Grunnhygginn og illa upplýstur bæjarstjóri fyrir vestan

ÉG er dálítið undrandi á starfsmönnum fyrrum vinnustaðar míns, Fréttastofu Útvarps. Þeir hafa útvarpað furðulegum ummælum bæjarstjóra nokkurs fyrir vestan í það minnsta tvisvar þar sem hann heldur því fram blákalt að engin ástæða sé til að ætla að olíuhreinsistöð í landi Hvestu í Arnarfirði fái ekki að menga eins og hver vill því Kyoto-samningurinn verði útrunninn þegar hún taki til starfa!

Annað hvort eru þetta orð grunnhyggins manns eða furðu hrokafulls og bíræfins. Eins og Árni Finnsson náttúruverndarmaður hefur sagt tekur að sjálfsögðu við nýr samningur um takmörkun á útblæstri verksmiðja þegar Kyoto-samningnum sleppir og þar verður útblástur vafalaust ekki tekinn linari tökum en nú er gert, sjálfsagt margfalt fastari. Eða býst bæjarstjórinn við að umræðan um heimshlýnun muni fjara út og menn halda áfram að sleppa ómældum koltvísýringi út í andrúmsloftið? Eða býst hann við að í ljós komi á næstunni að þetta með heimshlýnun af mannavöldum sé eintóm vitleysa eins og Hannes Hólmsteinn segir?

Annað er að maðurinn virðist ekki hafa grundvallarhugtök í þessum efnum á valdi sínu. Hann segir að menn séu að tala um mengun en koltvísýringur sé ekki mengun - mengun sé það sem fái fólk til þess að hósta. Svo fór hann að þrugla eins og barn um að engin rök séu færð gegn olíuhreinsistöðinni, menn segi bara afþvíbara....! Á morgunvakt Rásar 1 í morgun komst hann upp með þvílíkan kjaftavaðal að mér finnst ástæða til að gera alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð að sleppa þessu út á öldur ljósvakans án þess að gera minnstu tilraun til þess að fá manninn til að skýra mál sitt betur en með þessum furðulegu fullyrðingum. Hann komst upp með að fullyrða að allt tal um mengunarhættu frá olíuhreinsistöð sé vitleysa, engin mengun komi frá verksmiðjum sem þessari!!! Heyr á endemi. Það þarf ekki annað en einn skipsskaða og ein af bestu fiskimiðum heimsins og fagrar fjörur verða í stórhættu.

Og hvers konar fyrirtæki er þetta sem vill reisa þessa verksmiðju? Það fæst ekki upp gefið sem bendir til að þar sé eitthvað málum blandið! Vilja Íslendingar fá hingað fyrirtæki sem er undir hælnum á Pútín?

 Að lokum um þetta í bili: Heldur bæjarstjórinn að 500 Vestfirðingar muni ráða sig í vinnu í þessari verksmiðju og aka daglega í Arnarfjörðinn hver frá sínu heimili, kannski nokkur hundruð kílómetra? Eða verða reistar vinnubúðir í Arnarfirði? Verða það kannski Pólverjar eða Lettar eða einhverra annarra þjóða menn sem ráða sig til vinnu þarna, með allri virðingu fyrir því fólki? Heldur bæjarstjórinn virkilega að þessi stöð muni leysa vanda Vestfirðinga? Hefur hann ekki fylgst með árangri því hvaða árangur það hefur borið fyrir Austfirðinga að álver var reist við Reyðarfjörð? Kannski verður það þó atvinnuskapandi fyrir fræðimenn hjá Fræðasetrinu á Ísafirði að rannsaka þau félagslegu vandamál sem eiga eftir að skapast þegar 500 manns hreiðra um sig í Arnarfirði - flest útlendingar - jafnvel þótt það yrðu Íslendingar.

Tölum ekki um eyðileggingu á fögrum firði. Ekki að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Góður pistill, þú ættir að fara með hann lengra...

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 5.6.2008 kl. 22:10

2 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Firna góður pistill frá þér Þorgrímur, eins og allir þeir fyrri. Farðu nú að öngla þér inn fleiri bloggvinum, annars ertu aðeins eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Ég er búinn að segja þér þetta áður.

Kristbergur O Pétursson, 5.6.2008 kl. 22:16

3 identicon

Takk fyrir, bæði tvö. En í minni eyðimörk hafa þó 1458 haft viðdvöl, aðeins þið tvö þó til þessa í morgun. Já, ég hef alltaf ætlað mér að koma mér upp fleiri bloggvinum en lítið orðið úr framkvæmdum - fer að drífa í því!

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 10:15

4 Smámynd: Heidi Strand

Det er en veldig godt skrevet artikkel. Takk for dette.

Utrolig hva folk sier eller ikke sier om denne miljøskanale som er planlagt.

Den ene dag snakker folk om ren og uspilt natur og den neste dg holder de ikke vannet for slikt griseri som et oljerafferni er. Det er som ingen bryr seg om de sosiale konsekvensene som dette medfører.

Heidi Strand, 11.6.2008 kl. 20:57

5 identicon

Takk fyrir kommentið, Heidi. Ég gleymdi að minnast á þessa furðulegu útskýringu bæjarstjórans á útblæstrinum frá þessari fyrirhuguðu stöð - hann sagði það tóma vitleysu að CO2 útblástur væri mengun: mengun sagði hann að væri svona útblásturs sem fengi mann til þess að hósta! Er maðurinn fíbbbbl?

Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband