20.3.2008 | 11:57
Æstar löggur, banaslys og kínverska sendiráðið
Ég lenti í þeirri miður skemmtilegu aðstöðu í gærdag að þurfa að bíða við Álftanesvegamótin meðan lögregla og sjúkralið athöfnuðu sig uppi á Reykjavíkurvegi þar sem kona hafði farist í bílslysi. En ég hafði náttúrlega ekki hugmynd um það þegar ég var á leið úr Nóatúni og hugðist fara mína leið vestur Reykjavíkurveg. Á gatnamótunum tók á móti mér lögreglumaður sem virtist vera gjörsamlega hamslaus af bræði, hann pataði út í loftið og virtist öskra af öllum lífs og sálarkröftum. Í fyrstunni skildi ég ekki hvað var að gerast og stoppaði fyrir aftan næsta bíl, komst ekki framhjá honum, en löggan kom æðandi, ég skrúfaði niður rúðuna og heyrði að hann æpti á mig að halda áfram - halda áfram.....Ég bakkaði og gat mismunað bílnum út í kant, steig út og hrópaði til löggunnar að hann ætti ekki að vera svona grimmilegur eða hvað væri að gerast. Svipurinn mildaðist dálítið og hann sagði að gatan yrði að vera opin fyrir sjúkrabíl sem væri á leiðinni og smám saman fékk ég út úr honum að alvarlegt umferðarslys hefði orðið. Ég sætti mig við þetta og beið á meðan sjúkrabíllinn kom og fór aftur drykklangri stund síðar, væntanlega með þessa ólánssömu konu og ég sá þegar ég kom nær að bíl hennar hafði hreinlega verið sópað upp á miðeyju af stórum jeppa, sem virðist hafa farið allhratt þarna á 50 km. hámarkshraðasvæði, sem fáir taka mark á.
Á meðan ég beið hugleiddi ég í fyrsta lagi ógnvekjandi framkomu löggunnar, sem er ákaflega ungur maður, hvort svona framkoma væri nauðsynleg við þessar aðstæður, og mín eigin viðbrögð; ég snerist þegar í stað til varnar og varð reiður yfir þessari framkomu unga mannsins. Var það vegna þess að við Íslendingar þekkjum ekki her né vopnaða lögreglu og erum yfirleitt óvanir afskiptum löggunnar nema við höfum brotið eitthvað af okkur? Hvað myndi gerast ef valdstjórnin færi að beita sér gegn okkur fyrir alvöru? Myndi ég snúast til varnar ef ég væri á annað borð sannfærður um að aðgerðir mínar væru réttlætanlegar? Þarna er ég náttúrlega að meina mótmælaaðgerðir í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Ég tek það fram að ég er alveg sammála lögreglunni um að hart þurfi að taka á glæponum sem taka sig til og ráðast á lögreglumenn. Það er algjör óhæfa sem dómstólum ber að taka hart á því þessir ungu menn sem eiga meðal annars að kljást við afbrotamenn, sölumenn dauðans og brjálaðar fyllibyttur eiga skilið að samfélagið veiti þeim þá vörn í þessu hættulega starfi sem hægt er.
En þarna eru ákveðin takmörk. Ég var að lesa um mótmæli ungra samfylkingarmanna (sem einu sinni hétu ungkratar) við kínverska sendiráðið. Er það virkilega rétt að stór hópur íslenskra lögreglumanna sé hafður í grennd við sendiráðið og fólk sem leggur leið sína þangað sé spurt um nafn og kennitölu? Er ástæða til að hafa þvílíkan viðbúnað hér í hinni friðsælu Reykjavík? Er ekki nóg að Kaninn sé haldinn móðursýkislegri hræðslu og láti loka Laufásveginum? Er ástæða til að sýna fulltrúum kínverskra stjórnvalda, sem eru þekkt fyrir mannréttindabrot, slíka tillitssemi? Er ekki óþarfi að binda stóran hóp lögreglumanna við að gæta eigna slíkra stjórnvalda á meðan lögreglan er fjársvelt og á erfitt með að halda uppi eðlilegu umferðareftirliti á götum og vegum þar sem hinir einu sönnu íslensku hermdarverkamenn eru á ferðinni? Friðsamt áhugafólk um alþjóðastjórnmál, lýðræði og málfrelsi ætti að geta afhent sín mótmæli í friði fyrir "valdstjórninni", jafnvel hellt rauðri málningu á tröppur.
Og hananú!
Að lokum klipp úr fréttum dagsins á ruv.is. Hvernig skyldi þessi frétt hafa verið lesin? - eða þessi bútur úr þeirri undarlegu frétt að fjárhagsvandi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli var leystur með því að flytja tollarana undir fjármálaráðuneytið - og að Bj. Bj. hafnar því jafnframt að vallarlögreglan eigi við fjárhagsvanda að stríða:
ruv.is skírdag, 20. marsGuðbjörn Guðbjörnsson, formanni tollvarðafélagsins, lýst ekki vel á nýjar hugmyndir og hvernig að þeim var staðið. Algjör óvissa sé um hver verði tollstjóri 1.júlí. Hann segist ennfremur ekki sjá hver sé ávinningur breytingarinnar, hvorki faglegan né fjárhagslegan.
Gaman væri að fá komment á þetta ef einhver nennir að lesa þetta blogg mitt!
Athugasemdir
Þakka áhugaverð skrif með þörfum ábendingum. Vonandi gildir í þessu sem endranær að dropinn holar steininn.
Gunnar Þórarinn Grettisson (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 14:14
Ég sé nokkrar undarlegar málvillur í þessari frétt. Var þetta flutt svona?
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 21.3.2008 kl. 01:40
Jeg tror at politimannens oppførsel var på grunn av at han var stresset og usikker.
Jeg kjente meg litt igjen da jeg var vitne til en ulykke og måtte hente hjelp. Jeg var så redd og sjokkert og ropte bare hjelp, hjelp og fikk ikke opp et ord. Heldigvis var det på et sted hvor folk straks forsto hva som var i veien.
Dette med ambassaden er oppblåst. Dette virker heller provokerende på folk. Her prøver myndighetene å ligne på det ville vest.
Heidi Strand, 21.3.2008 kl. 14:24
Löggan er ekki öfundsverð, undirmönnuð og illa launuð í starfi sem verður sífellt umfangsmeira og hættulegra. Það er þó mikilvægt að þeir haldi ró sinni við atburð eins og þann sem þú skrifar um. Þetta hlýtur að vera undantekningartilfelli.
Kristbergur O Pétursson, 24.3.2008 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.