3.7.2008 | 20:45
Kynþáttamismunun hjá Útlendingastofnun?
Það fauk verulega í mig þegar ég heyrði af brottvísun Kenyamannsins í gær. Þarna er ekkert á ferðinni annað en hreinasta kynþáttahyggja - eða er það almenn útlendingahræðsla? Eða bara mannvonska? Í öllu falli virðist þetta fólk sem þarna vélar um vera hreinustu þverhausar, reglugerðaþverhausar, gjörsneyddir tilfinningu fyrir öðru fólki - öllu heldur fólki af öðrum uppruna en við hér á þessu litla skeri....!
Ég þarf ekki að skýra þetta nánar, allir sem hugsanlega lesa þetta vita fullvel um hvað það snýst (þeir verða líklega ekki svo margir vegna þess hve latur ég hef verið - eða upptekinn - að undanförnu og menn hafa skiljanlega gefist upp á að fara inn á þessa síðu!). Það ljóta í þessum flóttamannamálum hér er að nánast aldrei er lotið svo lágt að hlusta á rök fólks fyrir umsókn um hæli, öllum umsóknum hafnað og fólkinu vísað til síðasta viðkomustaðar, sem er vitanlega löglegt - en siðlaust að mínu mati. Það minnsta sem menn geta gert er að tala við lögmann viðkomandi, það er ekki nóg að segja að hann (hún) geti sagt sár sjálf(ur) hvernig málið er í pottinn búið. Og eiginkonan og kornabarnið eru skilin eftir, þeirra mál verður afgreitt síðar - þegar þessum háu herrum þóknast, væntanlega. Hefur barnið annars engan rétt, fætt hér á landi? Það ber það væntanlega alla ævi: Born in Iceland!
Var ekki maðurinn skiptinemi hér? Vann hann ekki við barnahjálp í Kenýa, sem íslenska ríkið styrkti? Jú, en maðurinn er svartur. Fyrirgefið: þetta er fasismi - eða heitir það rasismi? Sama er, hvort tveggja jafnslæmt.
Fyrir mér er þetta enn alvarlegra vegna þess að sjálfur kom ég allnærri máli fyrir nokkrum árum sem snerist um atvinnuleyfi manns frá annarri heimsálfu, sem hefði átt að fá sér vinnu fyrst og sækja um atvinnuleyfi áður en hann kom hingað. Þá hét þetta útlendingaeftirlit og vegna þess að ég þekki fólk í stjórnkerfinu tókst mér að fá atvinnuleyfið í gegn - þvert gegn öllum lögum og reglum, mætti skilningi og greiðasemi. En munurinn er sá að sá maður sem þar um ræddi er hvítur. Þessi er svartur. Þetta tel ég vera rasisma þar til annað verður sannað! - Ég tek fram að sá maður sem þarna var á ferðinni reyndist hinn nýtasti þjóðfélagsþegn, fjölgaði þjóðinni og talar ágæta íslensku.
Þetta er sterk endurkoma mín í bloggheima og vonandi rekur einhver augun í þetta (ég lofa vinum mínum að fara að koma mér upp dálitlum bloggvinahópi!)
Athugasemdir
Síðasta mótmælafundur er í Skuggasundi á morgun kl. 12
Heidi Strand, 9.7.2008 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.