18.4.2008 | 22:49
Stöndum vörð um Hallargarðinn!
Á þessum síðustu tímum þegar góðærið og stöðugleikinn eru í andarslitrunum, verðbólgupúkinn bíður glottandi á næsta horni, verktakarnir ríghalda í hrörnandi húskumbalda í gamla bænum og nýríkir útrásarmenn hafa stórskaðað álit umheimsins á Íslendingum almennt, já þá biður einn þessara auðmanna um að fá keyptan einn af almenningsgörðum miðborgarinnar. Og meiri hluti borgarstjórnar vill lúffa fyrir þessum peningamönnum, jafnvel borgarstjórinn sem hangir á völdunum hvað sem það kostar þótt hann hafi lýst yfir því áður en hann komst til valda að hann myndi aldrei samþykkja það. Eða það hef ég fyrir satt.
Í ár eru 30 ár frá því haldin var samkeppni arkitekta um útlit nýrrar seðlabankabyggingar sem var ætlaður staður á lóðinni nr. 11 við Fríkirkjuveg. Seðlabankamenn tóku fram af gefnu tilefni að vildi einhver að húsið yrði varðveitt myndu þeir af góðmennsku sinni og höfðingsskap sjá um að flytja það á nýjan stað.
En Reykvíkingum var nóg boðið. Safnað var undirskriftum þar sem öllum þessum fyrirætlunum var mótmælt og einn þeirra sem skrifuðu undir mótmælin var Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður og Fríkirkjuvegur 11 stendur enn, sem betur fer. Húsið hefur hins vegar staðið autt í um það bil ár vegna þess að borgarfulltrúar í minni hlutanum hafa spyrnt við fótum og reyna að fá embættismenn borgarinnar til þess að fara að settum reglum í stað þess að afhenda afkomendum Thors Jensens húsið á silfurfati.
En sala hússins er ekki það eina sem stendur til. Þeir sem vilja kaupa hyggjast breyta garðinum við húsið, sem hefur um áratugi gengið undir nafninu Hallargarður vegna þess að bindindishreyfingin átti húsið áður fyrr og það var kallað Bindindishöllin. Þeir vilja breyta honum þannig að unnt sé að renna þangað inn limosínum , "tiginna gesta" án þess að skilgreint hafi verið hvað það hugtak þýðir í þessu tilfelli og vilja fá leyfi til þess að loka garðinum með lögregluvaldi þegar þessa tignu gesti ber að garði.
Dálítill hópur fólks sem finnst þetta vera mjög varhugavert hittist í dag og ákvað að halda kynningarfund í sjálfum Hallargarðinum klukkan 13 á sunnudaginn og stofna í framhaldi af því hollvinasamtök Hallargarðsins, endurtaka leikinn frá 1968 og veita þessum fyrirætlunum harða mótspyrnu.
Ég álpaðist á þennan fund með þeim afleiðingum að ég var gerður að fundarstjóra, þrátt fyrir að ég benti vinsamlegast á að ég kynni ekki fundarstjórn. Það verður þá bara að hafa það - mér finnst þetta svo mikilvægt prinsippmál að svoleiðis smámunir mega ekki þvælast fyrir manni. Almennir borgarar Reykjavíkur (og fleiri, sjálfur er ég orðinn Hafnfirðingur) verða að taka höndum saman og stöðva framrás útrásarmannanna, stöðva landvinninga þeirra í borginni okkar, koma í veg fyrir að þeir fái yfirráðarétt undir lögregluvernd yfir einum af almenningsgörðum borgarinnar. Þetta bætist við þann yfirgang auðmannanna sem þeir hafa sýnt undanfarin ár með því að valta
yfir gömlu Reykjavík, rífa hvert húsið af öðru og reisa steingelta og andstyggilega íbúðaturna, gera meðal annars Skuggahverfið að sannkölluðu skuggahverfi og yfirleitt leika borgina þannig að útlendingar spyrja agndofa hvort borgin hafi farið illa út úr loftárásum í stríðinu.
Við sem vorum skipuð í undirbúningsnefnd þessarar félagsstofnunar ætlum að ráða ráðum okkar á morgun og reyna að halda fjölmennan fund fyrir framan Fríkirkjuveg 11 - ung baráttukona sem ég held að sé í Kvennó talaði um að virkja ungt fólk til að grilla og stjórna leikjum - og ætlunin var að fá að skoða húsið innan en það virðist ætla að bregðast því skömmu eftir að Hrólfur Jónsson sviðsstjóri (eða eitthvað svoleiðis) hjá borginni hafði samþykkt það hringdi hann og sagði að því miður væri það ekki mögulegt. Við hvað eru þeir hræddir?
Sjáumst í Hallargarðinum, fyrir framan Fríkirkjuveg 11, klukkan 13 á sunnudaginn (með regnhlíf ef rignir)!
Athugasemdir
Eru þessir gestir of góðir til að labba sjálfir yfir garðinn? Hvers lags snobb eru þetta? Fullfrískir gestir sem eru of góðir til að labba fáeina metra?
Eða er þetta af því þeir vilja ekki þurfa að vingast við venjulega íslendinga? Of góðir í það?
Ég myndi nú ekki vera að setja mig upp á móti neinu ef þeir væru að bæta fatlaaðstöðu, sem mætti ætla að réttlætti einhverjar aðkomubreytingar á sögulegum garði landsins. En svona hégómi er að kaffæra allri skynsemi.
Ólafur Þórðarson, 23.4.2008 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.