31.5.2008 | 16:22
Hafnarfjörður 100 ára
Við Hafnfirðingar óskum okkur til hamingju með daginn. Kaupstaður i eina öld!
Í upphafi bloggtíðar minnar setti ég inn mynd sem tekin var á Strandgötu, aðalgötu bæjarins, á laugardegi. Þar sést ekki sála á ferð. Nú er enn laugardagur en aldarafmæli kaupstaðarins og gatan troðfull af fólki. Það væri kannski heldur mikið ef þetta væri hið venjulega - en svona helmingi færra fólk á Strandgötu á venjulegum laugardagseftirmiðdegi væri svona takk bærilegt! Skyldi það verða þegar blokkirnar á Norðurbakkanum eru verða allar setnar fólki, þegar allar íbúðirnar í öllum hinum nýju húsunum sem eru í byggingu, öllum húsunum sem hafa staðið að hluta til auð í nokkur ár hafa loksins selst?
Við vonum það. En einhvern veginn efast ég. Fólk er allt of upptekið af því að komast auðveldlega í smárakringlulindirnar.
Að lokum vil ég láta þess getið að tölvan fraus nokkrum sinnum á meðan ég var að setja þessar myndir inn og ég hélt að það hefði mistekist svo ég reyndi aftur en sá þá að inn fóru tvö eintök af annarri myndinni! Það gengur bara betur næst. Þó er það ekki víst - ég reyndi nefnilega að henda annarri myndinni út en fann ekki aðferðina til þess!
Athugasemdir
Það var gaman að ganga um miðbæinn í gær og það verður örugglega margt um manninn í dag líka enda horfir ágætlega með veður. En það eru ekki alltaf stórhátíðir í Hafnarfirði og miðbærinn er draugalegur um allar helgar. Kannski er Strandgatan eina aðalgata í heimi þar sem er enginn söluturn. Þegar bæjarbúar voru tíu þúsund manns, sirka 1970, voru þrjár eða fjórar sjoppur við Strandgötu, Hafnarkaffi við Vesturgötu. Siffusjoppa á horninu á Reykjavíkurvegi og Kirkjuvegi. Ég var aldrei mikill sjoppuhangsari en það var gaman að kíkja inn og fá sér kók og prinspóló, hitta kunningjana og una sér um stund í sjoppulágmenningunni með jafnöldrum og öðrum bæjarbúum.
Kristbergur O Pétursson, 1.6.2008 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.