Ég sagði þetta alltaf!

  

Síðustu kvöldin hafa verið dálítið undarleg og skrítin, í það minnsta óvenjuleg; hjá mér hafa þau liðið í meiri rólegheitum en ég á að venjast þótt flest kvöld í mínu lífi séu fremur róleg. En þetta hafa verið meiri rólegheit en ég hef átt að venjast um langt skeið, hugsanlega frá því hætt var að gefa Ríkissjónvarpinu frí í júlímánuði fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna. Já, munurinn á undanförnum kvöldum er sá að ég hef ekki kveikt á sjónvarpinu fyrr en í fyrsta lagi rétt fyrir klukkan tíu.

Í fyrstunni hélt ég að ég væri óánægður með að Sjónvarpið sýnir um þessar mundir óáhugaverðan fótbolta allt kvöldið, á besta sýningartíma, endalausa leiki, upphitun og samantekt og hefur gefið Kastljósi hálfsmánaðar frí. En smám saman komst ég að þessari niðurstöðu: Aðalfréttatími Sjónvarpsins ætti ekki að vera fyrr en klukkan tíu. Kannski klukkan níu. Raunar er ég ekki viss um hvort ég held uppteknum hætti eftir HM og sest við kassann klukkan sjö til þess að horfa á sjónvarpsfréttir. Eða klukkan tíu; þó frekar það. Ég get vel verið án þeirra – og Kastljóss. Sjónvarpsleysið í kvöld þýddi meðal annars að ég heyrði frábæra kvöldstund með bassasöngvaranum Poul Robeson sem ég hefði líklega misst af ella. Eða hvað?

Ég hef hins vegar haldið þeirri venju minni að hlusta á Útvarpsfréttir klukkan 18 – og Spegilinn sem hefst að þeim loknum, eitthvert besta og snarpasta útvarpsefnið sem sent er út á landi hér. Í framhaldi af Spegli kvöldsins fór ég að hugleiða að svo virðist sem ég hafi haft aldeilis rétt fyrir mér í tveimur mikilsverðum málum síðustu missera:

Ég var einn þeirra sem tóku mark á fréttamönnum og öðrum sem fullyrtu að innrásin í Írak væri byggð á falsrökum og var jafnframt einn þeirra sem báðust afsökunar á afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli í auglýsingu í bandaríska stórblaðinu New York Times. Ég minnist þess að íslenskir ráðherrar sögðu með fyrirlitningartóni að þetta væri tómur rógburður, engin ástæða væri til að taka mark á þessum óstaðfesta orðrómi. Þarf ég að nefna nöfn? Þarf ég að segja: Valgerður, þarf ég að segja Halldór eða Davíð eða Björn? Einn íslenskur fyrrum stjórnmálamaður hefur haft kjark til að viðurkenna að hann hafi látið blekkjast: Jón Baldvin Hannibalsson. Hann er maður að meiri. Nú held ég að allir skynsamir menn viðurkenni að Bush fari frá völdum næsta vetur rúinn trausti og hvílíkt fífl hann er. Ég get ekki kallað hann annað. Ekkert hefur áunnist með innrásinni, þvert á móti hefur ástandi versnað og það fjarar hratt undan bandaríska stórveldinu.

Og í kvöld kom enn ein staðfestingin á þessu: Fálmandi, hikandi og hálfstamandi Bush reynir að deila við dómarann og hótar að breyta þeim lögum sem hæstiréttur vísar til í dómi sínum um að Kvantanamó-fangelsið sé ólöglegt - andstætt því sem á að tíðkast í réttarríki. Vonandi nær Obama kjöri í haust og tekst að bjarga því sem bjargað verður - hæfileg vinstrihugsun er hið eina sem dugir til þess að rétta kolrangan kúrs Bandaríkjamanna.

 

Ég vissi líka mætavel að hin svonefnda útrás íslenskra fjárglæframanna myndi fara illa. Hlutabréfaverð gat ekki hækkað endalaust, það hlaut að ná hámarki og hrapa aftur. Enda fór svo. Það sem verra er: Hinir íslensku fjárglæframenn sem höfðu ekki hemil á sér heldur héldu áfram og áfram og áfram hlutu illt orðspor, og Íslendingar almennt í leiðinni.

Ekki ætla ég að kenna þeim alfarið um hvernig fór. Þar hafa náttúrlega mikil áhrif líka afleiðingar þess að fleiri fjárglæframenn en íslenskir hafa spilað rassinn úr buxunum og ekki bera þeir beint ábyrgð á hækkun olíuverðs. En óbeint. Allt þetta ber nefnilega að sama brunni: Alheims nýfrjálshyggjan er farin að sýna sitt rétta andlit, frelsi hinna ríku, einstaklingshyggja hinum ríku til handa. Við, almenningur, venjulegt fólk sem vinnum fyrir okkar daglega brauði í sveita okkar andlitis megum eiga okkur. Frelsið er ekki fyrir okkur. Vonandi fá hannesar heimsins verðuga ráðningu, vonandi ná skynsamir menn yfirhendinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband