Málfar sem gengur ekki í RÚV

Ég ætti eiginlega að hafa fyrirgert rétti mínum til þess að halda úti bloggsíðu með því að hafa látið líða á aðra viku án þess að setja inn nýja færslu. Á meðan hafa líklega um tvöhundruð manns litið á síðuna! Ég veit ekki hvernig eða af hverju það gerist en það eru fleiri lesendur en ég hafði ímyndað mér. Það undarlega og stórfurðulega við bloggið er nefnilega að þar skrifar maður fyrir heiminn - allir hafa í rauninni möguleika á aðgangi, á því að lesa það. Hins vegar er afskaplega takmarkaður fjöldi fólks sem hefur tungumálakunnáttu til að lesa það sem hér stendur og enn færri gera það. En semsagt: furðumargir.

Það sem gerði að ég settist niður núna var eiginlega tvennt. Stúlka í sjónvarpinu sem var að kynna væntanlega afhendingu tónlistarverðlauna ársins hafði kallað til sín tónlistarmanninn Múgison og sagði eitthvað á þessa leið: Margir eru ánægðir með hvernig þú ert að lúkka, Múgison. Þarna urðu stúlkunni á tvenn mistök sem hvor um sig ættu að vera brottrekstrarsök frá RÚV. Ég læt fólk um að átta sig á hvað ég er að fara.

Hitt er þessi frétt af ruv.is. Ég heyrði ekki fréttir í kvöld en skilur einhver þetta? Ég hef hugsað mér að benda Aðalstein Davíðssyni málfarsráðunaut á þessi ósköp:

 Gengið réttara en um langa hríð

Gengi íslensku krónunnar er nær því að vera rétt skráð nú, en verið hefur um langa hríð, að mati Sveins Hjartar Hjartarsonar hagfræðings Landsambands íslenskra útvegsmanna. Tekjur sjávarútvegsins aukast um 25 milljarða við breytingar á genginu og vega upp niðurskurð á þorskkvótanum.

Íslenskur sjávarútvegur hefur orðið af 15-20 milljarða króna tekjum árlega síðustu árin vegna þess að gengi krónunnar hefur ekki verið rétt skráð segja útvegsmenn.

Eðlilegt sé að gengisvísitala krónunnar sé á bilinu 135-140 stig. Þótt gengisvísitalan sé ívíð hærri nú eða tæp 160 stig gengi krónunnar lægra það er, sé sú staða nær lagi en verið hafi í langan tíma. Sveinn Haukur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, segir gengislækkun krónunnar ekki eiga að koma neinum á óvart. Gengið hafi verið allt of hátt skráð. Leiðréttingin sé tímabær.

Sveinn Hjörtur telur raunhæft að ætla að sjávarútvegurinn nái sömu tekjum og á síðasta ári eða 128 milljörðum króna vegna gengisþróunarinnar. Gengisvísitala í tæpum 160 stigum sé nær lagi en þegar krónan var sterk og vísitalan um og yfir 100 stig um skeið.

Í þriðju málsgrein fer eitthvað verulega úrskeiðis. Öll merking hverfur út í buskann og blm. fer að skrifa í viðtengingarhætti án sýnilegrar ástæðu. En þessi viðtengingarháttarskrif hafa færst mjög í vöxt og eru látin koma í stað beinnar ræðu - þ.e. blm. umsnýr beinni ræðu í óbeina á þann hátt. Ég tók raunar fyrst eftir þessu í fréttatímum útvarps hjá einum af þaulreyndustu fréttamönnunum. Þessi stíll gengur alls ekki; sem skattgreiðandi, dyggur útvarpshlustandi og gamall blaðamaður mótmæli ég þvílíku og öðru eins.

Ef mér tekst að fella blogg-skrif inn í daglega rútínu mína (sem er þó frekar órútína) má eiga von á fleiri pistlum sem þessum. Af dæmum á ég nóg.

En læt þetta duga í bili


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Halda ætti íslenskupróf, bæði munnleg og skrifleg, fyrir fjölmiðlafólk og reyna með því að bjarga einhverju. Á örfáum árum hefur málið okkar breyst í einhvern bráðsmitandi hrylling: „Ég er ekki að geta þetta, ég er ekki að vilja þetta, hvar voruð þið að sitja?“ o.s.frv. Soffía, veðurþulur hjá Stöð 2, er sú eina í þeirri deild sem segir ekki: „Ég er að gera ráð fyrir ....", hún segir réttilega: „Ég geri ráð fyrir ...“ og er uppáhaldið mitt fyrir vikið. :) Að „lúkka“ er náttúrlega talmálssletta sem ætti ekki að heyrast í virðulegum fjölmiðli ... Þegar ég vann hjá RÚV fyrir 20 árum var þar frábær málfarsráðunautur sem hikaði ekki við að leiðrétta fólk. Nú held ég að flestir hafi gefist upp fyrir þessari breyttu íslensku sem heyrist æ oftar, meira að segja hjá ráðherrum og öðrum hefðardúllum. Takk fyrir pistilinn.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 18.3.2008 kl. 20:47

2 Smámynd: Kristbergur O Pétursson

Haltu áfram að koma með spaugileg dæmi um málfar. Maður getur alltaf lært og bætt málfar sitt, og hlegið á meðan. Ég tel mig þokkalega talandi og skrifandi en veit samt að mér verður oft á einhver skyssa.

Sammála Guðríði um Soffíu veðurþulu. Hún er bara flott, og ég legg eyrun við af áhuga þegar hún útlistar bil á milli þrýstilína.

Ég var að ljúka við að lesa einhverja verst þýddu bók á íslenskri tungu sem um getur. Það er ævisaga einnar bernskuhetju minnar, rokkarans Keith Richards, útg. 1994, þýdd af engum öðrum en Illuga Jökulssyni. Ég hef marglesið á frummálinu margt sem eftir honum er haft í bókinni og veit þess vegna að karlinn talar skýrt og skiljanlegt alþýðumál. Keith er enginn venjulegur gítarauli heldur bráðgreindur, frábær listamaður á sínu sviði og húmoristi með sérstaka frásagnargáfu. Þýðingin er hroðvirknisleg og á köflum hreinlega óskiljanleg. Væri fróðlegt að lesa verri þýðingu eða bók yfirleitt.

Keith er kannski misskilinn vegna þess hve hann er útlitsgallaður greyið. En fáir listamenn hafa lagt harðar að sér og verið staðfastari en hann. Vakandi og vinnandi sólarhringum og vikum saman (aukaefnalaust) og í sömu fötunum. Það má kalla hann Michelangelo rokksins fyrir það.

Kristbergur O Pétursson, 20.3.2008 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband