8.3.2008 | 22:55
50 Hafnfirskir listamenn
Á 100 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar tölti ég undir marssólinni niður í Hafnarborg og var viðstaddur opnun á sýningu á verkum 50 hafnfirskra listamanna, í tilefni af téðu afmæli og aldarfjórðungsafmæli listamiðstöðvarinnar sem apótekarinn Sverrir gaf bænum á sínum tíma. Þar var nánast fullt hús en samt sem áður leit Strandgata þannig út um þrjúleytið þegar ég rölti niðureftir:
Var þessi mynd tekin á aðalgötu bæjar þar sem íbúar eru um 25 þúsund? Já, það er víst. Hvar voru þá íbúarnir? Í Smáralindinni?
En það reyndist vera dálítið mannlíf í þessum bæ þrátt fyrir allt. Í Hafnarborg tók ég þessa mynd:
Þarna eru tveir fimmtugustu af listamönnunum, Góa systir og ýmsir fleiri. Sýningaropnunin var vel heppnuð, hvítvínið ágætt. Sem betur fer breytti Pétrún opnunarsiðunum og hætti að hafa opnanir klukkan fimm á fimmtudögum. Þann tíma sem sá siður var hafður komu fáir af hinum föstu opnunargestum en nú eru þeir farnir að sjást aftur. Þar á meðal mín ágæta vinkona, nú bloggvinkona, Heidi Strand, listakona frá Þrándheimi, og bloggvinurinn Kristbergur úr Hafnarfirði, listmálari og öðlingur. Já, og Adda og Teddi frá Bolungarvík og Siglufirði, vinir frá Noregstíma.
Eins og sést á efri myndinni skein marssólin í dag og við vitum að héðan af hækkar hún á lofti dag frá degi. Þess vegna eigum við að vera bjartsýn en ég get samt ekki að því gert að mér finnst eitthvað að hér í Hafnarfirði. Ég lyfti glasi og kinkaði kolli til Lúðvíks bæjarstjóra en mér fannst hann taka heldur dræmt undir kveðju mína. Getur verið að hann sé svekktur vegna greinarinnar sem ég skrifaði í Moggann um skipulagsslys í Hafnarfirði? Ef hann er það er enn dálítil von. En ef ekki.... Enginn sem ég tala við mælir Norðurbakkaslysinu bót. Og það verður ekki aftur tekið. Líklega telst ég vera óvildarmaður Hafnarfjarðar rétt eins og menntamálaráðherrann telur mig óvildarmann Ríkisútvarpsins vegna þess að ég hef gagnrýnt ýmislegt sem þar hefur verið gert, í nafni Hollvinasamtakanna. Það var rifjað upp í útiskýli Suðurbæjarlaugar í morgun og sá sem það gerði spurði hvaða hugmyndir ráðherrann gerði sér um lýðræðið þegar (hún) telur þann sem hefur aðrar hugmyndir um Ríkisútvarpið en (hún) sjálf sé þess vegna óvildarmaður útvarpsins! Ein skoðun er rétt, hin eina rétta skoðun!
Það er náttúrlega mjög gott að hafa alltaf rétt fyrir sér!
En hvað ætlaði ég nú að segja? Hún yngri dóttir mín, hún Vala, skrifaði athugasemd við blogg mitt á þá leið að þessi köttur, Hallormur, væri eilífur. Hver er Hallormur? Hann var stór partur af lífi mínu. Hann var köttur sem ég fórnaði fyrir frelsi mitt eftir 15 ára sambúð. Um hann skrifaði ég eitt sinn sögu og las í útvarpið. Hann tengir saman tvö fyrri tilverustig mín og kemur kannski við sögu síðar.
Sem stendur er þetta tilvera mín:
Nú er nóg bloggað í bili, líklega of mikið, persónulegra en ég ætlaði. Næst: Um blaðamennsku, lífið og tilveruna. Eða allt þetta í senn.
Athugasemdir
Góðan dag.
Það er betra með sýningaropnun um helgar því þá koma fleiri gestir. Mér fannst samsýningin skemmtilegt framtak en ég hefði viljað sjá fleiri nýr verk gerð sérstaklega fyrir þessa afmælissýningu. Mörg verkanna hef ég séð áður en það voru líka nokkur ný verk sem komu skemmtilega á óvart.
Heidi Strand, 9.3.2008 kl. 10:56
Takk! Já það er alltaf gaman að mæta á opnun í Hafnarborg og hitta kollega og listunnendur. Þú misstir af partíi heima hjá Hjördísi og Kristjáni á Hvefisgötunni. Mér fannst opinberi geirinn þunnskipaður á opnuninni, allavega var Lúlli farinn þegar ég mætti. það verður fróðlegt að lesa umsagnir um Norðurbakkann í fagritum um arkitektúr og skipulag. Hvernig sem það verður breytist ekki mín skoðun á málinu.
Kristbergur O Pétursson, 10.3.2008 kl. 09:11
Um mannlífið á Strandgötunni: Hvernig væri að listamenn héldu minningarvöku um liðið mannlíf í miðbæ Hafnarfjarðar? Til dæmis á þrettándanum; það var amk. líf í tuskunum hér forðum daga á þeim degi.
Kristbergur O Pétursson, 10.3.2008 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.