Opið bréf til málfarsráðunautar

Ég sendi stundum Aðalsteini Davíðssyni, málfarasráðunaut Ríkisútvarpsins, línu um eitt og annað sem ber fyrir eyru mín í þeim ágæta miðli. Því miður fer of mikið af klúðri í loftið - og á vef RÚV. Aðalsteinn hefur tekið ábendingum mínum, eins og margra annarra, sjálfsagt, með þökkum og hefur þann ágæta ávana að svara ætíð bréfum mínum. Það merkir vitanlega að hann fær fleiri ábendingar, sem hann segir að hjálpi sér í baráttunni innanhúss.

Hér sendi ég eina frétt með furúlegum málfarslegum villum og eina dagskrárkynningu sem ég fann fyrir tilviljun og að auki fáein dæmi um leiðindafyrirbæri í ensku sem nefnt er "glutter" í ágætri bók sem ég keypti í Washington fyrir margt löngu og sýnir að ýmsar málfarsvillur eru ekki bundnar við eitt tungumál.

Hvað finnst mönnum um þetta?

Rvík: Slys í slippnum

Maður brenndist nokkuð við vinnu í slipp Stálsmiðjunnar við Mýrargötu í Reykjavík rétt fyrir klukkan sex í kvöld. Iðnaðarmenn voru að gera gat á skipsbotn með brennara en fyrir slysni kveiknaði í olíu og við það kom mikill blossi framan í manninn. Hann var vel búinn en brenndist. Hann var fluttur á sjúkrahús.
....var ekki eldur í þessum blossa?
Þessa dagskrárkynningu fann ég líka þegar ég leitaði að kveiknaði:
06.02.2008
Atli, Finnur, Hilmar og DJ Platurn
Atli Örvarsson tónskáld í Los Angeles segir frá tónlist sem hann hefur verið að vinna að síðustu þrjá mánuði við myndina Babylon A.D með kappanum Vin Diesel, Andrea hittir fyrir kvikmyndagerðarkonu sem er að gera heimildarmynd um plötusnúðinn DJ Platurn, sem hefur getið sér gott orð í Bandaríkjunum. Ásgrímur fjallar um indverska mynd um ofbeldi gegn konum og hvernig hugmyndin að myndinni kveiknaði og Elsa María hittir fyrir Finn Arnar leikmyndahönnuð og Hilmar Jónsson leikstjóra, í tilefni af nýjustu sýningu Hafnarfjarðarleikhússins á Höllu og Kára, eftir Hávar Sigurjónsson. 
Það verður farið milli ólíkra heima í þættinum í kvöld, Hafnarfjarðarleikhúsið, Hollywood og indversk bíómynd sem varð til í Kópavoginum.
Svo lofaði ég að senda þér dæmi um "flækjumálfar" í ensku og tek fáein dæmi úr bók sem heitir On writing well eftir William Zinsser, sem var háskólakennari í ensku í Yale þegar bókin kom út, 1988. Niðurstaða mín eftir að hafa lesið bókina (fyrir margt löngu) er sú að margt af því sama hrjáir íslenska tungu og þessum höfundi finnst hrjá enska tungu - vandamálin eru sameiginleg, þvert á tungumál! Zinsser helgar einn kafla því sem hann nefnir clutter og ég hef þýtt með hröngl, orðahröngl. Höfundurinn líkir baráttunni við orðahrönglið  við barátttuna við illgresi, ný afbrigði skjóti rótum að nóttu og um miðjan dag sé það orðið hluti af amerískri orðræðu. John Dean sem var einn af ráðgjöfum Nixons forseta segir hann að hann hafi sett nýtt met í þessu þegar hann notaði eitt sinn í þeim frægu Watergate-yfirheyrslum orðalagið "at this point of time" þar sem "now" hefði dugað hreint ágætlega. Kannast ekki einhver við "á þessum tímapunkti"? Á ensku er þetta 400% orðabólga en þó ekki nema 300% orðabólga á  íslensku!
Raunar segir hann að fólk hafi verið mikið til hætt að nota now áður en Dean vann sitt afrek: At present time, currently, presently hafði þegar leyst orðið nokkru að leyti af hólmi. Og hann fullyrðir að tannlæknir myndi spyrja sjúkling hvort hann "is experiencing any pain" en börnin sín eftir sem áður "does it hurt?" Hvernig mætti yfirfæra þetta á íslensku?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband