli á því að í Mogga dagsins eru fáránlegar auglýsingar þar sem lúxusfatasalar reyna að notfæra sér ástandið til að koma merkjavöru sinni út með fimmtungsafslætti - sem þýðir að aðeins er dregið úr okrinu. Er ekki kominn tími til að Íslendingar snúi baki við herra Hugo Boss og hugsi um eitthvað uppbyggilegra? Einni opnu aftar rekur bílasali nokkur upp heróp og reynir að notfæra sér kreppuna til að selja bíla, sem er náttúrlega heilmikil þversögn, en vissulega er nokkur nauðsyn fyrir bílasala sem eiga óselda bíla í hrönnum á hafnarbakkanum að reyna að koma þeim út: Ótrúlegt opnunartilboð!!! Nú setjum við allt í gang....já hvar? Í þessari ótrúlegu lönguvitleysu sem er risin upp undir Úlfarsfelli en stendur náttúrlega mestmegnis auð og ætti að brjóta niður hið snarasta. Já, og svo er notað þarna hið engilsaxneska orð "outlet", sem kaupmenn eru farnir að nota, líklega vegna einhverrar þjónkunar við hina engilsaxnesku tungu sem á engan rétt á sér hér á landi "latínu norðursins", sem okkur ber skylda til að varðveita eins ómengaða og okkur er unnt.
Að lokum þetta: Hafa þessar línur í Hávamálum nú verið afsannaðar?
- En orðstír
- deyr aldregi
- hveim er sér góðan getur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.