6.11.2008 | 12:18
Eru Björgólfarnir að færa Bretum Ísland á silfurfati?
Ég verð að játa að forsíðufrétt Morgunblaðsins í morgun veldur mér talsverðum kvíða. Hvað rekur embættismenn Evrópusambandsins til að beita okkur þvingunum til að ríkissjóður Íslands, íslenskur almenningur, hreinsi upp ósómann eftir Björgólfana? Þetta er að bíta höfuðið af þeirri skömm sem Björgólfur eldri gerði sig sekan um í Morgunblaðsviðtalinu þegar hann hrósaði sér og syni sínum fyrir að hafa búið til gósentíð á Íslandi með umsvifum sínum en þjóðin klúðrað málunum með því að fara á eitthvert fjárfestingarfyllerí!
Ég heyrði nýverið þá samsæriskenningu að breska ríkisstjórnin viti vel hvað hún var að gera þegar hún greiddi Íslandi höggið. Brown muni hafa ákveðið að fórna hagsmunum okkar til að endurheimta Íslandsmið og koma okkur á vonarvöl. Þetta er sagt eiga að gerast þannig að þegar öll sund verði lokuð muni þeir bjóðast til að fella niður skuldirnar - með því skilyrði að við gefum eftir auðlindir okkar og opnum meðal annars Íslandsmið fyrir breskum sjómönnum. ÞÁ verður klukkunni snúið aftur um hálfa öld eða svo. Síðan kemur að vatninu okkar, en skortur er á hreinu vatni í veröldinni eins og menn vita, og okkar náttúrulegu fallorku.... Ég get ekki hugsað þetta lengra.
Áframhaldið yrði þá að sjálfsögðu að Bretar yrðu að taka okkur undir sinn verndarvæng, með öðrum orðum taka við stjórninni hér. Þá kemur að því sem ég velti fyrir mér í sumar þegar ég dvaldi um hríð í Orkneyjum og á Hjaltlandi, sem er nú kallað Shetland. Þessar eyjar hafa að vísu verið byggðar fólki í þúsundir ára en saga þeirra, sem skráð var á Íslandi snemma á 13. öld, hefst með landnámi Norðmanna þar á níundu og tíundu öld og er að því leyti furðulík okkar fornaldarsögu - og uppruni eyjabúa líkur okkar uppruna.
Norskir jarlar réðu eyjunum í þrjár til fjórar aldir en þá tóku skoskir jarlar við og á sextándu öld tók Skotlandskonungur völdin. Af þessu eru fróðlegar sögur sem ekki verða sagðar hér. En á jarlatímabilinu var töluð Norræna á eyjunum og smám saman þróaðist þar sérstök norræn mállýska sem nefnd er Norn og varð að lúta í lægra haldi fyrir skoskunni en lifði þó í fámennum eyjum allt fram á 19. öld. Nú eru í Eyjum talaðar margar mállýskur skosku, þar sem talsvert hefur varðveist af norrænum orðum, fyrir utan það að flest öll staðarnöfn eiga uppruna sinn í Norrænu en stafsetningin hefur fordjarfast af skoskunni. Athyglisvert er að hugsandi Orkneyingar og Hjaltlendingar líta ekki almennt á sig sem Skota en horfa frekar til austurs og hafa enn þann dag í dag sérstakt samband við Norðmenn. Til merkis um það er að orkneyski fáninn er næstum því eins og sá norski, nema hvíti krossinn er gulur í hinum orkneyska; og hjaltneski fáninn er eins og hvítbláinn sem eitt sinn var notaður hér á landi: Hvítur kross á bláum feldi. Og það fólk sem ég hitti og átti samskipti við tók mér sem norrænum frænda - og ég naut þess að Snorri skrifaði sögu eyjanna.
Orkneyjar og Hjaltland eru nú bresk grund, sem lýtur þeim arma Brown. Ég velti því fyrir mér þegar ég þvældist þarna um hvort staðan hér á landi væri svipuð nú og á þessum gömlu, norsku eyjum, ef Bretar hefðu látið verða af því fyrr á öldum að hernema okkur og gera landið að bresku yfirráðasvæði. Myndum við þá tala íslenska mállýsku af skosku - og kannski lítill minnihluti hina gömlu íslensku?
Og nú hugsa ég: Er það framundan að hrokafullir Bretar, sem halda enn að Bretland sé heimsveldi, kasti eign sinni á þessa eyju og þvingi okkur undir sitt vald? Það gerist náttúrlega varla með vopnavaldi, frekar efnahagslegum þrýstingi. En ef eitthvað slíkt gerist vitum við vel hvar skal leita landráðamanna!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.