5.11.2008 | 13:42
Gefur Obama forseti von?
Það er líklega ágætlega við hæfi að hefja bloggskrif á ný á þeim tímamótum þegar ljóst er að Barack Obama verður næsti forseti Bandaríkjanna. Hlýtur það ekki að vekja von um betri tíma? Í öllu falli fyrir Bandaríkjamenn sem losna nú væntanlega við hið "kristna" hægra-afturhald. Ég segi væntanlega því ekki er sopið kálið þótt.... Góður vinur minn hefur sagt það lengi að verði Obama kosinn verði hann fljótlega skotinn. Við skulum vona ekki. Vonandi boðar þetta hrun hinnar alræmdu ofurfrjálshyggju - það eykur þá von að Alan Greenspan skyldi viðurkenna að hann hafi haft rangt fyrir sér að hluta (hann gekk ekki lengra) þegar hann fullyrti í 40 ár að ekki ætti að trufla hina ósýnilegu hönd markaðarins frjálsa; hann sæi nú að það væri líklega nauðsynlegt að hafa eitthvert eftirlit með henni.
Já, við sjáum það hér heima líka, eins og svo margir hafa bent á að undanförnu. Aðeins Hannes Hólmsteinn og örfáir aðrir halda áfram gamla tuðinu og segja að allt sé þetta að kenna ríkisafskiptum í Bandaríkjunum! Þvílík della.
Eins gott og var að vakna í morgun við fréttirnar að westan brá mér illilega við að lesa forsíðufrétt Morgunblaðsins um 250 manna færanlegt lið héraðslögga, sem kemur yfir þjóðina eins og köld vatnsgusa. Hefur ekki lögregla landsins verið að kvarta undan fámenni og niðurskurði í mannafla? Síðan hvenær lumar dómsmálaráðherra á þessu? Þetta lið á að sinna einhverjum sér verkefnum; þýðir það að fari "of mikill mannfjöldi" niður á Austurvöll á laugardaginn til að halda áfram mótmælum gegn því liði sem leiddi okkur í ógöngur og segist nú ætla að bjarga okkur verði send eins og ein rúta af héraðslöggum til að halda aftur af okkur? Þá er eins líklegt að atburðarásin endi eins og fyrir 59 árum á sama stað!
Ég vona að í stað 2000 manns á laugardaginn var komi minnst 20 þúsund á laugardaginn kemur - kl. 15. Nægu er að mótmæla eins og fyrri daginn. Núna á t.d. að bjarga bankamönnunum sem keyptu hlutabréf, með því að sleppa þeim við að greiða fyrir þau af því að þau eru verðlaus!!! Ég skora á sem flesta að mæta og láta heyra í sér - steyta hnefana, ekki aðeins að klappa! Og hrópa hátt. Þeir verða að heyra í okkur og þeir verða að vita að þjóðin hefur fengið nóg. Ég hef það fyrir satt að stórir hópar kjósenda Sjálfstæðisflokksins streymi nú til annarra flokka, jafnvel Vinstri grænna. Já, ég veit nú varla hvert annað þeir ættu að fara. Auðvitað munu margir kjósa Samfylkinguna. En hún verður að auka trúverðugleika sinn og hætta að vera bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Það gengur ekki að þykjast afsegja Davíð sem seðlabankastjóra en gera það ekki að stjórnarslitaástæðu! Hugur verður að fylgja máli.
Já, loks tók ég aftur upp bloggþráðinn og vona að einhverjir slampist á að lesa þetta (kemst þó víst seint inn á mbl.is!). Ég lofa mínum fáu bloggvinum að reyna að stækka hópinn og skora jafnframt á góða menn sem vilja hleypa mér í sinn bloggvinahóp að setja sig í samband við mig! Nú er mér full alvara að taka þátt í umræðunni - nenni ekki lengur að bíða vikum saman eftir birtingu á greinum í blöðunum.
Athugasemdir
Velkominn Þorgrímur.
María Kristjánsdóttir, 6.11.2008 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.