6.3.2008 | 20:34
Mozart er æði!
Já, ekki bara Mozart heldur líka þær stöllur Arndís Halla Ásgeirsdóttir sópran og Antonía Hevesi píanóleikari. Þær voru frábærar í Hafnarborg í Hafnarfirði í hádeginu í dag.
Á leiðinni heim eftir tónleikana, í sæluvímu og hundslappadrífu, hugsaði ég með mér að fyrst ég væri byrjaður að blogga skyldi ég hafa þetta fyrir frétt dagsins í mínu litla og heldur friðsæla lífi og fór að hugleiða breytta tíma: Nú væri ég kominn með minn eigin miðil þar sem ég væri eigandi, fréttastjóri og blaðamaður (verð að muna eftir að rausa svolítið um það alltsaman og rifja upp það sem Jónas Kristjánsson sagði um daginn). Áður fyrr hafði ég atvinnu af fréttamennsku en nú ræð ég semsagt yfir mínum eigin miðli, ræð sjálfur hvað er frétt og hvað er ekki frétt. En í dag gekk ég raunar beint inn í frétt sem mér hefði þótt fengur í þegar ég annaðist lögreglufréttir á Fréttastofu Útvarps: Ég ætlaði í bakaríið í Firðinum á heimleiðinni og rak þá augun í sjónvarpsmenn og spurði nærstadda hvað væri að gerast. Jú, það hafði verið framið bankarán í Kaupþingi-banka en ræninginn fékk samviskubit og sneri aftur með fenginn, sem var ekki mikill, en gekk þá beint í flasið á löggunni. Vonandi bjargast hann frá glapstigum sínum. Þetta held ég að gæti hvergi gerst nema á Íslandi - og líklega í Færeyjum. Svo yndislega sveitalegt í bestu merkingu þess orðs! Ekkert vesen, enginn terrorismi, bara afslappað, huggulegt, misheppnað bankarán. En hvers vegna þurftu starfsmennirnir áfallahjálp? Ég skil það nú ekki.
En ég var semsé að koma af Mozart-tónleikum og var afskaplega hrifinn af söngkonunni, sem gerði sér lítið fyrir og flutti sem aukalag sjálfa Næturdrottninguna. Ég er svosem enginn óperusérfræðingur en efast ekki um að þetta hafi verið gríðarlega flott, í það minnsta táraðist ég þegar hún Arndís gaf allt í botn á kristaltærum háu nótunum! Og hún Antónía, sem ég held að sé frá Ungverjalandi, kynnti lögin á frábærri íslensku (hefur verið hér frá 1992); það voru lifandi og fræðandi frásagnir. Þær voru góðar saman. Takk fyrir, stúlkur!
Af fréttum dagsins finnst mér athyglisverðust niðurstaða vísindamanna sem hafa verið við rannsóknir við Mývatn og sýnt fram á að kísilgúrverksmiðjan hafi eyðilagt silungastofninn í vatninu og líklega verði ekki unnt að bjarga honum. Margir vöruðu við þessu en Mývetningar eru stoltir og láta ekki segja sér fyrir verkum. Í þessu samhengi er líka athyglisverð fréttin um að lífríkið fyrir neðan stóru stífluna í Grand Canyon sé að deyja vegna þess að set berst ekki niður fyrir hana; þess vegna hleypa þeir núna nokkrum milljónum sekúndulítra framhjá til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Hvað með Lagarfljót og hin náttúrulegu áhrif setsins í Héraðsflóa? Hvenær ætla menn að vitkast og hætta þessu fikti við náttúruna? Líklega seint. En fiktið hefnir sín alltaf að lokum. Leyfið líka kúnum á Egilsstöðum að hafa sína hentisemi! Og kennarar þar eystra: Notið tækifærið til þess að ganga úr skugga um að öll börn á Héraði kunni að beygja orðið kýr!
Önnur athyglisverð frétt var í Útvarpinu og um hana fjallað í þeim ágæta þætti Speglinum: Læknar hafa sýnt fram á að atvinnuleysi eykur tíðni dauðsfalla af hjarta- og æðasjúkdómum. Í okkar þjóðfélagi stafar atvinnuleysi eigi ósjaldan af uppsögnum vegna hagræðingar, sameiningar fyrirtækja og sparnaðar, sem hægrimenn telja óumflýjanlegan þátt í atvinnurekstri. En sú hugsun gengur út frá því að heill fyrirtækisins gangi fyrir öllu og einstaklingunum sé fórnandi fyrir hana. Þetta leiðir hugann almennt að því hvort sé mikilvægara fólkið í byggðunum vítt og breitt um landið eða hluthafarnir sem sitja heima og bíða eftir ávöxtunum af sínu pundi.
Svo er best að gerast persónulegur að lokum, þvert á öll fyrirheit því ég stenst ekki að minnast á marssólina sem hefur lífgað upp á sálartetrið í dag og gær og gefið fyrirheit um að nú stefnir allt í eina átt, til vors og sumars. Þeir lofa norðanátt næstu daga og hún er alltaf góð hér í Hafnarfirði, ekkisíst hér vesturundir hraunkantinum. Alltaf logn í norðanátt! Og nóvemberkaktusinn minn er kominn með knúppa í þriðja sinn þennan veturinn! Lífið gengur sinn gang og vel það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.