19.5.2008 | 00:17
Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi
Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg mitt hafði ég ekki trú á að margir myndu lesa það. En ég hafði rangt fyrir mér því rúmlega þúsund manns hafa ratað inn á síðuna frá því snemma í apríl! Auðvitað hafa ekki allir lesið þetta litla sem ég hef skrifað og örfáir hafa gert athugasemdir. Þó gerðu tveir athugasemdir við skrif mín um Taser-byssur og lögregluna, annar lýsti sig sammála mér en hinn, sem nefnir sig Ragnar S., er algjörlega ósammála og telur að lögreglunni sé nauðsyn á slíkum vopnum, bendir auk þess á að óháðar rannsóknastofnanir hafi sýnt fram á skaðleysi þeirra. Ekki skal ég mótmæla slíkum rannsóknaniðurstöðum en er hins vegar enn á þeirri skoðun að ég treysti ekki íslenskum lögreglumönnum - né lögreglumönnum yfirleitt - til þess að gæta hófs við notkun vopnanna eins og viðbrögð lögreglunnar við Rauðavatn á dögunum afhjúpaði svo rækilega. Dæmin um ofsafengin viðbrögð lögreglunnar að óþörfu eru of mörg í gegnum tíðina. Íslenskir lögregluforingjar mættu hugleiða þau hófstilltu viðbrögð lögreglunnar í París í maí 1968, undir stjórn manns sem nú er virðulegur öldungur og er þakkað það að ekki fór verr en raunin var. Ég man eftir öðru slíku tilfelli í Osló fyrir um 30 árum. Nokkrum sinnum höfðu orðið óeirðir í grennd við konungshöllina, á svonefndu Nisseberg, sem voru raktar til æsingamanna úr röðum nýnasista sem æstu upp harða vinstrimenn, kommúnista, Maóista og fleira fólk sem var áberandi á þeim árum. Eitt kvöldið var rólegheita varðstjóri á vakt og ég fylgdist með því í beinni útvarpssendingu hvernig hann talaði liðið til, vinstrimennirnir slöppuðu af en nýnasistarnir laumuðust burt með skottið á milli fótanna.
Ég held að í þessu efni gildi það sama og í samskiptum milli þjóða, að vopnavald leysir ekkert, gerir bara illt verra eins og spriklið í Bush þessi misserin sýnir best. Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Já, ekki gleyma Ísrael.
Lögreglan talar um að þeir þurfi að verja hendur sínar og vísar til árásar fóla nokkurra á lögreglumenn við skyldustörf fyrir nokkru - já, þeir segja að slíkt fari vaxandi. Í fyrsta lagi hélt ég að lögreglumenn væru sérstaklega þjálfaðir í að yfirbuga óða menn og í öðru lagi held ég að þurfi að byrja á dómurunum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að mjög furðulegri niðurstöðu í þessu máli þar sem honum þótti löggan ekki hafa gert nægilega vel grein fyrir sér - þótt þeir sýndu lögregluskírteini og væru girtir belti með handjárnum og með talstöðvar í höndum! Og auðvitað eiga þung viðurlög að liggja við árás á lögreglumenn við störf.
Annars langar mig í þessu sambandi til þess að hvetja fólk til að hlusta á leikrit Guðmundar Kambans, Marmara, sem Útvarpsleikhúsið flytur um þessar mundir á sunnudagseftirmiðdögum, en þar er ansi hreint djúp pæling um réttvísina - henni eiginlega snúið á haus til þess að reyna að kryfja hana til mergjar.
Bloggið er vafalaust merkt fyrirbæri og trúlega mikilvægt lýðræðinu. Hver og einn bloggari ræður yfir sínum eigin fjölmiðli og getur komið sér upp nokkuð stórum lesendahópi - og eigum við að segja "samræðuhópi"? Hér getur almenningur fengið rödd og tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri án þess að þurfa að bíða margar vikur eftir plássi fyrir grein í Mogganum eða Fréttablaðinu - þar eru lesendurnir raunar fleiri en biðtíminn oft svo langur að málefnið sem til umræðu er oft úrelt orðið loks þegar greinin birtist. En ég viðurkenni að ég er ekki alltaf upplagður til að skrifa "gáfulega" um mikilvæg málefni að loknum vinnudegi fyrir framan skjáinn; ég vinn þessa mánuðina í spreng við að ljúka handriti fyrir mitt sumar og er ekki alltaf upplagður til að blogga seint á kvöldin. Það er þá helst seint á sunnudagkvöldi eftir hvíldarhelgi eins og núna.
En ég vil að lokum þakka fréttastofu Sjónvarpsins fyrir að vekja athygli á því furðulega framferði starfsmanna hjá Reykjavíkurborg að losa sig við olíumengaðan jarðveg upp á heiðina þarna við Reynisvatn, hvað sem hún heitir, og eyðileggja þúsundir trjáa. Það er eins og fávitar séu þarna á ferðinni! Og ég vona að fréttamenn vaki yfir skipulaginu á Hólmsheiði þar sem gert er ráð fyrir að rústa gömlu skógræktarsvæði. Hvernig er það annars, er það ekki einmitt þarna sem talað er um nýjan flugvöll? Á að byggja íbúðarhús þarna fyrst, setja svo niður flugvöll? Og í öllum bænum ekki láta trjástuld Kópavogsmanna í Heiðmörkinni gleymast! Hvernig lyktaði því máli?
Athugasemdir
Þú kemur inn á fjölda mála. Varðandi bloggið þá er eg einn þeirra mörgu sem tóku það fegins hendi. Í meira en aldarfjórðung hefi eg látið frá mér fara greinar í fjölmiðla um hin mörgu óaðskildu efni, allt frá vangaveltum hins daglega lífs til háleitnari hugsana um farsæla framtíð okkar í viðsjárverðum heimi. En alltaf hefi eg kappkostað að vera með báðar fætur á jörðinni enda ekki annað unnt ef maður hyggst ekki svífa um heiminn eins og dúnhnoðri.
Á heimasíðuna mína, Mosi, hafa litið inn allt að hátt í 800 lesendur sem gjarnan veilja skoða hvað þessi mosfellski sérvitringur er að pára. Kannski það sé betri árangur þegar öll kurl eru dregin til grafar og öllu á botninn hvolft en ef þessar glósur væru prentaðar upp á gamla móðinn í fjölmiðlum.
Þú nefnir eina vegtyllu: formennsku í Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins. Kannski þú gleymir því að bækurnar þínar eru prýðisgóðar, þú hefur náð mjög góðum árangri á þeim vettvangi og vonandi ertu með sitthvað meira á prjónunum, margt sem getur orðið öðrum til alvarlegrar íhugunar og eftirbreytni.
Með bestu kveðjum
Mosi (formannsnefna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar)
Guðjón Sigþór Jensson, 27.5.2008 kl. 08:22
Þakka hlýleg orð í minn garð - já, þannig er Mosanafnið til komið! Annars get ég frætt þig á því að eftir að ég hef lokið við næstu pöntuðu bók (saltígrautinnvinna!) tek ég væntanlega til við bók sem verður eins konar framhald á bókinni um fornar sögur í Noregi.
Þorgrímur Gestsson, 27.5.2008 kl. 22:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.